Færsluflokkur: Menning og listir
Leitin að ljótasta orði íslenskrar tungu: Hátt í sextíu færslur eru komnar í athugasemdadálkinn og tillögur um fjölmörg afar frambærileg orð. Þar má nefna (án þess að ég taki afstöðu að sinni) orðin slembiúrtak, búkur, legslímuflakk, líkþorn, drulla, blogg, ristruflanir, togleðurshólkur, afturúrkreistingur, legremburotta, áriðill, náriðill, þúsöld, raggeit, njálgur, spartltúba, kunta, firðtal, héddna, rasssæri, slabbdregill, páka, afgjaldskvaðarverðmæti, nýsigögn, hortittur, æla ...
Eflaust leynast enn margir gimsteinar ljótleikans glóandi í málhaugnum okkar ylhýra, ástkæra. Við finnum örugglega margt fleira ljótt ef við leitum í sálarfylgsninu. Söfnum áfram tillögum fram yfir helgi og förum svo að skilja sauðina frá höfrunum, láta renna undan rjómanum, slíta upp ljótasta illgresið og hnýta saman í vönd ...
Nokkrir hafa tilnefnt Framsóknarflokkinn. Það er út af fyrir sig skiljanlegt en ég efast um að rétt sé að hafa sérnöfn í þessari samkeppni. Framsóknarmenn hafa báðir haft samband við mig og látið í ljós óánægju sína. Hins vegar kæmi orðið framsóknarmaður (eða sjálfstæðismaður, eða einfaldlega stjórnmálamaður) e.t.v. til greina við úthlutun sérstakra heiðursverðlauna, líkt og í Óskarnum.
Hugsið ykkur allt þetta hráefni í ljótasta ljóð íslenskrar tungu!
Svo fæ ég líklega viðurkenningu (eða verðskuldaða refsingu) fyrir ljótustu bloggfyrirsögn þúsaldarinnar.
> 20.07.2007 Ný samkeppni: Ljótasta orð íslenskrar tungu
19.7.2007
Menningin og markaðslögmálin
Gaman væri að vita hvort nokkur vildi gefa út bækurnar um Harry Potter ef þær væru boðnar með sambærilegum hætti. Einhvern veginn efast ég um það. Hvað þá Biblíuna.
En ef rithöfundurinn Joanne K. Rowling kæmi nú með handrit að Biblíunni til forleggjara, eða Símaskránni, þá myndi hann gleypa við því á stundinni.
Svona er nú það.
![]() |
Breskir útgefendur sáu ekki í gegnum hrokafullan ritstuld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hið íslenska náttúrufræðifélag (stofnað 1889) rak náttúrugripasafn á tímabilinu frá 1890 til 1947, en þá afhenti félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Þetta stórmerka vísindasafn lá á þeim tíma undir skemmdum vegna húsnæðisvandræða. Félagið leitaði til ríkisstjórnarinnar eftir styrk til þess að bæta úr þessum vanda, en bauð safnið að gjöf að öðrum kosti, í trausti þess að vel yrði að því búið, og hefði þá ríkið allan veg og vanda af rekstri þess framvegis. Ríkisstjórnin tók síðari kostinn og hefur nú annast safnið af miklum myndarskap æ síðan, eða a.m.k þeim myndarskap sem flestir munu kannast við.
Í Morgunblaðinu fyrir réttum 60 árum, hinn 6. mars 1947, er greint frá þessum merku tímamótum í sögu safnsins og rætt við dr. Finn Guðmundsson náttúrufræðing (mynd: Tímarit.is).

27.2.2007
Ísafjörður: Við skál síðan fyrir jól
30.12.2006 Pétur Tryggvi - bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Listamaðurinn Ólafur Elíasson er einn af 11 þýðingarmestu listamönnum samtímans, og í 22. sæti yfir alla listamenn sögunnar, ef marka má heimasíðuna artfacts.net, en undanfarin ár hafa listar yfir efstu 100 listamennina verið birtir á síðunni. Ólafur er fyrir ofan fjölmarga af helstu listamönnum sögunnar, til dæmis Salvador Dalí, Jackson Pollock, Paul Gauguin og Vincent Van Gogh. Matthew Barney er í 43. sæti yfir þýðingarmestu núlifandi listamennina.
Ofanrituð frétt birtist á mbl.is fyrir viku. Punktur. Í fyrirsögninni var enginn fyrirvari: Mikilvægari en Van Gogh.
Eitthvað klóraði ég mér í hausnum yfir þessari frétt; velti lítillega fyrir mér við hvað væri eiginlega miðað en nennti ekki að skoða það nánar. Auðvitað er fréttin ekki fullburða nema fram komi við hvað er átt, við hvað er miðað, og maður á ekki að þurfa að grafast fyrir um það annars staðar. Að hvaða leyti er hann fyrir ofan t.d. Dalí og Gauguin og Vincent van Gogh? Liggur ekki beinast við að skilja þetta sem svo, að Ólafur sé meiri og merkilegri í listasögunni en þeir?
Núna rakst ég á eftirfarandi á spjallvefnum malefnin.com eftir málverjann caramba og leyfi mér að smella því hér inn (niðurlagsorðin um Matthew Barney eru líka þaðan en ekki frá mér):
Mogginn vitnar í artfacts.net máli sínu til stuðnings um að Ólafur sé þýðingarmeiri en Van Gogh, de Kooning, Chagall, Monet o.s.frv. Hann hlýtur líka samkv. þessu að vera þýðingarmeiri en bæði Rembrandt og Da Vinci því þeir eru hvorugur á 100 nafna listanum hjá artfacts.net. Andy Warhol hlýtur að vera þýðingarmesti listamaður allra tíma því hann er nr. 1 á listanum.
Þetta er auðvitað fjarstæða og ber enn eina ferðina vitni fáfræði og heimóttarskap íslenskra blaðamanna. Listinn á artfacts.net er stigagjöf fyrir sýningarsögu listamanna og verðmæti þeirra frá sjónarmiði listaverkasala. Fleiri áhorfendur koma á sýningu á verkum Warhols en t.d. Chagalls. Þýðir það að Warhol sé „þýðingarmeiri“ listamaður en Chagall frá almennu listrænu og sögulegu sjónarmiði? Stigagjöfin er útskýrð á artfacts.net:
The aim of the Artist.Ranking (A.R) system is to arrange artists by their exhibition history. The A.R evaluates exhibitions held on an international level over the last five years. The basis of the A.R thinking is the so-called economy of attention (after a book from Georg Franck). Franck says that attention (fame) in the cultural world is an economy that works with the same mechanisms as capitalism. Capitalist, or economic, behaviour is based on property, lending money and charging interest. For Franck, the curator (e.g. the museum director or the gallery owner) acts as a financial investor. The curator/investor lends their property (their exhibition space and their fame) to an artist from whom they expect a return on their investment in the form of more attention (reputation, fame etc).
Therefore, the relationship between gallery owner and artist relates to that between investor and entrepreneur. The investor puts his money into companies from which he expects to gain rewards. This is always a mixed batch, where a few succeed and pay for the misinvestment in the others.
Mogginn sér ástæðu til að nefna að Matthew Barney sé nr. 43 á listanum. Barney er heimsfrægur fyrir meltingarfæra- og endaþarmslist sína og var auk þess unnusti Bjarkar þegar síðast fréttist. Þarna er tengingin við land og þjóð. Þetta sá Mogginn, alltaf glúrinn!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Umræðan um fyrirhugaða klámkaupstefnu hérlendis og klámmyndatökur í íslenskri náttúru í tengslum við hana rifjar upp heimsókn klámstjörnu að nafni Kyla Cole og tökuliðs til Vestfjarða fyrir tveimur árum. Meðan á tökum stóð dvaldist hópurinn á Hótel Djúpavík og á Laugarhóli í Bjarnarfirði. Gamla síldarverksmiðjan á Djúpavík, sem á sínum tíma var vettvangurinn í Blóðrauðu sólarlagi Hrafns Gunnlaugssonar, varð nú sviðsmynd enn metnaðarfyllri verka. Heiti potturinn við sundlaugina á Laugarhóli bar nafngiftina „heitur“ pottur með rentu - hafi hann ekki gert það fyrr. Á sínum tíma var greint frá þessu á fréttavefjunum strandir.is og bb.is og síðan eitthvað á landsvísu, ef ég man rétt.

Þannig kemst Pétur Tryggvi Hjálmarsson silfurlistamaður að orði í greinargerð með umsókn sinni til stjórnar listamannalauna fyrr í vetur.
Í þar til gerðum reit í umsókninni sjálfri - „stutt og hnitmiðuð lýsing á verkefni/verkefnum sem fyrirhugað er að vinna að á starfslaunatímanum“ - segir hann:
„Hönnun og smíði stórra silfurverka. Slík verk eru vaxtarbroddurinn í list minni þessi árin. Eins og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð er mér lífsins ómögulegt að skrifa um þetta langa ritgerð, jafnvel þó að reynslan ætti að hafa kennt mér að falleinkunn í ritgerðarsmíði geti orðið til þess að mér verði synjað um styrk til listsköpunar á vettvangi silfursmíði.“
Hvað sem þessu líður, og þótt sjálf greinargerðin með umsókninni nái ekki máli hvað lengd varðar frekar en fyrri daginn, þá fær Pétur Tryggvi að þessu sinni starfslaun úr Listasjóði í sex mánuði.
30.12.2006 Pétur Tryggvi útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar
![]() |
506 sóttu um starfslaun listamanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Silfursmiðurinn Pétur Tryggvi Hjálmarsson var í dag sæmdur nafnbótinni bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar og ber hann titilinn næsta árið. Fráfarandi bæjarlistamaður er Elfar Logi Hannesson leikari og einleikjahöfundur. Fyrstur til að bera þetta sæmdarheiti fyrir nokkrum árum var Jónas Tómasson tónskáld.
Árið sem er að kveðja hefur verið listamanninum Pétri Tryggva hagstætt. Fyrir utan nýju nafnbótina ber þar hæst sýningu í Krónborgarhöll á Helsingjaeyri í Danmörku í haust ásamt bestu silfurlistamönnum Danmerkur, en þó einkum útkomu danskrar bókar um tuttugu bestu silfursmiði 20. aldarinnar, en í þeim hópi er Pétur Tryggvi.
Núna má segja að loksins sé Pétur Tryggvi vinur minn orðinn spámaður í sínu eigin föðurlandi, því að lengst af hefur upphefð hans að mestu verið utan Íslands. Það á sér vissar skýringar að hluta til, því að fyrir mörgum árum fluttist hann til Danmerkur og bjó þar og starfaði þangað til hann fluttist heim á æskustöðvarnar á Ísafirði nær aldahvörfunum. Reyndar skal þess getið, að í upphafi listferils síns árið 1979 tók hann þátt í verðlaunasamkeppni Félags íslenskra gullsmiða og hlaut þar fyrstu verðlaun. Sama ár hélt hann sína fyrstu sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Hér verða ekki taldar aðrar viðurkenningar og verðlaun sem Pétur Tryggvi hefur hlotið, né heldur sýningar, en þær eru orðnar margar víða um lönd síðasta aldarfjórðunginn. Samt má lauma því hér inn, að árið 2004 héldum við Pétur Tryggvi dálítið sérstæða samsýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, sem bar nafnið Silfurljóð. Efniviðurinn var silfur og gull hjá Pétri Tryggva en orð hjá mér. Kirkjusilfur eftir Pétur Tryggva er í ýmsum kirkjum hérlendis, þar á meðal í Þingvallakirkju og Vídalínskirkju í Garðabæ.
Í byrjun þessa árs varð Pétur Tryggvi fimmtugur og var af því tilefni fjallað um hann og list hans í helstu blöðum Danmerkur. Hér fyrir neðan fylgir til gamans úrklippa (pdf) úr Berlingske Tidende í tilefni fimmtugsafmælisins.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)