3.3.2007
Dagbók Morgunblaðsins í dentíð
Friðrik Sigurbjörnsson lögfræðingur sá um Dagbókina í Morgunblaðinu þegar ég var á Mogganum fyrir fjórum áratugum eða þar um bil. Dagbókin var að mestu fastir liðir með gagnlegum upplýsingum og ýmsu smáræði. Friðrik skrifaði dálk undir yfirskriftinni Storkurinn sagði, brúðhjónamyndir voru birtar (í daglegu tali við vinnslu blaðsins kölluðust þetta ríðingamyndir), þarna var brandari dagsins (sá NÆST bezti) og teikningin eftir Sigmund. Líka voru þarna ýmsar smáfréttir af fólki.
Einn liðurinn í Dagbókinni hét Vísukorn, þar sem venjulega birtist frumsamin vísa eftir einhvern af hagyrðingum Reykjavíkur, sem oft lögðu leið sína á ritstjórnina eða hringdu. Fyrir kom að Friðrik varð uppiskroppa með vísur og fékk mig til að bulla eitthvað í eyðuna.
Á ráfi mínu núna í gömlum blöðum rekst ég nú á eitthvað af þessum samsetningi, sem ég vildi að vísu ekki hafa nafn mitt undir heldur notuðum við eitthvert dulnefni. Að minnsta kosti stundum var dulnefnið Mörður notað í þessum tilgangi. Ekki hélt ég þessu til haga að öðru leyti en hvað varðar birtinguna í Morgunblaðinu - og þætti þó kannski einhverjum nóg - og lagði það ekki heldur á minnið. Núna bar eftirfarandi vísukorn merkt Merði fyrir augu mér - Morgunblaðið 13. júlí 1967 - þar sem saga íslensku þjóðarinnar er tekin saman:
Þjóðin hefur þraukað af
þrengingar á færibandi.
Daglegt brauðið Drottinn gaf
en Danir fluttu það úr landi.
Þess má geta, að meðal mynda sem auglýstar eru í kvikmyndahúsum borgarinnar þennan sama dag eru Heimsendir, Skelfingarspárnar, Flóttinn frá víti og Á barmi glötunar. Ekki veit ég hvort það er einhver tilviljun, að þarna var þriðja kjörtímabilið undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks nýbyrjað ...
Myndir: Tímarit.is
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:30 | Facebook
Athugasemdir
Eitruð vísa og vel saman sett. Merkilegt þetta með kvikmyndatitlana...skyldi vera hægt að lesa tíðarandann úr þeim hverju sinni? Best að kíkja í moggann...
Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2007 kl. 00:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.