Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Fagnaðarfundir þessa heims og annars

Hundurinn Dexter fagnar mér líkt og fótboltamaður marki þegar ég kem heim. Þvílík læti! Þvílíkur fögnuður! Munurinn er sá, að enginn fékk á sig mark og þess vegna er enginn vonsvikinn. Kötturinn Helga Guðrún Geirdal gleðst líka en á langtum hófsamari hátt. Eitthvað svipað og þegar forsetinn rís úr sæti og klappar fyrir marki í landsleik.

 

Ég má til að vekja athygli á ljósmyndabloggi sem ég rakst á núna áðan. Aldeilis frábærar myndir! Ekki þekki ég höfundinn, sem heitir Halldór Sigurðsson. Þarna getur m.a. að líta mynd af kirkjustaðnum forna og nýja Mosfelli í Mosfellssveit. Í garðinum á Mosfelli höfum við heima verið jörðuð í marga mannsaldra. Þar verða líka fagnaðarfundir öðru hverju.

 

Finnbogi Hermannsson fréttamaður - in memoriam

Allir erum við börn hjá Boga, var einu sinni sagt. Það skal endurtekið nú, þótt Boginn sé annar en forðum. Finnbogi Hermannsson fréttamaður, forstöðumaður Svæðisútvarps Vestfjarða frá upphafi, er hættur störfum hjá Ríkisútvarpinu. Ég leyfi mér að skrifa hér nokkur orð in memoriam þótt maðurinn sé bráðlifandi; ég vona að hann skrifi nokkur orð um mig í Moggann eilífa í fyllingu tímans.

 

Föstu punktunum fækkar vestra. Björnsbúð er ekki lengur til. Ekki búðin hans Jónasar Magg þar sem menn keyptu appisín og kjöftuðu saman. Ekki Norðurtanginn. Ekki Vöruval hans Benna sem var kannski of mikið á undan sinni framtíð, líkt og Guðbjartur í Vagninum á Flateyri. Guðmundur Móises dó í síðustu viku. Guðmundur Marinósson er löngu farinn suður. Hvar er Lóa hans Gogga og hvar er Goggi hennar Lóu? Arngrímur Fr. Bjarnason löngu dáinn. Hvar eru ungu mennirnir, Tryggvi sem seinna var kenndur við Ora og Þorvaldur sem seinna var kenndur við Síld og fisk? Hvar eru Árnapungarnir? Hvar er minn fornvinur Björn Teitsson? Hann er víst fyrir norðan. Hvar er Gaui enskukennari? Hann er víst líka fyrir norðan. Matráðskonan góða í menntaskólanum hún Sonja hans Kristjáns dó í vetur. Hvar er Steinunn Kristjánsdóttir frá Breiðalæk? Hún er doktor í fornleifafræði. Hvar er Vilmundur læknir? Hann er víst orðinn landlæknir. Hvar er eiginlega allt? Hvar er ég?

 

Þegar stórt er spurt, eins og einhver sagði - verður stundum fátt um svör.

 

Pétur Sigurðsson er ekki lengur verkalýðsforinginn vestra. Það var verið að kjósa nýjan formann. Jú - í mínum huga verður hann áfram verkalýðsforinginn eini og sanni á Vestfjörðum. Þessi mikli persónuleiki, þessi gáfaði og skemmtilegi maður. Jafnvel þó að minn gamli góði nemandi Finnbogi Sveinbjörnsson hafi tekið við embættinu.

 

En - það var annar Finnbogi sem ég ætlaði að nefna. Finnbogi Hermannsson. Hann var og er í mínum huga einn af föstu punktunum í mannlífinu vestra. Mér hefur um fáa menn óskylda þótt vænna en hann. Man ég þá tíð þegar við átum og átum þjóðlegan mat, ekki síst saltket og baunir, sem hans góða kona Hansína eldaði ofan í okkur, og svo lágum við á meltunni inni í stofu og hlýddum hvor öðrum yfir upp úr latínubókum. Það var gaman! Við vorum báðir í gamla góða MR í gamla daga. Þess vegna kannski erum við svo miklir krakkar inni við beinið og höfum gaman af latínu. Finnbogi er betri í fornbílum en ég þó að ég telji mig betri í latínu.

 

Finnbogi Hermannsson er víðgreindur maður, víðlesinn og klár á flesta hluti. Ekki síst íslensku, en sú gáfa er ekki mikils metin í hópi fréttamanna í seinni tíð, að mér virðist.

 

Oft kvörtuðu ráðamenn yfir því sem þeir kölluðu neikvæðar fréttir hjá Finnboga. Hann svaraði því til, að vissulega væri það frétt þegar eitthvað færi úrskeiðis. Réttilega.

 

Fyrir kom að mér sjálfum þótti Finnbogi svolítið neikvæður. Það var einkum á þeim árum þegar ég var ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins og þess vegna í vissri samkeppni við hann. Ég man þegar við Finnbogi og Smári Haraldsson tókum nokkra rimmu um þessi efni. Við Smári stóðum saman gegn Finnboga. Kannski hafa viðhorfin hjá mér breyst eitthvað síðan. Kannski hjá Finnboga líka, ég veit það ekki.

 

Það er sjónarsviptir eða öllu heldur heyrnarsviptir að Finnboga Hermannssyni. Kannski skrifa ég á næstunni um brotlendingu okkar á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum.

 

Finnbogi er einn af hornsteinunum vestra á liðnum áratugum. Hornsteinn úr gifsi eða granít, allt eftir viðhorfum líðandi stundar.

 

Heimsókn frá Reykhólaskóla - kærar þakkir!

Það var bankað hjá mér áðan. Úti var hópur af krökkum úr Reykhólaskóla ásamt Ástu Sjöfn kennara. Erindið? Að gefa mér köku! Við hana voru festir tveir miðar. Á öðrum stendur: Til Hlyns, frá krökkunum í Reykhólaskóla. Á hinum: Hamingjan er ómetanleg en kostar ekkert. Þar er líka teiknuð andlitsmynd sem kannski á að vera af mér. Minnir samt frekar á brosandi kött, að mér finnst. Ef til vill minni ég sjálfur á brosandi kött. Ekki þætti mér það neitt slæmt, síður en svo!

 

Frá ReykhólumJá, núna er þemavika í Reykhólaskóla og nemendurnir biðja íbúa Reykhólahrepps um liðveislu í því að gera okkar góða samfélag enn betra. Krakkanir minna okkur meðal annars á að við getum boðið góðan dag með bros á vör, hjálpað öðrum, tekið tillit til annarra, verið jákvæð og látið hjá líða að kvarta að óþörfu. Og ekki síst: Við getum látið fólk vita að okkur þyki vænt um það.

 

Því má bæta við, að ég er ekki alls ókunnugur samfélaginu góða í Reykhólahreppi. Það er einmitt helsta ástæða þess, að ég er kominn hingað aftur og sestur hér að á ný eftir meira en aldarfjórðungs fjarveru.

 

Núna ætla ég að fá mér kökubita og hugsa á meðan til vina minna og ættingja í Reykhólaþorpi og um allan Reykhólahrepp að fornu og nýju. Mér þykir vænt um Reykhólasveitina og héraðið allt, ættarslóðir móður minnar. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn og afmælisdagurinn hennar var í gær.

 

Lögregla og dómstólar - ofurlítill misskilningur

Í nýlegri færslu - Er áttun í gangi? - á nýjum vef sem ber heitið Femínistaheimurinn er fagnað framlengingu á gæsluvarðhaldi manns sem grunaður er um nauðgun. Aftur á móti sýnist mér misskilnings gæta varðandi það hverjum þetta er þakkað.

 

Í færslunni segir: Þetta var gert með tilliti til almannahagsmuna vegna alvarleika brotsins. Það er gott ef lögregluyfirvöld eru farin að hegða sér í samræmi við alvarleika meintra brota.  

 

Hér mætti árétta eftirfarandi: Lögreglan ákveður ekki gæsluvarðhald. Það er dómstólarnir sem gera það. Dómsvaldið, ekki framkvæmdavaldið. Kannast menn ekki við fréttir af því að lögregla hafi farið fram á gæsluvarðhald eða framlengingu gæsluvarðhalds? Kannast menn ekki við fréttir af því að dómari hafi ekki orðið við slíkri beiðni eða úrskurðað sakborning í gæsluvarðhald í skemmri tíma en lögregla óskaði eftir?

 

Þegar hengja þarf er betra að hengja smiðinn sjálfan fremur en bakarann. Á sama hátt skyldi lofa smiðinn ef hann er talinn þess verður.

 

Bloggsíðan sem hvarf

Ég er búinn að skrifa hugleiðingu um tiltekin skrif hér á Moggabloggi en þá er viðkomandi bloggsíða horfin! Þetta var bloggsíða skálds (mér skilst að maðurinn hafi sjálfur gefið sér þann titil, ekki gerði ég það), sem helgaði þjóðþekktum manni nýjustu færslu sína. Pistill skáldsins var settur fram sem lof - ekki óþekkt aðferð - en varla gat nokkrum dulist að hér var einfaldlega á ferðinni illkvittni, hreinræktuð illkvittni.

 

Eftirfarandi setningu skrifaði ég í athugasemdadálkinn hjá skáldinu: Ég leyfi mér að segja hér skoðun mína á þessum skrifum: Rætni.                 

                       

Þá svaraði skáldið með því að spyrja á þá leið, hvernig það gæti verið rætni að hlaða mann lofi.

 

Aftur skrifaði ég athugasemd á þessa leið: Ég leyfi mér að segja hér skoðun mína á höfundi þessara skrifa: Kjáni.                    

                     

En núna er bloggsíðan horfin. Gott mál, finnst mér. Pistillinn sem ég er búinn að skrifa birtist því ekki. Nema skáldið og bloggsíða þess komi hér afturgengin og haldi áfram á sömu braut.

 

Tíminn líður við innanverðan Breiðafjörð

Hér á Reykhólum er logn og vorblíða. Jörðin auð en fjallahringurinn hvítur, hólmarnir svartir, sjórinn blár, ég hægri grænn. Rjúpur á vappi fyrir utan, kötturinn spenntur. Hundurinn hvarf að heiman í gær; tík í grennd. Þeir eru að gera við gluggana í kirkjunni.

 

Fyrir sunnan er verið að pexa út af þjóðsöngnum. Við Matti frændi brosum.

 

Á morgun er afmælisdagurinn hennar mömmu. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn. Þá var Hannes Hafstein ennþá Íslandsráðherra. Þremur dögum seinna tók Björn úr Djúpadal við.

 

Svona líður tíminn við Breiðafjörð.

 

Vont mál - hverjir biðjast afsökunar?

Satt að segja trúði ég því að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefði misnotað Framkvæmdasjóð aldraðra. Mér fannst það afleitt fyrir hana en þó einkum fyrir Framsóknarflokkinn. Ég hef látið í ljós vanþóknun mína á framferði hennar, gott ef ekki kallað hana illan klafa á þeim ágæta manni Jóni Sigurðssyni.

 

Svona er að vera trúgjarn. Mér þykir þetta leitt. Ég hélt bara að þeir sem héldu þessu fram væru ábyrgir orða sinna.

 

Annar eins maður og Oliver Lodge / fer ekki með neina lygi, var eitt sinn sagt.

 

Mér er sagt að Samfylkingin hafi sett auglýsingu í Fréttablaðið í dag til að vekja athygli á misferli ráðherrans, sem síðan reynist ekki vera neitt misferli. Í ljósi þessarar reynslu veit ég ekki hvort ég á að trúa því. Ég sé aldrei Fréttablaðið og nenni ekki að lesa það á netinu.

 

Ég biðst afsökunar á trúgirni minni og ábyrgðarlausum kjafthætti í framhaldinu. Vona að aðrir geri það líka.

 
mbl.is Segja úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið samkvæmt lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn og stelpurnar á ballinu

Tilvera okkar er undarlegt lóðarí. Um þessar mundir eru stjórnmálamenn um allar jarðir, alla fjölmiðla og alla bloggvefi að leita eftir hylli kjósenda. Samtímis er páfugladansinn í gangi á bak við tjöldin - viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar.

 

Nánast hvernig svo sem þessar kosningarnar fara verður formanni Sjálfstæðisflokksins fyrstum falið umboð til stjórnarmyndunar. Skiljanlegt er að forystumenn annarra flokka geri hosur sínar grænar til að komast með í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn getur valið sér samstarfsflokk og velur þann sem býður best kjör á sjálfum sér.

 

Spurningin er bara sú hvort förunauturinn heim af ballinu verður aðeins einn eða hvort fleiri verða í takinu.

 

Krosstré bregðast eins og aðrir raftar ...

„En Frjálslyndi flokkurinn er nú orðinn vænlegur kostur fyrir lífsverndarsinna, sem gefizt hafa upp á sínum fyrri flokkum, þeim sem um áratuga skeið hafa staðið vörð um nánast óheftar fósturdeyðingar hér á landi“, segir Jón Valur Jensson guðfræðingur á bloggi sínu í gær. Þar greinir hann frá vasklegri framgöngu þingmanna Frjálslynda flokksins til að „bregða fæti fyrir“ frumvarp um nýtingu stofnfrumna til rannsókna og lækninga.

 

Í dag skrifar hinn frjálslyndi guðfræðingur tímabæran pistil undir fyrirsögninni Almannafé ausið í samkynhneigða. Þar kemur enn betur fram hvernig sjálft gamla krosstréð Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist sönnum kristnum lífsgildum:

                                                 

Nú hefur samkynhneigðum tekizt að narra borgarstjórann í Reykjavík, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, til að lofa "Gay-Pride-hátíðinni" fjögurra milljóna króna framlagi úr borgarsjóði árlega næstu þrjú árin!

- - -                     

Koss Vilhjálms á karlmannshönd í stórfurðulegu gervi "drottningar" er lifandi staðfesting þess, að jafnvel þvílíkan ágætismann er hægt að leiða í björg tízkuhyggju og yfirborðsmennsku. Fjarri hefur það verið hugsun hans, hve margir hafa hneykslazt á því stripli og þeim ósæmilegu háðsútfærslum, sem oft hefur mátt horfa upp á í nefndum göngum homma og lesbía. Annar og miklu alvarlegri þáttur í ásókn þessa hóps, sem áberandi var við síðasta "Gay Pride", var hin fráleita kröfugerð um að hommar fái að gefa blóð ...                                 

- - -                                                            

Hér er kominn tími til að spyrna við fótum, en það verður ekki gert með því að styðja Sjálfstæðisflokkinn til dáða, því að dáðirnar reynast sumar hverjar hinar mestu ódáðir, þegar betur er skoðað ...

                                                

Já, svona bregðast krosstrén eins og aðrir raftar (ekki veit ég hvers vegna orðið raftur sækir á hugann þessa dagana).

 

En þó að fokið sé í flest skjól eiga frjálslyndir menn hæli tryggt í Frjálslynda flokknum, sem betur fer.

 

Skúli Steinn Vilbergsson og viðhorf hans

Umræðurnar á bloggsíðu Skúla Steins Vilbergssonar mótorhjólakappa í Keflavík - á sínum tíma þekktur sem hnefaleikatröllið Skúli Tyson - eru nánast með ólíkindum. Þar á ég fyrst og fremst við svör og ummæli Skúla sjálfs og nokkurra sálufélaga hans.

 

Kannski er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla frekar um þennan mann, athæfi hans, ummæli og viðhorf, en ég leyfi mér að tengja hér á bloggfærslu hans varðandi umfjöllunina í Kastljósi í gær og umræður sem spunnist hafa í athugasemdakerfinu. Ef til vill hafa aðrir gert það líka; ég rakst á tengingu á síðuna sjálfa á bloggi Hrafnkels Daníelssonar, sem reyndar var búinn að tengja á myndskeiðin af ofsaakstrinum á mótorhjólinu áður en þau birtust í Kastljósinu.

 

Þess má geta í varúðarskyni fyrir þá sem hyggjast skrifa í kommentakerfið hjá Skúla Steini, að hann tekur eftirfarandi fram á bloggi sínu:

                                           

Ef einhver hefur eitthvað vantalað við mig þá getur hann drullast til að koma til mín face to face en ekki vera meið fuckin heigulhátt bak við tölvuna heima hjá sér. Muniði það að ég get séð IP tölurnar ykkar og þ.a.l. fundið út hvar þið eigið heima.        

                                                  

P.s.: Lögreglan gerði í fyrrakvöld rassíu hjá handrukkurum og steratröllum á Suðurnesjum ...

                  

Viðbót - hér er dæmi um komment sem kom inn áðan frá einum af sálufélögum Skúla Tyson:

Aron                        
án djóks, að þá myndi ég borga fyrir það að sjá svipinn af eitthverjum af þessum nördum sem eru harðir á bakvið skjáinn ef Skúli mætti heim til þeirra. Þið eruð að kalla hann illum nöfnum og segja honum að koma heim til ykkar. Hvað ef hann flippaði bara og mætti heim til ykkar með hníf eða eitthvað? mynduði vera jafn harðir þá með Superdós af kóki og dominos sneiðarnar?                
23. mars 2007 klukkan 18:13

mbl.is Myndir af mótorhjóli á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband