Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Ljósaperur á Alþingi og víðar

Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu? Mér þykir líklegt að þeir geri það alls ekki.

 

Eitt sinn vann ég á ríkisstofnun þar sem voru margar ljósaperur (þar á ég ekki við starfsmennina heldur lýsingarbúnað). Oft kom fyrir að ég og aðrir skiptum um ljósaperur þegar þörf krafði. Jafnvel á hverjum degi. Þarna var mikið af loftljósum með flúrpípum eða hvað það heitir - aflöngum ljósaperum - og sífellt var einhver að bila og blikka. Nóg var af varaperum í geymsluherbergi.

 

Athæfi okkar komst upp - þetta athæfi að skipta um peru eins og ekkert væri, hvort sem þær voru kúlulaga eða aflangar - og taldist hið versta mál. Á þessu var tekið af ábyrgð og festu: Starfsmönnum var stranglega bannað að skipta um peru, ef hún var aflöng. Heimilt var að skipta um peru, ef hún var kúlulaga og bilunin taldist hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þess sem perunnar naut. Kalla skyldi til löggiltan rafvirkjameistara, sem tiltekinn var, hvenær sem aflöng pera bilaði. Hann skyldi jafnframt skipta um kúlulaga perur, sem starfsmenn höfðu ekki skipt um vegna þess að bilun þeirra taldist ekki hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þeirra sem þeirra nutu.

 

Mig minnir að rafvirkjameistarinn hafi eftir þetta setið hjá okkur flesta kaffitíma.

 

Annars held ég að það séu ekki margar ljósaperur á Alþingi núna.

 

Hvað þarf margar ljósaperur til að skipta um þingmenn?

 
mbl.is „Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar, Björn Bjarnason og vanmetakindurnar

Vansælar manneskjur eru sífellt að narta í Ólaf Ragnar Grímsson - alveg sama hvað hann gerir eða gerir ekki. Einkum virðist hér um að ræða fólk sem hefur árangurslítið reynt að komast til metorða á hægri vængnum og reynir enn með þessum hætti að vinna sig í álit með þráhyggjukenndu röfli í garð forsetans. Því ómerkilegri sem karakterinn er, þeim mun meira nöldur í garð Ólafs Ragnars.

 

Hliðstæðan á hinum vængnum eru þráhyggjukenndar árásir á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Alveg sama hvað hann segir eða gerir, alveg sama hvað hann segir ekki eða gerir ekki - vanmetakindur sem halda að þær séu vinstrisinnaðar eru alltaf tilbúnar með svigurmæli í hans garð.


Með tetanus í höfðinu

Kisa beit mig í gærmorgun; auk þess er ég illa klóraður. Varla voru liðnar tíu mínútur þegar ég hringdi á heilsugæslustöðina í Búðardal og spurði eftir lækninum. Mér var sagt að hann yrði með viðtalstíma hér á Reykhólum síðdegis. Takk, skrifaðu mig niður, sagði ég, en þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi.

 

Mér hefur staðið stuggur af tetanusi - stífkrampa - allt frá unglingsárum þegar hann kom við sögu í námsefninu hjá Örnólfi Thorlaciusi. Svo virðist hann hafa magnast í höfðinu á mér með tímanum. Ég hef alltaf tekið sérlega vel eftir tetanustilfellum í frásögnum og kvikmyndum, nú síðast í bresku gamanþáttunum af geðstirða sveitalækninum í Sjónvarpinu í vetur.

 

Tilvitnuð orð mín, mælt af rósemi þess manns sem hefur séð Róm og mætir dauða sínum óvílinn - þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi - urðu til þess að ég fékk ég forgangsþjónustu og bæði pensilín og stífkrampasprautu. Og er enn á lífi, hvað sem síðar verður.

