Hjólreiðamenn skyldaðir í vitsmunapróf?

Hjólreiðakeppnin Tour de France minnir á raunveruleikaþætti þar sem spurningin er ekki hver sigrar í hverjum áfanga heldur hverjum verður hent út næst. Ég hef nokkuð lengi fylgst með umræðunni um þessi mál á erlendum vefjum, einkum spiegel.de. Hver afreksmaðurinn í hjólreiðum eftir annan hefur komið fram og vitnað um þá spillingu sem mjög lengi hefur viðgengist og jafnframt sakað fjölda annarra um þátttöku í slíku. Þeir hafa haldið því fram, að engin leið sé að vera í fremstu röð nema með svindli, sem raunar er orðið að heilli vísindagrein eða sérgrein innan læknisfræðinnar.

 

Svo virðist sem hugarfarið hjá þeim sem eiga keppnisliðin sé að breytast einmitt núna - ekki kannski vegna aukins siðferðisþroska heldur af illri nauðsyn. Skriðan verður ekki stöðvuð úr þessu. Samsærið hefur verið rofið. Hjólreiðarnar eru orðnar að hreinum farsa og styrktarfyrirtækin hætta stuðningi hvert af öðru og vilja ekki leggja nafn sitt við það sem þarna viðgengst.

 

Það sem mér virðist þó einna merkilegast í umræðunni er einkum tvennt. Annars vegar fullyrðingar þess efnis, að brátt komi röðin að atvinnumönnum í knattspyrnu í þessum efnum. Hins vegar að ekki væri minni ástæða til að láta hjólreiðakappana gangast undir vitsmunapróf en lyfjapróf. Með hliðsjón af orðum og gerðum margra af þessum görpum að undanförnu er það vel skiljanlegt.

 
mbl.is Michael Rasmussen vikið úr Tour de France
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allar keppnisíþróttir nú til dags snúast um peninga og vitsmunir þeirra sem láta líf sitt snúast um peninga mælast ekki á neinum skala. 

Sparsami sparisjóðsstjórinn (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 13:50

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það tekur verulega á sálartetrið að horfa upp á hörmungarnar. Hef fylgst með Tour de France um árabil, horft á útsendingar frá hverri dagleið og það af enn meiri krafti eftir að ég fluttist til Frakklands 2005. 

Málið er margflókið en gott er ef tekst að afhjúpa svindlara. Líklega má senda Rasmussen í greindarpróf, lygin varð honum að falli. Sagðist hafa verið við æfingar í Mexíkó en í ljós kom að hann var á Ítalíu. Skrítið að sjá hvernig fjölmennt varðlið þurfti að fylgja honum að ráslínu síðustu dagana vegna þess hve áhorfendur púuðu á hann eftir að fréttir bárust af því að hann hafði fjórum sinnum komið sér hjá lyfjaprófi á undanförnum árum.

Það er skandall að liðið hans, Rabobank, vissi um þetta en lét gott heita og studdi Rasmussen allt þar til í ljós kom í gær að hann hafði logið að forsvarsmönnum þess hvar hann æfði í júní mánuði, þ.e. á Ítalíu en ekki heima hjá mexíkóskri konu sinni.

Aðgerðarleysi Alþjóða hjólreiðasambandsins er ekki forsvaranlegt. Það vissi líka um hernig Rassmussen hefur komið sér hjá lyfjaprófum, sem útaf fyrir sig er refsisvert og þykur jafngilda játningu um lyfjanotkun.

Ég veit ekki hvað fótboltans bíður en þessar tvær íþróttir, hjólreiðarnar og fótboltinn, hafa verið vandræðabörn á vettvangi Alþjóðaólympíunefndarinnar og tilrauna hennar til að uppræta lyfjanotkun íþróttamanna. 

Þá er það sérstakt vandamál fyrir aðstandendur Tour de France að atvinnuliðin í hjólreiðum hafa með sér samtök, svonefndan Pro-Tour, sem kúgar Frakklandsreiðina til að taka við öllum liðum Pro-Tour þótt Frakkarnir vildu losna við nokkur þeirra bæði nú og í fyrra vegna lyfjamála.

Frakkarnir hafa sem sagt viljað velja liðin sjálf og komast þannig hjá því að þurfa að hafa lið með slæmt orð á sér með í keppninni. Vonandi er að þeir hafi sigur úr þessu og það væri mátulegt á stóru liðin að fá ekki að vera með því Frakklandsreiðin er að mörgu leyti grundvöllur tilveru þeirra, þ.e. vegna fjárstreymis frá styrktarfyrirtækjum.

Ætli það sé nokkuð tilviljun að fjögur af fimm stórliðum eru nú horfin úr keppninni vegna lyfjamála? Lið Danans Bjarne Riis er með, fyrir tilstuðlan Pro-Tour, en ella hefði það víst ekki fengið að vera með í ár eftir að hann viðurkenndi að hafa dópað sig til sigursins í Tour de France 1996. Riis hefur ekki látið sjá sig í Frakklandi að þessu sinni en nafn hans verður að móti loknu strikað út af skrá yfir sigurvera keppninnar.

Já, þetta eru nokkuð erfiðir dagar hjá manni nú um stundir. En ekki dugar að gefast upp og ég lifi í voninni um að réttlætið nái fram að ganga. Það eru víst 15 milljónir manns sem stillt hafa sér upp meðfram keppnisleiðunum í ár. Ég verð í þeim hópi á næsta ári þegar þrjár dagleiðir fara fram hérna í nágrenninu hjá mér á Bretaníuskaganum. Það er pottþétt.

p.s. athyglisvert er að lyfjamisnotkun - alla vega svo sannað þykir - hófst í hjólreiðum. Dauðsfall í keppni árið 1961 var rakið til lyfjanotkunar. Og mér sýnist þessi íþrótt ætla verða einna síðust til að hreinsa til hjá sér.

Ágúst Ásgeirsson, 26.7.2007 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband