Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Það var þá staðurinn

Hvalur strandaður í Þernuvík! Það var þá staðurinn fyrir hval að vera að flækjast. En hann hefur líklega ekki vitað að í Þernuvík er sumarbústaður og nánast annað heimili Konráðs Eggertssonar á Ísafirði, kunnasta hvalveiðimannsins hérlendis ...


mbl.is Hvalur strandaður í Þernuvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mat á umhverfisáhrifum?

Þetta er magnað. Skyldi þetta ekki hafa verið fyrirsjáanlegt? Kom það kannski fram í mati á umhverfisáhrifum? Ég þykist fylgjast nokkuð vel með yfirleitt en man ekki til að hafa heyrt eða lesið um yfirvofandi náttúruspjöll af þessu tagi. Svo er verið að tala um vistvæna orku ...


mbl.is Gróður drepst vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir?

Ýmsir vísindamenn hafa látið í ljós áhyggjur af þessari tilraun. Jafnvel að þetta geti leitt til keðjuverkunar sem tortími hnettinum okkar. Í því ljósi hefði e.t.v. verið skemmtilegra að gera þetta ekki á miðvikudaginn heldur einum degi síðar - 11. september. Hvað sem því líður - það verður gaman að sjá hvort við förumst öll í Ragnarökum eftir tvo daga. Þetta yrði þá sannarlega merkisdagur í vísindunum ...


mbl.is Merkisdagur í vísindunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þau í Peking núna?

Dálítið merkilegt, að mér finnst. Uppselt var í „fuglahreiðrið“ í Peking við setningu Ólympíuleika fatlaðra í dag. Meðal viðstaddra voru þrettán þjóðhöfðingjar, kóngar og forsetar, þar á meðal Horst Köhler, forseti Þýskalands, og ráðherrar íþróttamála frá fimmtíu þjóðlöndum. Frá þessu er greint á þýska fréttavefnum spiegel.de. Hvar var ráðherra íþróttamála á Íslandi nú? Ráðherrann sem fór tvær ferðir þangað á leika ófatlaðra ásamt ráðuneytisstjóranum og öðru föruneyti og kostaði til þess ófáum milljónum króna. Eru Ólafur Ragnar og Dorrit kannski viðstödd? Bara spyr. Það hefur þá farið framhjá mér.

Litaglöð sýning í hreiðrinu


mbl.is Ólympíumót fatlaðra hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill hann ekki vinna leiki?

Jafntefli er gott en spurningin er hvort landsliðsþjálfarinn vilji ekki vinna leiki. Sú spurning hlýtur að vakna þegar hann leyfir ekki Veigari Páli að koma inn á fyrr en alveg í lokin. Margt hefur verið sagt um þau einkennilegheit að vilja ekki besta sóknarmann Íslendinga um þessar mundir í landsliðið. Þjálfarinn hefur hunsað Veigar Pál og það er ekkert nema linnulaus gagnrýni sem veldur því að hann tekur þennan leikmann inn í hópinn núna og leyfir honum náðarsamlegast að spila síðustu mínúturnar. Flestum er þetta óskiljanlegt.


mbl.is Frábær úrslit í Osló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmæður og kröfur þeirra

Eiginlega er ég steinhissa á verkfalli ljósmæðra. Ekki á ljósmæðrunum sjálfum heldur því að þær skuli neyddar í verkfall. Svo virðist sem nánast allir styðji sjálfsagðar kröfur þeirra - nema ríkisvaldið sem í þessu efni sem öðrum kýs að afgreiða mál með því að gera ekki neitt.

Meira að segja stjórnarþingmaðurinn Ásta Möller - sem vegna menntunar sinnar og reynslu ætti að þekkja betur til mála en nokkur annar núverandi stjórnarþingmaður - getur ekki orða bundist. Orð hennar verða samt enn þyngri þegar þess er gætt, að hún er ekki aðeins stjórnarþingmaður heldur einnig formaður heilbrigðisnefndar Alþingis.

„Kröfur ljósmæðra eru á rökum reistar", sagði Ásta á Alþingi í morgun.

Er hægt að komast öllu skýrar að orði?

Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar virðist hins vegar styðja Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra í þessu máli, skv. fréttinni sem hér er tengt við.

Einhver hefði nú sagt (eins og á sínum tíma þegar kerfisþrælar ríkisvaldsins voru að níðast á blaðburðarkrökkum): Svona gera menn ekki. Og þar með höggvið á hnútinn.

Spyrja má: Getur ríkisvaldið lagst öllu lægra en þetta? Eru yfirleitt einhverjir vanmáttugri en fæðandi konur og börnin sem eru að koma í heiminn?

Spá mín er sú, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir verði látin taka við af Ástu Möller sem formaður heilbrigðisnefndar Alþingis við fyrsta tækifæri.

P.s.: Amma mín var ljósmóðir að ævistarfi.


mbl.is Árangurslaus sáttafundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svínin og þjóðin

Sum mál vefjast meira fyrir stjórnmálamönnum en önnur. Þar á meðal er eftirlaunaósóminn, sem svo er nefndur. Samt er þetta mál einstaklega einfalt í raun. Það snýst um það hvort stjórnmálamenn eigi að skammta sjálfum sér ríkulegri eftirlaun en öðru fólki – eða ekki.

Alþingi hefur það hlutverk að setja lög og hefur sett lög þess efnis að þingmenn og ráðherrar og fleiri af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar skuli njóta sérkjara hvað eftirlaun varðar. Á það skal minnt, að ráðherrar - handhafar framkvæmdavaldsins - eru í nær öllum tilvikum líka þingmenn og þar með handhafar löggjafarvaldsins og skömmtunarmenn eigin sérkjara. Einhvern tímann hefði verið talað um vanhæfi í þessu sambandi. Hvort heldur varðar þingmennina eða ráðherrana sem jafnframt eru þingmenn.

Til eru þingmenn sem finnst ótækt að þeir sjálfir skuli njóta sjálftekinna sérkjara hvað eftirlaun varðar og vilja breyta þessu. Vel má vera að þar sé um lýðskrum að ræða og kæmi ekki á óvart þegar þingmenn eru annars vegar. Hins vegar fá þeir lítinn hljómgrunn hjá forsvarsmönnum sinna flokka. Geir H. Haarde var spurður út í þessi mál í sjónvarpsfréttum núna eitt kvöldið og setti þá upp sinn venjulega hundshaus (í ljósi samhengisins væri samlíking við aðra dýrategund e.t.v. heppilegri, en þetta með hundshausinn er einfaldlega málvenja).

Nú er þess beðið hvort einhver stjórnmálaflokkur taki af skarið í þessum efnum.

Steingrímur eitthvað kannski?


mbl.is Þingmenn fá Animal Farm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband