Það var bankað hjá mér áðan. Úti var hópur af krökkum úr Reykhólaskóla ásamt Ástu Sjöfn kennara. Erindið? Að gefa mér köku! Við hana voru festir tveir miðar. Á öðrum stendur: Til Hlyns, frá krökkunum í Reykhólaskóla. Á hinum: Hamingjan er ómetanleg en kostar ekkert. Þar er líka teiknuð andlitsmynd sem kannski á að vera af mér. Minnir samt frekar á brosandi kött, að mér finnst. Ef til vill minni ég sjálfur á brosandi kött. Ekki þætti mér það neitt slæmt, síður en svo!
Já, núna er þemavika í Reykhólaskóla og nemendurnir biðja íbúa Reykhólahrepps um liðveislu í því að gera okkar góða samfélag enn betra. Krakkanir minna okkur meðal annars á að við getum boðið góðan dag með bros á vör, hjálpað öðrum, tekið tillit til annarra, verið jákvæð og látið hjá líða að kvarta að óþörfu. Og ekki síst: Við getum látið fólk vita að okkur þyki vænt um það.
Því má bæta við, að ég er ekki alls ókunnugur samfélaginu góða í Reykhólahreppi. Það er einmitt helsta ástæða þess, að ég er kominn hingað aftur og sestur hér að á ný eftir meira en aldarfjórðungs fjarveru.
Núna ætla ég að fá mér kökubita og hugsa á meðan til vina minna og ættingja í Reykhólaþorpi og um allan Reykhólahrepp að fornu og nýju. Mér þykir vænt um Reykhólasveitina og héraðið allt, ættarslóðir móður minnar. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn og afmælisdagurinn hennar var í gær.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það væri óskandi að þessi fallegi andi sem þarna birtist, næði eyrum fleiri og víðar. Þú ert greinilega vel í sveit settur þar sem þú ert.
Halldór Egill Guðnason, 29.3.2007 kl. 15:48
Nemendurnir í Reykhólaskóla núna eru meira og minna börn krakkanna sem ég kenndi ...
Hlynur Þór Magnússon, 29.3.2007 kl. 15:57
Góður. Hlýtur að vekja stolt að sjá hve vel tókst til.
Halldór Egill Guðnason, 29.3.2007 kl. 16:30
En fallegt
erlahlyns.blogspot.com, 29.3.2007 kl. 20:10
Skemmtilegt uppátæki og segir mikið um þig
Heiða B. Heiðars, 30.3.2007 kl. 01:56
Heiða mín: Þetta er ekki neinn vitnisburður um mig, heldur um fólkið hér við innanverðan Breiðafjörð. Bæti við: Þegar ég kom hér fyrst í gamla daga skrapp ég fljótlega í heimsókn að Miðjanesi, til Játvarðar Jökuls Júlíussonar heitins, bónda og fræðimanns, þess stórmerkilega manns, sem var svo gersamlega lamaður, að hann skrifaði bækur sínar á rafmagnsritvél með pinna sem hann hafði í munninum. Hann sagði mér strax hvernig við værum skyldir. Ég var ekki með þau tengsl á hreinu en hann þurfti ekki að fletta neinu upp í þeim efnum. Þessi fyrsti fundur okkar er mér ógleymanlegur. Líka er Sveinn Guðmundsson á Miðhúsum ógleymanlegur maður. Bóndi og kennari í áratugi, fréttaritari Morgunblaðsins í áratugi. Svo ekki sé nú minnst á þau hjónin Jens Guðmundsson kennara og skólastjóra á Reykhólum og hans góðu konu Jóhönnu Ebenezersdóttur.
Svona mætti lengi, lengi telja.
Hlynur Þór Magnússon, 30.3.2007 kl. 07:59
Nefni til gamans: Moggabloggarinn Þrymur Sveinsson er sonur Sveins á Miðhúsum og gamall nemandi minn. Moggabloggarinn Hrafnkell Daníelsson er sonur Daníels Jónssonar, sonar Jóns Daníelssonar, hins fræga manns í Breiðafjarðareyjum, en mamma og hann voru systkinabörn.
Hlynur Þór Magnússon, 30.3.2007 kl. 08:46
Biblíunöfn svokölluð eru algeng í breiðfirskri ætt minni. Daníel Guðmundsson heitinn, móðurbróðir minn, er einn þeirra manna sem ég met einna mest allra sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.
Hlynur Þór Magnússon, 30.3.2007 kl. 08:50
Það hafa alltaf verið góð börnin í Reykhólaskóla
Ágúst Dalkvist, 30.3.2007 kl. 10:57
Núnú - eða þá Moggabloggararnir Ágúst Dalkvist og Jóhanna Fríða Dalkvist og öll þau systkini, krakkarnir mínir í skólanum í gamla daga!
Hlynur Þór Magnússon, 30.3.2007 kl. 11:00
en skemmtilegt
halkatla, 30.3.2007 kl. 11:12
Æ, hvað þetta vekur manni vonir um mannfólkið. Er þetta ekki svo mikið verðmætara en allir Porsjeppar og flatskjáir heimsins?
Jón Steinar Ragnarsson, 30.3.2007 kl. 11:47
Reykhólasveitin hefur alltaf verið og verður alltaf best í heimi
Jóhanna Fríða Dalkvist, 30.3.2007 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.