Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

Kisa er komin heim - birtist í gærkvöldi eins og ekkert væri. Ég sem var farinn að taka saman í huganum punkta í minningargrein. Mikið ósköp getur ein lítil manneskja eins og ég glaðst yfir endurheimt eins lítils kattar! Ég hefði slátrað alikálfi hefði ég átt hann.

 

Ég sem á ekki svo mikið sem alimús.

 

Það var á föstudagsmorguninn sem kisa fór út að ganga eins og venjulega. Brátt fór að snjóa þessi ósköp. Tíminn leið og ekki kom kisa. Öðru hverju fór ég út í dyrnar og klappaði saman lófunum. Kisa veit að það er merki þess að núna sé matur. En ekki kom kisa.

 

Eldsnemma á laugardagsmorguninn rölti ég um göturnar hér í þorpinu og klappaði saman lófunum. Ekki veit ég hvort nokkur hefur séð til mín. Að minnsta kosti hefur enginn haft orð á því við mig. Kurteisar manneskjur, fólkið hérna á Reykhólum. En ekki kom kisa.

 

Á sunnudaginn var fólk að dreifa fuglakorni í görðum sínum hvarvetna. Munið eftir smáfuglunum í vetrarhörkunum og allt það. Ég fór út í garð og dreifði kattamat, og komst að því að snjótittlingar éta kattamat. Sjálfir geta þeir verið kattamatur, bölvaðir! En ekki kom kisa.

 

Í gær var mánudagur. Eins og kunnugt er, þá geta mánudagar verið erfiðir. Þetta var sérstaklega erfiður mánudagur. Minningarnar um kisu hrönnuðust upp. Ég fór út með meiri kattamat og klappaði saman lófunum, og fældi með því snjótittlingana. En ekki kom kisa.

 

Aldrei hefur nokkur maður gáð eins oft hvort hann sæi ekki lítil spor í mjöllinni. Spor eftir hvíta kisu í hvítri mjöll. Hvít spor. Þeir verða að missa sem eiga. Enginn finna okkur má / undir fannahjarni / dagana þrjá yfir dauðum ná / dapur sat hann Bjarni.

 

En ekki kom kisa.

 

Síðdegis í gær þurfti ég að fara að heiman. Þegar ég kom aftur seint í gærkvöldi fór ég strax að gá að sporum í snjónum. Og þarna voru þau! Kisa kúrði inni á sínum stað og teygði sig alla og geispaði öll þegar ég kom til hennar. Virtist ekkert svöng, enda líklega nógur kattamatur í garðinum.

 

Þegar kisa var almennilega vöknuð og nógu teygð og nógu geispuð gaf ég henni lifrarkæfu og rjóma. Svo kúrði hún í fanginu á mér dálitla stund áður en hún fór að leika sér að pappírsmús, á milli þess sem hún nuddaði sér utan í lappirnar á mér. Merkilegt að það skuli ekki verða þverfótað fyrir einum litlum ketti í heilu húsi!

 

Núna er mér aftur orðið hlýtt. Dyrnar út í garðinn voru opnar í fjóra daga og þrjár nætur, nógu mikið opnar fyrir hvítan kött.

 

Einhvern tímann um daginn kynnti ég kisu hér á blogginu. Leyfi mér að gera það aftur. Kisa er bjartleit og falleg. Þess vegna heitir hún Helga Guðrún. Hún er úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Þess vegna heitir hún fullu nafni Helga Guðrún Geirdal.

 

Stöðuheiti Helgu Guðrúnar Geirdal er fulltrúi. Hún er fulltrúi alls þess fólks og allra þeirra dýra sem mér hefur þótt vænt um á lífsleiðinni. Þegar ég gef henni lifrarkæfu og rjóma, þá er ég líka að gefa þeim lifrarkæfu og rjóma.

 

Mér hefur liðið bölvanlega þessa daga sem kisa var fjarri. Minntist samdægurs á það hér á blogginu að kisa hefði ekki skilað sér. Það var áður en ég fór að óttast um hana. En svo bloggaði ég ekki um hana söguna meir. Ég lét mér nægja að blogga um ómerkilega hluti eins og heimsfriðinn og Kárahnjúkavirkjun og reyta af mér brandara eins og fólk gerir alltaf þegar því líður illa.

 

Dularfulla kattarhvarfið verður sennilega aldrei upplýst, frekar en aðrar góðar gátur. Í huganum leitaði ég ýmissa skýringa. Kannski hafði hún verið að eltast við snjótittlinga og nýfallinn snjórinn orðið til þess að hún rataði ekki heim aftur. Kannski hafði góðhjartað fólk skotið yfir hana skjólshúsi. Kannski hafði hún hrakist niður á gámasvæði og leitað þar skjóls og músa. Kannski hafði örninn tekið hana.

 

– – –

 

Og hver er svo lærdómurinn af þessari sögu? Sosum enginn. Ég er orðinn fullgamall til að draga lærdóma. Nema kannski þann, hvað maður getur verið lítill í sér þegar köttur týnist. Eiginlega ekki stærri en mús.

 

Núna sefur Helga Guðrún Geirdal fulltrúi og veit ekki að hún er einni lítilli manneskju kærari en heimsfriðurinn og víðerni öræfanna. Ég ætla að gefa henni lifrarkæfu og rjóma þegar hún vaknar.

  

Fyrri blogg um kisu:

 

12.01.07 Niðurlag vantar

07.01.07 Dinner for two

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fararstjórinn

Það er gott að vita að kisa litla er komin heim, maður er alltaf skíthræddur þegar dýrin týnast. Ég skil þig svo gjörsamlega fullkomlega algerlega...

Fararstjórinn, 16.1.2007 kl. 10:45

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

En hvað ég skil þig. Þó fara kettirnir mínir aldrei út. þeir eru svokallaðar innikisur, að  hluta vegna  þess að  ég bý  á þriðju  hæð  í  blokk.

En þó týndi ég einum ketti fyrir mörgum árum, það var inniköttur líka, hann Bambus sem nú er dáinn blessaður. Ég hafði sett hann í pössun til sonar míns sem bjó á 6. hæð í blokk. Kisi lá allan fyrsta daginn undir rúmteppi. Morguninn eftir var hann horfinn. Hafði látið sig gossa ofan af sjöttu hæð til þess að finna mig.

Þetta kostaði það að ég fór heim (nýkomin) á Heilsustofnun Hveragerðis) alfarin til þess að leita að Bambusi mínum. Hann fannst eftir hálfan mánuð lokaður inni í einhverjum bílskúr úti í bæ.

Ég fór og sótti hann upp í Kattholt og mikið ósköp fann mér til í sálinni þegar ég sá hann og kom við hann. Hann var svo grindhoraður að ég fann fyrir öllum hryggjarliðunum þegar ég strauk honum um bakið og hann var líka kominn með orma.

Svo var hann orðinn svo lítill bógur að hann pissaði á mig í bílnum á leiðinni heim. En ég kærði mig kollótta. Bambus (hann hét það) var meira virði á þessari stundu en en ein úlpa sem hægt var að þvo og einn bíll að innanverðu sem líka var hægt að þrífa. Hann var mér meira virði þá en allt annað í veröldinni. 

Svava frá Strandbergi , 16.1.2007 kl. 11:13

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Samgleðst þér að kisa skuli vera komin í leitirnar

Ágúst Dalkvist, 16.1.2007 kl. 11:22

4 Smámynd: Dagbjört Hákonardóttir

Mikið fannst mér þetta falleg saga :) Inninlega til hamingju með að fá snúlluna heim! 

Dagbjört Hákonardóttir, 16.1.2007 kl. 11:24

5 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Yndisleg frásögn. Og yndislegt að Helga Guðrún sé komin heim.

 E.s. Þarftu ekki skrifa nafnið hennar á dyrabjölluna?

erlahlyns.blogspot.com, 16.1.2007 kl. 12:03

6 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Skrifa nafnið hennar á dyrabjölluna? Nei, hún veit hvar hún á heima.

Hlynur Þór Magnússon, 16.1.2007 kl. 16:36

7 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Ég meinti nú hvað það væri heimilislegt að lesa þar:

Hlynur Þór Magnússon

Helga Guðrún Geirdal.

Hennar nafn gæti auðvitað líka komið á undan.

Samkynhneigður vinur minn bjó um tíma með kettinum Ólafi og héldu allir að það væri nýji gæinn þegar þeir hringdu bjöllunni. Köttur vinkonu minnar hét síðan James Hetfield (sbr. söngvara Metallica!) eins og mátti lesa á póstlúgunni.

erlahlyns.blogspot.com, 16.1.2007 kl. 16:59

8 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Jú, kettir eru miklir sjálfstæðismenn. Vegir þeirra eru órannsakanlegir.

Hlynur Þór Magnússon, 16.1.2007 kl. 21:20

9 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Geimfrú, skil ég það ekki rétt að þú sért mín gamla góða vinkona V. - eða hvað?

Hlynur Þór Magnússon, 16.1.2007 kl. 22:20

10 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Anna - ég skila til hennar kveðju.

Hlynur Þór Magnússon, 16.1.2007 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband