Þegar við Finnbogi brotlentum og aðrar flugminningar

Um daginn sagðist ég ætla að segja frá því bráðum þegar við Finnbogi Hermannsson fréttamaður brotlentum á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum. Kannski er ofsagt að við höfum beinlínis brotlent, en það hljómar betur.

 

Hann var á sunnan og þá getur verið ókyrrt í aðfluginu inn fjörðinn. Við Finnbogi sátum aftast, ég við gluggann vinstra megin og horfði út, hann við hliðina á mér og las Þjóðviljann. Kirkjubólshlíðin streymdi framhjá, kindur á beit. Fokkerinn hoppaði og hristist og konur ráku upp vein en það er alvanalegt í sunnanátt. Við Finnbogi brostum góðlátlega. Flugbrautarendinn birtist rétt fyrir neðan og nálgaðist óvenjuhratt. Þarna voru þeir Kirkjubólsfeðgar brenndir á sínum tíma. Svo snöggreis vélin og slæmdi afturendanum í brautina. Að öðru leyti gekk lendingin eins og best verður á kosið. Flugfreyjan þakkaði okkur fyrir samfylgdina og kvaðst vona að við hefðum notið ferðarinnar og vélinni var ekið á sinn stað á planinu.

 

Hún flaug ekki meira þann daginn. Afturhlutinn á bolnum hafði gengið upp þar sem hann rakst niður og viðgerðarmenn komu að sunnan.

 

Eftir þetta var passað upp á að við Finnbogi sætum helst miðsvæðis í flugvélum.

 

Eitt sinn vorum við Finnbogi í hópi gesta í útsýnisflugi meðfram björgunum ógurlegu á Hornströndum. Þar var skyndilega flogið inn í ókyrrð. Bakkar með veisluföngum svifu upp í loftið og snerust á hvolf eins og brauðsneiðin fræga áður en þeir lentu. Ja, það var nú verkun, eins og gamla fólkið sagði. Ég glotti með sjálfum mér enda slapp ég við sósur. Svona getur maður verið mikið kvikindi. Ekki var okkur Finnboga kennt um í þetta sinn.

 

Assgoti hef ég annars flogið mikið um dagana. Að vísu kom ég ekki í flugvél fyrr en ég var nítján ára gamall. Þá fór ég með Canadair CL-44 Rolls-Royce skrúfuþotu Loftleiða til Lúxemborgar, þaðan sem ég fór með hraðlest til Mílanó og svo áfram suður á bóginn með frumstæðari farkostum. Loftleiðavélar þessar, Monsarnir eins og þær voru kallaðar, voru stórar á þess tíma mælikvarða og hægfleygar miðað við þoturnar. We are slower but lower auglýstu Loftleiðamenn og náðu vinsældum í Ameríkufluginu vegna lágra fargjalda.

 

Donna frænka mín - Þórunn dóttir Héðins föðurbróður míns, fallegasta stúlka sem ég hef nokkurn tímann séð - var flugfreyja í þessari ferð. Hún fór með mig fram í stjórnklefa þar sem ég fékk að skoða mig um. Ennþá man ég vel eftir lendingunni ljúfu á Findelflugvelli í Lúxemborg og hlýja loftinu sem tók á móti mér.

 

Sumarið eftir þegar ég var á Morgunblaðinu var ég sendur í flugferð með Elíeser Jónssyni á tékknesku Zlin Trener Master listflugvélinni sem notuð var til sýninga á þessum árum. Enn á ég myndir sem Sveinn Þormóðsson ljósmyndari á Mogganum tók af okkur og vélinni á Reykjavíkurflugvelli. Sveinn komst ekki með; reyndar hefði vélin varla borið hann einan. Zlininn var eins hreyfils tveggja sæta lágþekja og ég sat beint fyrir aftan flugmanninn. Yfir okkur var glær plasthlíf. Elíeser fór út yfir Skerjafjörð og lék listir sínar og spurði öðru hverju hvernig mér liði og hvort hann mætti gera fleira. Mér fannst þetta ógurlega gaman. Þarna upplifði ég allt sem vélin og flugmaðurinn gátu, svo sem bakfallslykkjur og krúsidúllur af öllum sortum og svo var flogið á hvolfi þar sem maður hékk í ólunum og horfði beint niður í blágrængráflekkóttan sjávarbotninn. Hann flaug líka beint upp þangað til vélin stöðvaðist í loftinu og fór að velta og hrapa og hringsnúast á leiðinni niður aftur áður en hann rétti vélina af niðri við sjávarflötinn. Þegar við lentum beið Sveinn með myndavélina á vömbinni ásamt hópi manna. Hann sagði mér á leiðinni niður á Mogga að ég hefði valdið þeim vonbrigðum þegar ég steig kátur út á vænginn og hoppaði niður. Þeir höfðu verið að bíða eftir að sjá helvítis blaðasnápinn velta grænan og gubbaðan út úr vélinni.

 

Mogginn fékk eitt sinn Björn Pálsson sjúkraflugmann til að skutla mér og ljósmyndara á Landsmót hestamanna austur á Hellu. Það var svartaþoka á Hellisheiðinni og Björn skreið með jörðinni eins og hann gerði til hinsta dags. Þetta er eina skiptið sem ég hef farið í flugvél niður Kamba og svo upp aftur í bakaleiðinni.

 

Og svo eru auðvitað ævintýraferðirnar um alla Vestfirði miklu seinna með Herði Guðmundssyni flugmanni á Ísafirði eða einhverjum af hans mönnum. Já, og þegar ég kom þrisvar í sömu vikunni á Straumnesfjall. Tvisvar með Chinook-þyrlum bandaríska hersins og einu sinni fótgangandi með Smára vini mínum Haraldssyni. Í þyrlunum var hávaðinn alger en í gönguferðinni var þögnin alger.

 

Nú er líklega nóg flogið þangað til ég breytist í hvíta dúfu í bylnum stóra seinast og tek strauið upp úr öllum veðrum og sest kurrandi við hænsnahúsdyrnar hjá Lykla-Pétri. Ekki kemst ég úr þessu í klúbbinn þarna þið vitið. Verst að hafa ekki hugsað út í slíkt meðan ennþá týrði á prímusnum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Takk fyrir góða grein, skemtileg lesning svona að morgni dags. 

Magnús Jónsson, 9.4.2007 kl. 10:23

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Anna frænka: Nei, veit ekki neitt; yfirleitt heyri ég ekkert af eða frá föðurfólki mínu. Fékk að vísu hlýja kveðju frá bróðursyni pabba á sextugsafmæli mínu í síðasta mánuði, auk þess sem annar bróðir minn skrifaði hér í gestabókina daginn fyrir afmælið.

Hlynur Þór Magnússon, 9.4.2007 kl. 12:51

3 Smámynd: Ibba Sig.

Þetta er skemmtilegt blogg!

Ibba Sig., 9.4.2007 kl. 16:13

4 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Þar sem þú toppar lífsreynslu mína í fluginu þá er best að segja sem minst. Góð saga...

Ólafur Björn Ólafsson, 9.4.2007 kl. 20:26

5 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll Hlynur.

Flugið er nú ekkert í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Læt mig samt hafa það. Ég er samt samt heillaður af flugvélum. Gaman að lesa um lífsreynslu þína af hlýja loftinu þegar þú steikst út úr vélinni í Lúx. Þessi sama tilfinning er einmitt svo sterk í minningu minni þegar að ég fór sem unglingur með mömmu og pabba og við lentum einnig í Lúxemburg. Ég tók andköf þegar ég steig úr vélinni. Þvílíkt loft.

Kær kveðja úr Mosó. Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 10.4.2007 kl. 01:49

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvort þetta rifjar ekki upp minningar, jedúddimía.   Nokkur flugin þar sem hoppað var um ísafjarðardjúp niður við sjávarmál í hríðarbyl með grát í eyrum og gubbuþef í vitum í 45 mín. áður en snúið var við.  Annaðhvort verða vestfirðingar sjúklega flughræddir eða algerlega dofnir fyrir hættum háloftanna.  Man eftir drulluflugvöllum eins og ræmunni á suðureyri og svo náttúrlega Kúlusúkk, þar sem stóð á tæpu að hraði næðist í flugtak út af forinni og flugtökin byrjuðu á niðurdýfu áður en menn náðu að koma nefinu í rétta átt.  Einhverra hluta vegna hugnast mér þyrlurnar best eftir allt þetta.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2007 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband