Það er nánast ekkert fjallað um gengi Íslendinga í dönskum fjölmiðlum ef frá er talin frétt snemma í mótinu þar sem sagt var frá því að Ísland væri á leið út úr HM. Í undirmálsgrein var síðan sagt frá því að Frakkar hefðu tapað gegn okkur, ekki að við hefðum sigrað Frakka.
Þetta segir Birgir Þór Bragason á bloggi sínu í morgun. Danskir íþróttafréttamenn og meðreiðarsveinar þeirra, sérfræðingarnir, eru búnir að sigra í leiknum við okkur Íslendinga. Þeir voru farnir að tala um okkur sem auðveldustu mótherjana strax þegar tíu mínútur voru eftir af leik þeirra í gærkvöldi. Hefðum ekki getað verið heppnari, við erum svo gott sem komin áfram í fjögurra liða úrslit, þetta heyrðist aftur og aftur, segir Birgir líka.
Ekki er maður neitt óvanur slíku. Ætli Danir muni ekki 14-2 landsleikinn í fótbolta hér um árið alveg eins vel og Íslendingar, ef til vill betur? Einhvern veginn virðist mörgum Dönum tamt að líta niður á núverandi og fyrrverandi þegna sína í norðvestrinu, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga. Kannski ekki að ástæðulausu.
Í dönskum fjölmiðlum er nokkuð fjallað um heimsmeistaramótið í handbolta. Raunar er minnst á það í þýskum vefmiðlum líka, þó að þar sé yfirleitt lítið fjallað um jaðaríþróttir á borð við póló, starfshlaup, dráttarvélakappakstur og handbolta. Ástæðan fyrir athygli þýskra fjölmiðla er líklega sú, að mótið er haldið í Þýskalandi að þessu sinni.
Þýskur handbolti hefur á liðnum árum verið mikið í íslenskum íþróttafréttum. Þannig er skilmerkilega greint frá úrslitum í leikjum liða í þýskum sveitaþorpum ef Íslendingur er meðal leikmanna. Ætli margir Íslendingar kannist við ýmsar af helstu borgunum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta nema vegna þess hversu margir Íslendingar hafa spilað með þýskum liðum - Melsungen, Lübbecke, Balingen, Hildesheim, Göppingen, Wilhelmshaven, Nordhorn, Grosswallstadt, Wetzlar, Minden, Lemgo eða Östringen?
Ein helsta ástæðan fyrir viðgangi handboltans í sveitaþorpum í Þýskalandi og víðar er sú, að í litlum byggðarlögum er auðveldara að ná saman sjö mönnum í handboltalið en ellefu mönnum í fótboltalið. Í þeim allra minnstu þarf samt oft að fá einn eða tvo gaura frá Íslandi til að hægt sé að senda fullskipað lið út á völlinn.
Þjóðverjar eru stundum sagðir vita mikið um Ísland. Og það er alveg rétt. Stundum má hitta Þjóðverja (undanskil hér auðvitað þýska túrista á ferðalagi um Ísland) sem vita fullvel að á Íslandi býr germönsk þjóð en ekki ínúítar, germönsk víkingaþjóð sem trúir á Óðin og Þór og hakakrossinn og spilar handbolta á björtum sumarnóttum við heimskautsbaug. Þó getur jafnvel hinum skýrustu skjöplast í þessum efnum sem öðrum, sbr. frásögn af tónlistarkonunni Björk í Spiegel eða Stern fyrir kannski fimm til tíu árum, þar sem talað var um hana sem íslensku ínúítastúlkuna.
Við Íslendingar erum á heimsmælikvarða í handbolta þótt ekki höfum við enn orðið heimsmeistarar. Hvernig væri nú að leggja megináherslu á einhverja aðra jaðaríþrótt þar sem líkur væru á enn betri árangri á alþjóðavettvangi en jafnvel í handboltanum? Hvenær vinnum við Evrópumeistaramótið í sviðakappáti? Og hvenær verðum við heimsmeistarar í íslenskri glímu?
Áfram Ísland!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.