 

Það var ekkert persónulegt þegar kisa beit mig og klóraði. Forsaga og málavextir eru sem hér segir:

 

Erla dóttir mín kom í nokkurra daga heimsókn ásamt hundi sínum, Dexter að nafni. Þegar hún fer aftur verður hundurinn eftir í fóstri fram á vorið. En það er þetta með hund og kött. Dexter er vanur köttum og hinn ljúfasti, en kisa mín - Helga Guðrún Geirdal fulltrúi - er alls óvön hundum. Og bregst hin versta við. Nema hvað, í gærmorgun var ég með hana í fanginu og færði mig smátt og smátt nær hundinum sem ég króaði af úti í horni - hann var smeykur - og reyndi að tala á milli þeirra líkt og prestur á milli hjóna. Þetta gekk vandræðalítið uns varla var nema spönn milli trýnanna. Kisa var að vísu síurrandi inni í sér. Þá hreyfði hundurinn sig ógætilega og kisa breyttist á sekúndubroti í ægilegt óargadýr. Grimmdarhljóðið í ketti við þessar aðstæður er skelfilegt. Ég varð höndum seinni að sleppa kisu og áður en varði var hún allt í senn búin að klóra mig til blóðs, bíta mig á kaf í höndina og horfin á braut.

 

Við Dexter sátum eftir og hugsuðum líklega báðir það sama: Tetanus!

 

Mér leið betur þegar ég var búinn að fá sprautuna. Ekki í hendinni heldur sálinni. Svo gúglaði ég tetanus. Wikipedia segir m.a.: The incubation period of tetanus ranges from 3 to 21 days, with an average onset of clinical presentation of symptoms in 8 days. Og ég hugsaði með mér: Kannski hef ég verið aðeins of dramatískur. Wikipedia segir líka: The highest mortality rates are in unvaccinated persons and persons over 60 years of age. Og þá leið mér enn betur: Ég verð ekki kominn yfir 60 years of age fyrr en eftir mánuð.

 

Núna verður mér hugsað til Þorgils Arasonar forvera míns hér á Reykhólum, sem gat haldið samtímis heilan vetur vandræðalaust Gretti Ásmundarson og þá fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kolbrúnarskáld. Ætli mér sé vandara að þreyja þorra og góu með einn hund og einn kött?

  

16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

 

Ég sagði það ...

Enn er elsta kona heims dáin. Ekki veit ég hvar þetta endar. Var það ekki einmitt hér á mbl.is sem sagt var að elsta núlifandi manneskja í heimi væri látin? Elsta núlifandi manneskja ...? Það er ekki nema hálf önnur vika síðan ég fjallaði um skuggalega háa dánartíðni elstu konu heims en þó einkum um fréttaflutninginn af andlátinu:

 

19.01.2007 Hættan við að verða gamall

 
mbl.is Elsta manneskja í heimi látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jaðaríþróttir á borð við póló, starfshlaup og handbolta

„Það er nánast ekkert fjallað um gengi Íslendinga í dönskum fjölmiðlum ef frá er talin frétt snemma í mótinu þar sem sagt var frá því að Ísland væri á leið út úr HM. Í undirmálsgrein var síðan sagt frá því að Frakkar hefðu tapað gegn okkur, ekki að við hefðum sigrað Frakka.“

 

Þetta segir Birgir Þór Bragason á bloggi sínu í morgun. „Danskir íþróttafréttamenn og meðreiðarsveinar þeirra, sérfræðingarnir, eru búnir að sigra í leiknum við okkur Íslendinga. Þeir voru farnir að tala um okkur sem auðveldustu mótherjana strax þegar tíu mínútur voru eftir af leik þeirra í gærkvöldi. Hefðum ekki getað verið heppnari, við erum svo gott sem komin áfram í fjögurra liða úrslit, þetta heyrðist aftur og aftur“, segir Birgir líka.

 

Ekki er maður neitt óvanur slíku. Ætli Danir muni ekki 14-2 landsleikinn í fótbolta hér um árið alveg eins vel og Íslendingar, ef til vill betur? Einhvern veginn virðist mörgum Dönum tamt að líta niður á núverandi og fyrrverandi þegna sína í norðvestrinu, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga. Kannski ekki að ástæðulausu.

 

Í dönskum fjölmiðlum er nokkuð fjallað um heimsmeistaramótið í handbolta. Raunar er minnst á það í þýskum vefmiðlum líka, þó að þar sé yfirleitt lítið fjallað um jaðaríþróttir á borð við póló, starfshlaup, dráttarvélakappakstur og handbolta. Ástæðan fyrir athygli þýskra fjölmiðla er líklega sú, að mótið er haldið í Þýskalandi að þessu sinni.

