Scientology-kirkjan nokkuð á leiðinni til Íslands?

Hvenær haslar Scientology-kirkjan sér völl á Íslandi? Eða er hún kannski komin hingað? Þessar spurningar vakna þegar fréttir berast af vaxandi umsvifum hennar í Vestur-Evrópu. Í gær tók Scientology-kirkjan í notkun með hátíðlegum hætti sex hæða glæsibyggingu í Berlín, nokkur þúsund fermetra að gólffleti, að viðstöddum á annað þúsund prúðbúnum gestum. Þarna verður helsta miðstöð - eða helsta musteri - starfsins í Þýskalandi, sem reyndar virðist hafa verið nokkuð öflugt þar allt frá því um 1970.

 

Þýskir stjórnmálamenn hrukku við þegar þeir fréttu af fyrirhuguðu glæsimusteri og hófu á ný umræður um viðbrögð við starfsemi Scientology-kirkjunnar. Mörgum stendur stuggur af henni og í Þýskalandi hefur öryggislögreglan fylgst með starfi hennar á liðnum árum. Menn óttast þar áhrif hennar á stjórnmál og menningarlíf, auk óæskilegra áhrifa á fylgjendur hennar, og sumir telja jafnvel að hún höggvi að sjálfum rótum samfélagsins. Í Bandaríkjunum og víðar er Scientology-kirkjan viðurkennd sem trúarhreyfing en svo er ekki í Þýskalandi.

 

The Church of Scientology hefur oft verið kölluð á íslensku Vísindakirkjan, en það er varla tæk þýðing. Scientology hefur lítið með vísindi að gera, í venjulegum skilningi þess hugtaks, og sjálft orðið scientology, sem er miklu eldra en stofnun sú sem hér um ræðir, merkir helst gervivísindi eða hjáfræði. Stofnandi Scientology-kirkjunnar, L. Ron Hubbard, skilgreindi hugtakið reyndar með ýmsum hætti eftir því sem andinn blés honum í brjóst hverju sinni.

 

Innskot: Af hverju í fjandanum kemur Herbalife alltaf upp í huga minn þegar ég heyri minnst á Scientology-kirkjuna?

 

Stofnandinn og hugsuðurinn L. Ron Hubbard fæddist árið 1911 - að sjálfsögðu í fiskamerkinu eins og við Þórbergur - og var hinn merkasti maður að ýmsu leyti eins og við Þórbergur. Hann var lýðskrumari af guðs náð, eins vænta má, og var vinsæll reyfara- og vísindaskáldsagnahöfundur áður en hann stofnaði Scientology-kirkjuna á árunum laust eftir 1950. Þá var hann fyrir nokkru farinn að einbeita sér að dianetics, eða samhljómi líkama og sálar, og árið 1950 kom frá hans hendi bókin Dianetics: The Modern Science of Mental Health. Bækur Hubbards munu hafa selst í stærri stíl en ritverk flestra annarra höfunda eða jafnvel nokkurs annars manns.

 

Velþekkt er, að margir þekktir (og ríkir) bandarískir kvikmyndaleikarar hafa gengið í Scientology-kirkjuna, sem og annað frægðar- og efnafólk. Þar má nefna Tom Cruise og Katie Holmes, Anne Archer, sem reyndar var meðal gesta við vígslu nýju miðstöðvarinnar (maður getur fjandakornið ekki kallað þetta safnaðarheimili?) í Berlín í gær, John Travolta og Kelly Preston, mæðgurnar Priscillu og Lísu Maríu Presley, Juliette Lewis, Kirstie Alley, Nancy Cartwright, Paul Haggis, Chaka Khan, Sonny Bono og Placido Domingo. Aðrir eru sagðir hafa yfirgefið félagsskapinn, svo sem Christopher heitinn Reeve, Charles Manson (sem kom eftirminnilega við sögu fræga fólksins í Hollywood þó að hann væri ekki í hópi þess fram að því), Nicole Kidman, Jerry Seinfeld, Sharon Stone og Leonard Cohen. Söfnuðurinn er öflugur í ýmsum löndum Vestur-Evrópu, einkum meðal efnafólks.

 

En upphaflegu spurningarnar voru þessar: Hvenær haslar Scientology-kirkjan sér völl á Íslandi? Eða er hún kannski komin hingað? Og svo ein í viðbót: Vantar nokkuð umboðsmann hérlendis?

         

- Einkum byggt á fréttum og frásögnum á þýskum vefjum í gær, svo sem Spiegel.de, Stern.de og Focus.de; auk þess Wikipedíu.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

maður ætti kannski að reyna að sækja um umboðsmanninn :) hlýtur að vera vel borgað

Ágúst Dalkvist, 14.1.2007 kl. 11:58

2 Smámynd: Hrafn Jökulsson

Það var L.Ron Hubbard sem varpaði fram grundvallarspurningunni -- eftir að hafa gefið út vísindaskáldsögur og stundað blaðamennsku: Hvers vegna að skrifa fyrir smáaura, þegar maður getur stofnað trúarbrögð og orðið auðkýfingur?

Hrafn Jökulsson, 14.1.2007 kl. 12:52

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Ó nei! Ekki fleiri undarlega sértrúarsöfnuði!

Júlíus Valsson, 14.1.2007 kl. 15:04

4 Smámynd: Fræðingur

Tja, þetta eru trúarbrögð og fyrst að það ríkir trúfrelsi á Íslandi, þá mun þetta sorp birtast hér að lokum.

Fræðingur, 14.1.2007 kl. 17:20

5 Smámynd: halkatla

sammála því að orðið vísindakirkja er kolómögulegt, mér fannst erfitt að hlusta á fréttina um þetta á rúv í kvöld, svo óþægilega óviðeigandi orð, en vísindaspekikirkjan er miklu almennari og betri þýðing, skil ekki afhverju fáir virðast vita af því... þetta er annars virkilega glataður sértrúarsöfnuður að mínu mati, þetta eru glæpasamtök uppað vissu marki og hafa ógnað fólki og kúgað marga, svo er þetta líka bara svo heimskulegt... þessi svokallaða speki þeirra er alveg takmarkalaust bull í rauninni, og bara skrítið ef fólk lætur narra sig útí þetta. 

halkatla, 15.1.2007 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband