23.2.2007
Nagli í líkkistuna - nú frá Marel
Fræg er yfirlýsing Þorsteins Más Baldvinssonar þegar Samherji yfirtók flaggskip ísfirskrar útgerðar: Guggan verður áfram gul og verður gerð út frá Ísafirði. Þau koma í hugann enn á ný nú þegar Marel fer með allt sitt frá Ísafirði. Sá er þó munurinn, að Marel býður starfsfólkinu á Ísafirði að flytja bara suður og halda áfram að vinna hjá fyrirtækinu þar.
Fyrirtækið Póls á Ísafirði var eitt af þeim sem Ísfirðingar höfðu mestar mætur á. Hreinlega stoltir af. Marel, helsti samkeppnisaðilinn, fyrirtæki með rætur í Sambandsveldinu gamla (og nýja), yfirtók Póls fyrir fáum árum. Þá voru uppi yfirlýsingar af sama tagi og varðandi Gugguna - yfirlýsingar gegn betri vitund, gefnar til að sefa í bili þá sem höfðu af þessu áhyggjur.
Líkkista atvinnulífs á Vestfjörðum er að verða fullsmíðuð.
Grétar Pétursson segir tíðindin af lokun Marels hafa áhrif á fleiri en starfsmenn fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra; þau slái líka á móralinn í bænum almennt. Hann segist ekki sjá það í fljótu bragði hvað starfsmenn taki sér fyrir hendur þegar yfir lýkur hjá fyrirtækinu. Hjá fyrirtækinu starfa margir ungir menn sem eru að byggja sér heimili á Ísafirði. Það er ekki gott að segja hvað menn munu gera. Grétar segist ekki spenntur fyrir þeirri tilhugsun að flytjast búferlum á höfuðborgarsvæðið og vinna hjá starfsstöð fyrirtækisins í Garðabæ. Ég bý í ljómandi góðu einbýlishúsi hér á Ísafirði, að selja það og eiga varla fyrir kjallaraholu í höfuðborginni í staðinn finnst mér ekki spennandi.
P.s.: Einmitt á þessari stundu er Kristján Þór Júlíusson að tjá sig í fréttum Ríkisútvarpsins - fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarmaður í Samherja, núverandi bæjarstjóri á Akureyri, eða hvort hann er nýhættur af vissum ástæðum þvert ofan í fyrri yfirlýsingar - um nauðsyn þess að hafa tiltekna þjónustu úti á landi ...
Athugasemdir
Úti á landi fyrir þessum Nýðhögg er bara Akureyri.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2007 kl. 19:50
Líkkistan er fullbúin myndi ég segja. Á bara eftir að auglýsa útförina.
Katrín, 23.2.2007 kl. 21:01
Svona er fyrirtækjafasisminn, sem við köllum "frjálshyggju". Nú kemur í ljós hverra frelsi um var rætt. Þetta mun einnig birtast í stærra samhengi, þar sem erlend stóriðja getur tekið sig upp og farið, henti það arðsemisáætlunum. Svo geta þeir líka ráðið orkuverði og gjöldum á sig í skjóli þessarar ógnar. Straumsvíkurútþenslan er vægt dæmi um hug þeirra. Hér er gamla Aronskan í annari birtingarmynd.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.2.2007 kl. 22:10
Ekki finnst mér nú í lagi að líkja Ísafirði og því heiðursfólki sem þar býr við lík-kistu. Hingað til hefur fólk frá þessum slóðum haft bæði meiri metnað og getu en það.
Ekki finnst mér heldur í lagi að skammast yfir Marel í þessu sambandi, ef menn eru eitthvað ósáttir við endalok Póls þá væri nær að tala við þá menn sem ákváðu að selja það í burtu, því yfirleitt þegar eitthvað er selt í burtu, fer það í burtu, ekki satt?
Hafsteinn Gunnarsson, 24.2.2007 kl. 12:13
Hafsteinn: Hér var enginn að líkja Ísafirði og fólki þar við líkkistu. Hér var verið að tala um líkkistu atvinnulífs á Vestfjörðum - sú myndlíking er alþekkt og margnotuð og væntanlega flestum kunn.
Hlynur Þór Magnússon, 24.2.2007 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.