Pétur Tryggvi silfursmiður (og bæjarlistamaður) á Ísafirði fékk skemmtilegt bréf í fyrstu viku hins nýja árs. Málið snýst um smíðisgrip eftir hann sjálfan, sem hann fékk á liðnu sumri sendan frá útlöndum til viðgerðar og sendi til baka viðgerðan viku síðar. Núna kom eftirfarandi tilkynning:
Fjártrygging sú að upphæð kr.: 0,00 sem fyrirtækið lagði fram vegna ofangreindrar tollafgreiðslu hefur ekki verið gerð upp innan tilskilins tíma. Er fyrirtækinu hér með gefinn kostur á að ganga frá fullnaðaruppgjöri tollafgreiðslu innan 10 daga frá dagsetningu bréfs þessa. Að öðrum kosti rennur fjártryggingin í ríkissjóð.
Síðasta setningin er yfirstrikuð með penna og reglustiku. Undirritun bréfsins er með handstimpli og handkvittun hjá embætti Tollstjórans í Reykjavík. Samt er í aðra röndina eins og bréfið sé frá Íslandspósti hf., flutningsmiðlun - eða þá þvert á móti til Íslandspósts hf., flutningsmiðlunar, þó að það sé vissulega til Péturs Tryggva og hafi verið sent honum.
Sumsé, strikað er yfir setninguna um að fjártryggingin renni í ríkissjóð ef ekki er gengið frá því uppgjöri á tryggingarfé sem boðið er. Kannski er það ekki skrítið, vegna þess að aldrei var lögð fram nein fjártrygging enda ekki venja í tilvikum sem þessu - sbr. það sem fram kemur, að hún hafi numið kr. 0,00.
Það væri kannski sök sér, ef bréf af þessu tagi kæmi úr alsjálfvirku bréfaskriftamaskíneríi hjá einhverri stofnun og færi sjálfkrafa í póst án þess að nokkur manneskja færi um það höndum. En þetta ...
Multum absurdum in capite vaccae, var sagt í mínu ungdæmi. Og tóku margir undir.
Athugasemdir
Segðu svo að tollstjórinn geti ekki fengið mann til þess að hlægja
Óttarr Makuch, 13.1.2007 kl. 21:51
Maðurinn verður auðvitað að borga þetta hið snarasta. Ef hann er auralítill eftir áramótin gæti ég hlaupið undir bagga með honum. Ég treysti að þú komir velvilja mínum til skila.
erlahlyns.blogspot.com, 13.1.2007 kl. 23:01
Nei - það er hann sem á að fá þetta ...
Hlynur Þór Magnússon, 13.1.2007 kl. 23:08
Svona er að lesa of hratt... Þarf að fara að vanda mig betur. Nýjustu færsluna las ég hægt og rólega!
erlahlyns.blogspot.com, 14.1.2007 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.