12.1.2007
Hringavitleysan með Heilsuverndarstöðina
Mér fannst hálfskoplegt að heyra um áskorun læknaráðs Landspítalans til heilbrigðisráðherra varðandi hugsanleg kaup eða leigu á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík. Þó er ég ekki alveg viss hvort málið er í raun skoplegt eða jafnvel þvert á móti grafalvarlegt. Hitt er víst, að það er ákaflega skrítið.
Rúmt ár er síðan gengið var frá sölu á Heilsuverndarstöðinni, sem er við Barónsstíg, rétt hjá byggingaklasa Landspítalans. Eigendur hennar voru Reykjavíkurborg (60%) og ríkissjóður (40%). Kaupandi var byggingaverktaki, sem mér skilst að viti ekki almennilega ennþá hvað hann ætlar að gera við húsið. Mig minnir að einhvern tímann hafi komið fram að hann hafi áform um gríðarlega viðbyggingu - við hús sem teljast verður meðal hinna merkari í íslenskum arkitektúr. Hvers vegna allt í einu var rokið til að selja húsið hefur aldrei verið skýrt með viðhlítandi hætti, að ég best veit.
Í Morgunblaðinu um daginn rakti Reynir Tómas Geirsson yfirlæknir og prófessor mál þetta frá sjónarhorni mæðraverndar og fæðingar- og kvennadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Hann kvaðst ekki hafa hitt þann heilbrigðisstarfsmann, sem hafi verið hlynntur sölunni.
Í grein í Mogganum fyrir nokkrum dögum segir Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir: ... er nokkuð augljóst að þetta mikla og fallega hús, í nágrenni Landspítalans við Hringbraut, hentar mjög vel til að leysa þann mikla húsnæðisvanda sem takast þarf á við á næstu árum og allar götur þar til nýi spítalinn neðan Hringbrautar hefur verið tekinn í notkun. Undirrituðum, sem starfar á sérhæfðri rannsóknastofu í 30 ára gömlu bráðabirgðahúsi, er málið skylt.
Þeir Reynir Tómas og Jóhann Heiðar eru sannarlega ekki þeir einu sem hafa lagt orð í belg á því hálfa öðru ári, eða hvað það nú er, sem liðið er frá því að upp komst um fyrirhugaða sölu á Heilsuverndarstöðinni. Þar hefur allt borið að sama brunni. En - þegar stjórnmálamenn eru annars vegar, þá er allra veðra von.
Það skyldi þó ekki vera, að ríkissjóður grípi nú tækifærið - e.t.v. í félagi við Reykjavíkurborg, sem er m.a. á hrakhólum með mæðraverndina eftir að hún hrökklaðist úr Heilsuverndarstöðinni - búið að hola henni niður uppi í Breiðholtshverfi - og kaupi húsið. Ef til vill fyrir tvo milljarða króna, eða tvöfalda þá upphæð sem fékkst fyrir það. Mættu samt heita góð kaup þegar litið er til þeirrar nauðsynjar sem við blasir.
Í staðinn mætti selja byggingaverktakanum t.d. Safnahúsið við Hverfisgötu. Þar er heldur betur hægt að byggja við ...
P.s.: Kötturinn hefur ekki látið sjá sig. Kannski er hann einhvers staðar að éta tilfallandi jólaskraut, sbr. Kastljósið í kvöld.
ruv.is 12.01.2007 LSH: Ráðherra leysi húsnæðisvandann
Athugasemdir
Ég vona að kisa fari að koma heim.
erlahlyns.blogspot.com, 13.1.2007 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.