 

Þýskur handbolti hefur á liðnum árum verið mikið í íslenskum íþróttafréttum. Þannig er skilmerkilega greint frá úrslitum í leikjum liða í þýskum sveitaþorpum ef Íslendingur er meðal leikmanna. Ætli margir Íslendingar kannist við ýmsar af helstu „borgunum“ í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta nema vegna þess hversu margir Íslendingar hafa spilað með þýskum liðum - Melsungen, Lübbecke, Balingen, Hildesheim, Göppingen, Wilhelmshaven, Nordhorn, Grosswallstadt, Wetzlar, Minden, Lemgo eða Östringen?

                                 

Ein helsta ástæðan fyrir viðgangi handboltans í sveitaþorpum í Þýskalandi og víðar er sú, að í litlum byggðarlögum er auðveldara að ná saman sjö mönnum í handboltalið en ellefu mönnum í fótboltalið. Í þeim allra minnstu þarf samt oft að fá einn eða tvo gaura frá Íslandi til að hægt sé að senda fullskipað lið út á völlinn.

 

Þjóðverjar eru stundum sagðir vita mikið um Ísland. Og það er alveg rétt. Stundum má hitta Þjóðverja (undanskil hér auðvitað þýska túrista á ferðalagi um Ísland) sem vita fullvel að á Íslandi býr germönsk þjóð en ekki ínúítar, germönsk víkingaþjóð sem trúir á Óðin og Þór og hakakrossinn og spilar handbolta á björtum sumarnóttum við heimskautsbaug. Þó getur jafnvel hinum skýrustu skjöplast í þessum efnum sem öðrum, sbr. frásögn af tónlistarkonunni Björk í Spiegel eða Stern fyrir kannski fimm til tíu árum, þar sem talað var um hana sem íslensku ínúítastúlkuna.

 

Við Íslendingar erum á heimsmælikvarða í handbolta þótt ekki höfum við enn orðið heimsmeistarar. Hvernig væri nú að leggja megináherslu á einhverja aðra jaðaríþrótt þar sem líkur væru á enn betri árangri á alþjóðavettvangi en jafnvel í handboltanum? Hvenær vinnum við Evrópumeistaramótið í sviðakappáti? Og hvenær verðum við heimsmeistarar í íslenskri glímu?

 

Áfram Ísland!

 

Mis-spennandi dagar

Í gær var spennandi dagur. Þá var leikið um réttinn til að komast í átta liða úrslit á HM og varaformaður kosinn á landsþingi Frjálslynda flokksins. Í dag er ekki spennandi dagur. Íslenska landsliðið spilar málamyndaleik við Þjóðverja og nýkjörin stjórn Frjálslynda flokksins kemur saman.

 

Framundan er spennandi tími hjá íslenska landsliðinu í handbolta en ekki hjá Frjálslynda flokknum.

 

Eiguleg bók fyrir konur eftir eigulega konu

Jafnvel tortryggnustu og öfundsjúkustu konum mun finnast erfitt að standast þessa heillandi og fallega skrifuðu bók. Fyrir hverja þá konu sem er komin út af sporinu, hefur misst af South Beach-æðinu eða hefur óvart látið kolvetni inn fyrir varir sínar, er hér skemmtileg og jákvæð aðferð til að halda sér grannri. Líf án lífstykkis og sektarkenndar.

Ég smellti óvart á auglýsingu á forsíðu mbl.is - geri slíkt ekki viljandi - og þá blasti við mér dásömun dásemda dásamlegrar bókar fyrir konur: Franskar konur fitna ekki! Mireille Giuliano lýsir lífsspeki sinni með ljúfum minningum, þar á meðal nánast andlegu stefnumóti við ostrur.

Mireille, sem er frönsk, fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna þegar hún var unglingur og kom feit til baka. Til allrar hamingju kom heimilislæknirinn henni til bjargar og fræddi hana um matargerðarlist. Núna fræðir hún aðrar konur.

 

Mireille er grönn, glæsileg og vel máli farin, skynsöm og nýtir sér kænskubrögðin feimnislaust, alveg eins og frönsku konurnar, fyrirmyndirnar, sem hún fær lesendur sína til að dást að og líkja eftir, segir Adam Gopnik.

 

Ekki aðeins hrífandi saga heldur einnig sönn frá einni frábærustu konu í heimi, segir Emeril Lagasse matreiðslumeistari.

 

Silja Aðalsteinsdóttir má vart vatni halda í Tímariti Máls og menningar.

 

Og ekki spillir þetta: Ég mæli hiklaust með henni við allar konur sem kunna að njóta lífsins og vilja njóta þess enn betur, segir Sigríður Albertsdóttir í DV.

 

Inni í auglýsingunni hér á mbl.is gefst konum kostur á því að taka krossapróf og svara þar með spurningunni: Hversu frönsk ertu? Ég stóðst ekki mátið, enda hefur mér alltaf þótt gaman að taka próf - alveg naut þess þegar ég var í gagnfræðaskóla; auk þess dreymir mig um líf án lífstykkis og sektarkenndar - og komst að því hversu frönsk ég er: Þú hefur náð 32 stigum af 46 mögulegum. Farðu út og inn í næstu bókaverslun og náðu þér í eintak af Franskar konur fitna ekki. Þig bráðvantar alvöru ráðleggingar og þær færðu í Franskar konur fitna ekki!

 

Þetta er fín auglýsing. Flosa Ólafssyni hefði ekki tekist betur upp.

 

Sjálfur elska ég hamborgara og franskar (konur).

 

Listamannalaun: Falleinkunn í ritgerðarsmíði ...

Gísli Halldór Halldórsson forseti bæjarstjórnar sæmir Pétur Tryggva nafnbótinni Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.„Eins og kunnugt er fékk ég synjun við síðustu úthlutun starfslauna. Ég man ekki nákvæmlega hvernig synjunin var rökstudd, en mig minnir að það hafi verið vegna þess að greinargerðin um það sem ég hafði á prjónunum hafi ekki verið nógu orðmörg, ekki nógu margar línur eða ekki nógu margar blaðsíður. Vera má að svo fari líka núna. Gallinn er sá, að mér er lífsins ómögulegt að skrifa langt mál um listaverk sem ég á eftir að hanna og smíða. Ég hygg aftur á móti að ég hafi sýnt fram á það á liðnum árum og áratugum, að ég skapa silfurverk sem þykja nokkurs virði.“ 

Þannig kemst Pétur Tryggvi Hjálmarsson silfurlistamaður að orði í greinargerð með umsókn sinni til stjórnar listamannalauna fyrr í vetur.

 

Í þar til gerðum reit í umsókninni sjálfri - „stutt og hnitmiðuð lýsing á verkefni/verkefnum sem fyrirhugað er að vinna að á starfslaunatímanum“ - segir hann:

                              

 „Hönnun og smíði stórra silfurverka. Slík verk eru vaxtarbroddurinn í list minni þessi árin. Eins og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð er mér lífsins ómögulegt að skrifa um þetta langa ritgerð, jafnvel þó að reynslan ætti að hafa kennt mér að falleinkunn í ritgerðarsmíði geti orðið til þess að mér verði synjað um styrk til listsköpunar á vettvangi silfursmíði.“

Hvað sem þessu líður, og þótt sjálf greinargerðin með umsókninni nái ekki máli hvað lengd varðar frekar en fyrri daginn, þá fær Pétur Tryggvi að þessu sinni starfslaun úr Listasjóði í sex mánuði.

  

30.12.2006 Pétur Tryggvi útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar

 
mbl.is 506 sóttu um starfslaun listamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankafarganið, Korpúlfsstaðir og Baugsmál

Tvennt kemur í hugann þegar sér fyrir endann á Baugsmálum. Annars vegar „Landsbankafarganið“ árið 1909, sem varð til þess að Björn Jónsson Íslandsráðherra hrökklaðist frá, og hins vegar ofsóknirnar á hendur Thor Jensen og verksmiðjubúi hans á Korpúlfsstöðum á fjórða áratug liðinnar aldar.

 

Þessi mál eru vissulega hvert með sínum hætti, en þó má finna sameiginlega drætti í hvoru þeirra fyrri og Baugsmálum.

 

Sá er kannski helsti munurinn, að sennilegt má telja að einhverjir lærdómar verði dregnir af Baugsfarganinu.

 

Þó er aldrei að vita.

 
mbl.is Jón Ásgeir: „Mjög ánægjuleg niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

25. janúar 1947 - Al Capone dó, Tostão fæddist

TostaoSnillingurinn Eduardo Gonçalves de Andrade, betur þekktur sem Tostão, var eins mánaðar og ellefu daga gamall þegar ég fæddist. Hann er sextugur í dag. Jafnframt eru í dag sextíu ár frá því að snillingurinn Alphonse Gabriel Capone dó. Hann er betur þekktur sem Al Capone.

 

Daginn þegar Tostão leit ljós þessa heims varð Eusebio fimm ára, annar ógleymanlegur knattspyrnumaður. Næsta haust verða fjörutíu ár liðin frá leiknum á Laugardalsvelli, þar sem Eusebio var í liði Benfica á móti Val. Þá var sett aðsóknarmet á vellinum sem stóð í áratugi og stendur kannski enn, ég veit það ekki.

 

Knattspyrnuferill Tostãos var ekki langur. Vegna meiðsla hætti hann árið 1973, aðeins 26 ára gamall. Þá átti hann að baki 65 leiki með brasilíska landsliðinu og hafði skorað í þeim 36 mörk. Fyrsta landsleikinn lék hann 19 ára gamall snemmsumars árið 1966 og síðan spilaði hann á heimsmeistaramótinu í Englandi þá um sumarið. Brasilíumenn riðu ekki feitum hesti frá þeirri keppni en fjórum árum seinna urðu þeir heimsmeistarar. Þeir Pelé og Tostão voru eitrað sóknarpar.

 

Sumarið 1966 var Sjónvarpið ekki komið, það byrjaði þá um haustið. Samt horfði ég á marga leiki í heimsmeistarakeppninni í beinni útsendingu, en þá var ég í litlu borginni margfrægu og fagurbrúnleitu Siena á Ítalíu. Einhvern veginn er eins og allur fótbolti eftir það sé ómerkilegri. Hugsa að það liggi frekar í mér en fótboltanum an sich (þarna kæmi óhjákvæmilega an sich ef þetta væri óskiljanlegt heimspekirit á þýsku; þetta blogg er að vísu ekki óskiljanlegt heimspekirit á þýsku en ég hef hér samt an sich).

 

Úrslitaleikurinn milli Englendinga og Vestur-Þjóðverja á Vembli er mér ferskari í minni en nokkur annar leikur sem ég hef séð - og það er komið á fimmta áratug. Það var heitt í veðri á Ítalíu þetta sumar. Fornar og þröngar - fornþröngar - göturnar í Siena voru troðnar fólki þegar fór að húma á kvöldin. Í kyrru loftinu var þung og sérkennileg lykt - af ávöxtum og grænmeti í kössum við búðirnar, úr margra alda gömlum byggingum, úr pissustíunum, af fólkinu, af öllu. Bareigendur settu sjónvarpstæki út á stétt og stóla fyrir gestina til að horfa á leikina í heimsmeistarakeppninni og serveruðu birra og kælt te. Allir virtust halda með Þjóðverjum. Og ekki bara í fótbolta.

 

Gælunafnið Tostão mun þýða lítill peningur. Snillingurinn Tostão var aðeins 1,72 á hæð (og hefur varla stækkað síðan) og einstaklega snöggur og flínkur. Hann lagði stund á læknisfræði - rétt eins og Grímur Sæmundsen og Socrates -  og var starfandi læknir um skeið. Síðari árin hefur hann verið virtur dálkahöfundur í dagblöðum í Brasilíu.

 

Al CaponeÞetta var svolítið um manninn sem fæddist þennan dag fyrir sextíu árum. Svo er það hinn, sem dó þennan dag ...

 

Mafíuforinginn Al Capone - frægastur allra slíkra - Scarface - andaðist á sóttarsæng í fangelsi. Hann var aldrei sakfelldur fyrir neitt annað en bókhaldsbrot - tæknileg mistök.

 

Wikipedia - Al Capone

Crime Library - Al Capone

 

                   

Hér á Moggabloggi vantar aukabloggflokkinn Einskisverður fróðleikur. Til að gefa þessari færslu tilgang verð ég því að ljúka henni með heimspekilegri spurningu: Varð heimurinn betri daginn þegar Al Capone dó og Tostão fæddist?

                               

Annar sálmur: Í dag er Sólardagurinn á Ísafirði. Hér er smávegis um hann sem ég skrifaði fyrir réttum sex - ekki sextíu - árum:

 

25.01.01 Sólardagur Ísfirðinga er í dag, 25. janúar

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband