27.3.2007
Tíminn líður við innanverðan Breiðafjörð
Hér á Reykhólum er logn og vorblíða. Jörðin auð en fjallahringurinn hvítur, hólmarnir svartir, sjórinn blár, ég hægri grænn. Rjúpur á vappi fyrir utan, kötturinn spenntur. Hundurinn hvarf að heiman í gær; tík í grennd. Þeir eru að gera við gluggana í kirkjunni.
Fyrir sunnan er verið að pexa út af þjóðsöngnum. Við Matti frændi brosum.
Á morgun er afmælisdagurinn hennar mömmu. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn. Þá var Hannes Hafstein ennþá Íslandsráðherra. Þremur dögum seinna tók Björn úr Djúpadal við.
Svona líður tíminn við Breiðafjörð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:39 | Facebook
Athugasemdir
Dásemd Breiðafjarðar efar enginn. Samgleðst þér að dvelja þarna í ró og næði, án svifryks, nagladekkjaumræðu, þjóðsöngsrifrildis eða umferðar. Stefni sjálfur á að koma mér af mölinni í sæluna við Breiðafjörð áður en langt um líður og hef sett stefnuna á Flatey. Verð samt að kanna fyrst hvort nettenging sé á staðnum
Halldór Egill Guðnason, 27.3.2007 kl. 14:20
Hér á Siglufirði ríkir kyrrðin ein ofar öllu. Ekki heyrist einusinni í varginum, né kúar æður við fjöruborð. Það er tímanna tákn. Vonandi verður þrátt um þjóðsönginn og ekkiklám til þess að breyta þessu. Mér er það þó til efs.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.3.2007 kl. 14:34
Ég kem vonandi bráðlega til þín í friðsæld og fegurð.
erlahlyns.blogspot.com, 27.3.2007 kl. 17:19
Enn er hér glaðasólskin, logn, vor, nánast alger kyrrð - friðinn rjúfa einungis fuglar himins og jarðar, lands og sjávar. Og hundurinn sem vill að við förum í labbitúr.
Hlynur Þór Magnússon, 28.3.2007 kl. 13:38
Ég sakna hundsins! Sá íslenskan blending á Akureyri fyrr í dag og mér varð nánast illt af söknuði
erlahlyns.blogspot.com, 28.3.2007 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.