24.1.2007
Stólpípur ...
Leiðirnar til að hafa peninga af fólki eru óteljandi. Nýjasta leiðin er gegnum stólpípu, eins og fram kom í Kastljósinu áðan. Áður hefur þjóðin komist í kynni við t.d. Bramadropa, segularmbönd, miðilsfundi, Kína-lífs-elexír, frumópið, blómadropa, scientology, blóðkoppa, jesúlæti og ótalmargt fleira sem allt á að lækna. Sumt af þessu er að vísu fallið úr tísku.
Í besta falli er þetta skaðlaust fyrir líkama og sál. Skaðinn getur hins vegar falist í því, að ekki er leitað lækninga við meinsemdum heldur treyst á skottulæknana.
Leiðin að hjarta mannsins liggur í gegnum magann, var einu sinni sagt. Í Kastljósinu var fjallað um nýtt tilbrigði við þetta gamla stef: Leiðin að buddu náungans liggur í gegnum rassgatið.
Athugasemdir
Hægt að kaupa ódýr tól og gera þetta heima hjá sér.
Miða við hversu mikið við látum plata okkur í eyðslu á óhollum matvörum þá er sjálfsagt að koma til móts við það t.d. 1x á ári með því að fara í detox :)
Geir Jónsson (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 20:22
...svo ekki sé minnst á "hvíttun" á fyrrnefndum stað
Heiða B. Heiðars, 24.1.2007 kl. 21:30
Nú leikur stólpípan stærstan þátt í lífi Jónínu.Hugmyndarík hugsjónakona kona sem ætlar að hjálpa heimsbyggðinni að losa sig við síðbúinn saur.Hvílík kynning fyrir íslenska útrás.
Kristján Pétursson, 25.1.2007 kl. 00:31
Gleymdi Herbalife.
Hlynur Þór Magnússon, 25.1.2007 kl. 00:51
Heilbrigð sál í hreinum ristli...
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 25.1.2007 kl. 02:43
Þú spyrð, Geimfrú. Varðandi Bramadropa: „Um miðja nítjándu öld hófst mikið framfaraskeið í flestum vísindum. Segja má að þá verði læknisfræði nútímans til. Þekking á allri líkamsstarfsemi jókst og vonir kviknuðu um að brátt mundi takast að vinna bug á flestum sjúkdómum og mannanna meinum. Hómópatar nutu góðs af þeirri bjartsýni sem ríkti og meðul þeirra voru síst talin lakari en þau sem fengust í apótekum. Samhliða jókst svo áhugi fólks á alls konar lyfjum sem áttu að vera allra meina bót: Kína-lífs-elexír, Volta kross og Brahma voru allsherjarmeðul sem margir töldu að dygðu gegn flestum kvillum. Þess má geta að Kína-lífs-elexír var framleiddur á Seyðisfirði á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar (Smári Geirsson, 1989, bls. 140–164).“ (Skýrsla heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi, 131. löggjafarþing 2004-2005). Varðandi frumópið: Gúgglaðu Primal Scream (ekki hljómsveitin!) eða Primal Therapy, hlýtur að finna það. Blóðkoppar: Sogskálar settar á hörundið til að draga út meinsemdina.
Hlynur Þór Magnússon, 25.1.2007 kl. 07:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.