Minningargreinin sem Mogginn geymdi fram í andlátið

Ég nefndi síðast að ég hefði verið byrjaður að taka saman punkta í minningargrein um kött. Þá birtist kötturinn. Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér minningargreinin sem ég skrifaði eitt sinn og var síðan geymd í prentsmiðju Morgunblaðsins þangað til hinn látni loksins dó.

 

Dwight D. Eisenhower, yfirhershöfðingi í seinna stríði og síðar forseti Bandaríkjanna, var löngum heilsutæpur á efri árum - hjartað. Þegar ég vann á Morgunblaðinu í fornöld fékk hann einu sinni sem oftar alvarlegt hjartaáfall og var ekki hugað líf. Þegar fréttin kom á telexinu var ég rifinn úr einhverju öðru og látinn taka saman æviágrip í snatri. Handritið fór beint niður í setningu og umbrot og síðan var beðið fram á deadline eftir staðfestingu á andlátinu. Innskot: Assgoti er orðið deadline annars gott í þessu samhengi! Staðfestingin kom ekki og gamli maðurinn hjarnaði við. Árið eftir þegar Eisenhower loksins dó kom hin ótímabæra minningargrein í góðar þarfir - hún birtist í Morgunblaðinu 29. mars 1969 (ein og hálf síða takk) en andlátið var staðfest vestra kl. 17.25 að íslenskum tíma daginn áður. Ekki finnst mér fyrirsögnin tilþrifamikil; annað hvort er hún björn síns tíma eða þá að ég hef ekki samið hana.

 

Þetta vakti mig til umhugsunar um nauðsyn þess að eiga svona samantektir á lager í stað þess að þurfa að rjúka til þegar helstu stórmenni yrðu bráðkvödd. Varla þarf að minna á, að þá höfðu menn ekki tölvurnar og Netið og aðra tækni sem öllu hefur breytt. Gagnaleit var tímafrekari og síðan þurfti að hamra textann á ritvél - á þessum tíma voru blaðamenn á Mogganum ekki einu sinni komnir með rafmagnsritvélar, ef ég man rétt. Svo fór handritið í prentsmiðjuna, þar sem setjarar sátu við stórbrotnar skröltandi vélar og pikkuðu textann upp á nýtt á lyklaborð - Þórólfur var besti setjarinn; gerði varla villu - en vélin steypti hverja línu í blý. Nenni ekki að rifja ganginn í þessu lengra, enda átti hann engan þátt í dauða Eisenhowers, en þetta var allt saman mjög skemmtilegt. Jú, prófarkalesturinn. Páll Skúlason prófarkalesari á Morgunblaðinu, fyrr á árum ritstjóri Spegilsins, var einhver fyndnasti og jafnframt einhver skapbráðasti maður sem ég hef kynnst. Meira að segja sjálfur Matthías Johannessen hörfaði öfugur út þegar Páll reiddist - yfirleitt út af ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég held jafnvel að Páll hafi verið næstum því eins mislyndur og ég.

 

Þarna fór ég víst út í aðra sálma.

 

Ég get eiginlega ekki stillt mig um að fletta þessu gamla tölublaði. Hæst ber mikla samantekt undir fyrirsögninni 30. marz 1949 - þegar kommúnistar gerðu atlögu að íslenzku lýðræði. Meðal annarra fyrirsagna má nefna þessar: Stefna framsóknarmanna leiðir til innflutningshafta, Harkaleg árás kommúnista á verzlunarstéttina, Nægur snjór er nú á Ísafirði (svo er enn í dag; ekki þó sami snjórinn), Góð aðsókn hjá SÚM, Skákþing Íslands hefst í dag (ég tefldi þar!). Þarna getur að líta stóra vindlaauglýsingu og litla auglýsingu undir fyrirsögninni Vélritunarstúlka: Stúlka vön vélritun getur fengið vinnu e.h. (2-7). Tilb. með uppl. merkt: „Vélritunarstúlka 2744“ sendist afgr. Morgunblaðsins. Júdas og Roof Tops spila í Ungó í Keflavík en Flowers og Pops í Stapa. Í Hafnarbíói er kvikmyndin Helga, mjög áhrifamikil og athyglisverð ný þýzk fræðslumynd um kynlífið, tekin í litum, sönn og feimnislaus túlkun á efni sem allir þurfa að vita deili á. Háskólabíó sýnir 79 af stöðinni. Í dagskrá Sjónvarpsins ber einna hæst - fyrir utan dagskrárliðinn Endurtekið efni - fræðslumynd um Nýja Sjáland og aðra fræðslumynd sem nefnist Finnskt sveitabrúðkaup, þar sem lýst er gömlum brúðkaupssiðum í Austur-Botni.

 

Gaman finnst mér að fletta þessum gömlu blöðum og muna þetta allt eins og það hefði verið í gær. Í þessu blaði fannst mér þó mest gaman að sjá minningargreinina mína um Eisenhower - manninn sem hafði níu líf eins og kötturinn.

              

                                     

Myndin af síðunni er tekin af vefnum Tímarit.is og þar var blaðinu jafnframt flett - sjá nánar:

09.01.07 Morgunblaðið og Maaneds-Tidender

                    

Eisenhower


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband