Rakst á þetta hér á blogginu hjá Víkaranum Baldri Smára Einarssyni. Leyfi mér að bæta við svolitlu ítarefni um húsið sem um ræðir, Einarshús eða Péturshús niðri á Mölunum í Bolungarvík. Þar er nú veitingastaður. Í eina tíð héldu sumir að þar væri almennur veitingastaður þó að svo væri í rauninni ekki, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Þegar Pétur Oddsson bjó þarna var þetta hús sorgarinnar en í tíð Einars Guðfinnssonar var það hús gleðinnar. Og svo er enn.
Veitingastaðurinn Kjallarinn er í einu af elstu og merkustu húsum Bolungarvíkur, Einarshúsi við Hafnargötuna, sem áður nefndist Péturshús og var byggt árið 1904. Ragna Magnúsdóttir er vert í Kjallaranum, en eiginmaður hennar, Jón Bjarni Geirsson, keypti húsið á 50 þúsund krónur vorið 2003. Seljandinn var Bolungarvíkurkaupstaður, sem hafði fengið þetta sögufræga hús að gjöf frá útgerðarfyrirtækinu Nasco þremur árum áður. Húsið var afar illa farið og raunar niðurrifsmatur og minna en einskis virði, ef saga þess í bænum hefði ekki komið til. Þegar Jón Bjarni gerði tilboð sitt í húsið sagði hann að markmiðið væri að reisa það til fyrri virðingar og koma því í upprunalegt horf.
Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í viðgerðir og endurbyggingu á þessu fornfræga húsi og miklum fjármunum varið til þeirra. Meðal annars hefur Húsafriðunarsjóður lagt fé til verksins, enda hefur húsið mikið menningarsögulegt gildi.
Húsið hlaut í daglegu tali nafngiftirnar Péturshús og síðan Einarshús vegna þeirra manna sem þar bjuggu ásamt fjölskyldum sínum og voru hvor á sínum tíma helstu athafnamennirnir í Bolungarvík. Þegar Pétur Oddsson reisti húsið fyrir rétt rúmri öld var það talið með stærstu og myndarlegustu íbúðarhúsum landsins. Af Pétri og fjölskyldu hans er mikil og reyndar alveg einstæð örlagasaga. Einar Guðfinnsson útgerðarmaður tók húsið á leigu árið 1935 og keypti það síðan og bjó þar nærri þriðjung aldar ásamt fjölskyldu sinni, eða allt þar til stigarnir urðu rosknu fólki heldur erfiðir.
Pétur Oddsson var helsti atvinnurekandinn í Bolungarvík fram undir heimskreppuna miklu. Um hann má fræðast nokkuð í bók Jóhanns Bárðarsonar, Brimgný, sem út kom árið 1943.
Árið 1907 varð fyrsta dauðsfallið í þessu húsi sorgarinnar, sem þá var. Síðan varð hvert dauðsfallið af öðru í fjölskyldunni. Síðla árs 1930 dó Helga, dóttir Péturs, síðust fjölmargra barna hans, og var hún fjórtánda líkið sem hann fylgdi til grafar frá húsi sínu.
Í Brimgný segir Jóhann Bárðarson m.a. svo um Pétur Oddsson:
Síðustu árin var hann mjög einmana, eins og gefur að skilja. Var oft ömurlegt, einkum fyrir þá, sem áður vóru kunnugir á heimilinu, að koma í Péturshús, þegar svo stóð á sem oftast bar við, að Pétur var einn heima og ráfaði fram og aftur um hinar stóru en mannlausu stofur, þar sem allt minnti á liðna tímann, svo sem stórar myndir af hinum horfnu vinum. Á slíkum stundum mun Pétur ekki hafa getað stytt sér stund með lestri eða öðru, og því ekki átt annars kost en ráfa um gólf sér til afþreyingar, meðan tíminn leið. Aldrei heyrðist hann þó mæla æðruorð né kvarta. Samfara þessu sá hann efni sín rýrna ár frá ári. Var honum orðið vel ljóst, að hann var ekki maður til að rétta við fjárhagslega.
Í æviminningum sínum, sem Ásgeir Jakobsson færði í letur og út komu árið 1978, segir Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungarvík:
Á þessu ári [1935] bauðst mér að kaupa með kostakjörum íbúðarhús það, sem Pétur Oddsson hafði byggt 1904 og var stórt og mikið hús. Mér hafði reyndar boðist það, þegar ég keypti eignirnar 1933, en hafnaði því boði þá og það hafði verið leigt. Í þessu húsi hafði gerst hin mikla sorgarsaga Pétursfjölskyldunnar. Berklar höfðu höggvið stærst skarð í þá fjölskyldu og var óttast, að þeir kynnu að leynast í húsinu með einhverjum hætti. Af þeirri ástæðu hafði ég hafnað kaupunum 1933. Ég þorði ekki að flytja í húsið með börnin.
Þessi voru þá örlög forvera míns í Víkinni, sem hafði átt mörg mannvænleg börn og verið einn ríkasti maður landsins um skeið. Það veit enginn sína ævina fyrr en öll er. Vissulega var það engin furða, þótt mér stæði stuggur af því að flytja með börn mín ung í þetta ógæfuhús. Nú var komið á fimmta ár frá því síðasti berklasjúklingurinn var borinn þaðan út látinn (Helga heitin í nóvember 1930) og þar sem ég hafði aldrei verið trúaður á að sýkillinn lifði í húsinu, þótt ég þyrði ekki að treysta á að svo væri ekki, kom ég þennan vetur, sem mér bauðst húsið á ný til kaups, að máli við Vilmund lækni á Ísafirði, en síðar landlækni, sem kunnugt er, og spurði hann, hvað honum sýndist um það, að ég flytti í Péturshúsið. Hann ráðlagði mér að bræla húsið með gufu og mála það síðan í hólf og gólf og þá myndi mér óhætt að flytja í það með fjölskylduna. Það yrði ekki um sýkingarhættu að ræða, ef ég gerði þetta. Ég fór svo að hans ráðum, en keypti þó ekki húsið það ár, heldur tók það á leigu af Landsbankanum þann 1. apríl 1935 og leigði það til 5 ára fyrir kr. 200 á mánuði. Ég setti þau skilyrði, að miðstöð væri látin í húsið, baðker og skolpleiðslur, gert yrði við kjallarann að innan og húsið málað, veggfóðrað og dúklögð öll gólf. Áður hafði það verið brælt með gufu.
Þegar þetta hafði allt verið gert, fluttist ég með fjölskyldu mína í húsið þann 1. apríl 1935 og þar bjuggum við þar til 1966 eða í rúm 30 ár. Öll mín fjölskylda var hraust og heilsugóð í þessu húsi og þar leið okkur vel. Nafnaskipti urðu á húsinu þegar stundir liðu og það kallað Einarshús. Margir hafa spurt, hvort við höfum einskis orðið vör í húsinu, svo margir sem þar dóu fyrir aldur fram og svo mörg lík sem þar stóðu uppi.
Enginn af minni fjölskyldu varð nokkurs var, sem dularfullt getur kallast, en ég hef sagnir af því, að gestir hafi orðið varir við óskýranleg fyrirbæri. Það sagði gestkomandi útgerðarmaður, að hann hefði legið vakandi í rúmi sínu síðla kvölds, þegar inn í herbergið gekk ungur maður, án þess að hurðin opnaðist, og stóð um stund á miðju gólfi og horfði á manninn í rúminu, og sá þessi útgerðarmaður unga manninn jafnljóst og um lifandi mann væri að ræða. Þessi útgerðarmaður er þó ekki gæddur neinum dulrænum hæfileikum, það hann viti. Hann sagði mér heldur ekki söguna né fjölskyldu minni til að hrella hana ekki, heldur öðrum manni mörgum árum seinna.
Þegar stigar fóru að verða okkur hjónunum erfiðir, einkum konu minni, fluttum við úr þessu húsi, sem hafði reynst okkur mikið gæfuhús og lifað þar blómann úr ævi okkar. Péturshús og Einarshús á sér þannig mjög tvískipta söguna milli harma og hamingju. Það var til dæmis aldrei borið lík út úr Einarshúsi í þau 32 ár, sem við bjuggum þar, nema Hildur, tengdamóðir mín, sem dó öldruð, og Kristján Tímotheusson, sem hafði dáið syðra, en líkið flutt heim og jarðsett frá mínu húsi.
Vissulega átti ég daprar stundir í þessu húsi, svo sem þegar slys urðu á bátum mínum eða miklir erfiðleikar steðjuðu að í rekstrinum, en miklu fleiri eru minningarnar ánægjulegar.
Fyrsta baðkerið í Bolungarvík, sem vatn var leitt að, var í Einarshúsi. (Það var að vísu gamalt baðker úti í Sameinaða, en það var borið vatn í það.) Í baðkerinu í Einarshúsi fengu ýmsir utan heimilis að baða sig, þar á meðal læknirinn, Sigurmundur Sigurðsson. Það var nú svo um þann ágæta mann, Sigurmund, að þótt hann væri greindur, þá var hann misgreindur. Hann virtist til dæmis ekki vera sterkur í eðlisfræðinni, ef dæma má af aðförum hans í baðkerinu í Einarshúsi. Hann fleytifyllti ævinlega baðkerið, áður en hann fór niður í það, og þá náttúrlega sullaðist úr kerinu og flóði út um allt gólf.
Gólfið var trégólf og undir baðherberginu var klæðaskápur Elísabetar og dætranna. Þær báru sig illa undan þessu flóði frá lækninum, en frúin harðbannaði að þetta væri nefnt við lækninn, því hún vildi ekki styggja hann, henni var vel til hans, eins og flestum Bolvíkingum. Þetta gerðist eins í hvert skipti, sem hann fór í bað, að hann fleytifyllti kerið og fór svo upp í það, og hann áttaði sig aldrei á þessari staðreynd, að þá myndi flæða út úr kerinu.
Það þurfti að dæla baðvatni í dúnk uppi á lofti í Einarshúsi. Vinnukonurnar höfðu þennan starfa, en komust sumar létt frá honum á stundum. Það komu nefnilega ungir menn aðvífandi og dældu fyrir þær og unnu sumir hug stúlknanna, þó að máski fleira hafi nú orðið til þess en beinlínis dælan. Það er svo sem ekki að fortaka það, en Einar Guðfinnsson telur ákveðið, að dælan hans hafi stofnað til að minnsta kosti þriggja farsælla hjónabanda og margra barna í þorpinu, og kannski fleiri en vitað er um. Stúlkurnar gátu varla fengið haldbetri staðfestingu á ást en þetta, að piltarnir komu hlaupandi til að dæla, því að dælan var þung og seinlegt að fylla dúnkinn. En þarna stóðu þeir sveittir og dældu og gátu rabbað við stúlkurnar sínar á meðan, - og uppskáru sumir ríkuleg laun um síðir. Vinnustúlkur í Einarshúsi vóru oft bestu kvenkostir plássins.
Mannmargt var oft í Einarshúsi, ekki síður en Péturshúsi, áður en dauðinn tók að herja þar. Börnin vóru þar átta og jafnan eitthvað af vandafólki mínu eða konunnar þar til húsa eða í mat og síðan vinnustúlkurnar, sem oft vóru tvær og veitti ekki af. Það vóru sjaldan færri en 20 manns við matborðið. Menn, sem komu á ferð sinni í plássið, áttu oftast eitthvert erindi við mig, og þó svo væri ekki, þá varð mitt heimili gististaður þeirra. Það var ekki í annað hús að venda. Kona mín var einstaklega röggsöm og dugleg húsmóðir og sýnt um að taka á móti gestum og virtist alltaf geta bjargað málunum, þótt gesti bæri óvænt að garði, stundum marga í einu.
Það var á tímum mæðiveikifjárskiptanna, að fyrir kom atvik, sem sýnir ljóslega, hversu fjölmennt var oft við matborðið í Einarshúsi. Þá komu bændur úr fjarlægum stöðum að sækja fé vestur og þá einnig til Bolungarvíkur. Eitt sinn var í plássinu í fjárkaupaferð bóndi að austan. Hann var öllum ókunnugur og vegalaus í þorpinu, en þurfti að fá að borða og hittir mann á förnum vegi og spyr hann, hvar hann muni geta fengið keyptan mat. Nú veit ég ekki, hvaða Bolvíkingur það hefur verið, sem hann hitti, nema hann bendir bóndanum á stórt hús miðsvæðis í þorpinu og segir honum, að hann skuli fara þangað, með svofelldum orðum: Þarna færðu að eta, manni minn.
Bóndinn lætur ekki segja sér þetta tvisvar, heldur gengur heim að húsinu, ber ekki að dyrum, því að það gera menn ekki á hótelum, heldur gengur rakleiðis inn, hittir þar konu mína og segist vera kominn til að borða. Konan var vön því að ég byði allskyns fólki í mat með mér og vísaði manninum til borðstofu. Þar var þegar allmargt manna, því að við vorum að setjast til borðs. Bóndinn heilsar og spyr, hvar hann eigi að sitja, og honum er vísað til sætis við borðið, en borðstofuborðið var mjög stórt og við það rúmuðust um tuttugu manns. Ég vissi lítil eða engin deili á þessum manni og vissi ekkert hvernig á því stóð, að hann var sestur þarna til borðs í húsi mínu.
Bóndanum er auðvitað borinn matur eins og öðrum og við tökum öll til matar okkar. En bóndinn, skrafhreifinn maður, vildi halda uppi einhverjum samræðum við borðið, og segir því, svona til að hefja samræðurnar: Hvað ertu búinn að reka þessa matsölu lengi, Einar?
Ég svaraði honum því, að hér væri engin matsala, það væri einungis heimafólk og vandamenn við borðið, nema hann.
Bónda setti fyrst hljóðan, en sagði síðan, að sér hefði verið vísað hingað af einhverjum þorpsbúa, og hlyti þetta að hafa verið hinn versti maður, að hlunnfara sig svona. Ég sagði, að það væri ekki, þetta væri algengt, að vegalausum mönnum væri vísað til okkar, því að engin greiðasala væri í plássinu og það væri ekki nema eðlilegt, að þorpsbúum fyndist sumum, að ég hlyti að vera þess best umkominn að gefa mönnum að borða, og væri honum maturinn velkominn. Mér gekk illa að friða hann, því að hann hafði miklar áhyggjur af því, hvað við kynnum að hafa haldið, einkum kona mín, þegar hann kom askvaðandi inn að eldhúsdyrum og heimtaði mat, og síðan við í stofunni, þegar hann spurði, hvar hann ætti að sitja. Hann þóttist þó skilja það, að í Einarshúsi væri mönnum ekki úthýst í öllu skaplegu. Það var heldur ekki venja í Litlabæ og voru þar þó minni efnin.
Þetta voru sumsé brot úr Einars sögu Guðfinnssonar, sem Ásgeir Jakobsson skráði. Nú er líf og starf í Einarshúsi á nýjan leik - og loksins komin þar greiðasala ....
Myndirnar sem hér fylgja eru úr Kjallaranum hjá Rögnu Jóhönnu Magnúsdóttur, vertinum í Víkinni - sem reyndar bloggar líka hér á Moggabloggi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:16 | Facebook
Athugasemdir
Frabaer lesning
Sólrún Þórunn D Guðjónsdóttir, 17.5.2007 kl. 07:05
Skemmtileg saga. Svona sögur sem tengir örlög fólks við staði heilla mig alltaf. Það breytir líka hvernig maður horfir á húsin. Ég hef tekið myndir af nokkrum gömlum húsum í Bolungarvík í því augnamiði að skrifa pistla á Wikipedia einhvern tíma í framtíðinni.
Er það Péturshús sem er á þessari mynd hjá mér?
http://www.flickr.com/photos/salvor/262970191/
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.5.2007 kl. 09:34
Fyrst hugsaði ég með mér: Úff, ekki nenni ég að lesa þessa langloku.
Nú sé ég sannarlega ekki eftir því. Sérstaklega hafði ég gaman af seinasta sögubrotinu.
erlahlyns.blogspot.com, 17.5.2007 kl. 16:25
Einmitt sem eg hugsadi En hefdi viljad hafa thad lengra eftir eg var buin ad lesa
Sólrún Þórunn D Guðjónsdóttir, 17.5.2007 kl. 17:24
Já, Salvör, þetta er húsið á myndinni hjá þér. Hún er væntanlega tekin í fyrra, búið að hreinsa utan af því og skipta um eitthvað af gluggum.
Hlynur Þór Magnússon, 17.5.2007 kl. 18:31
Frábær pistill, takk fyrir það
Svona gömul hús með alla sína sögu eru yndisleg. Sérstaklega þegar vel er farið með þau. Nú er til dæmis verið að gera húsið hans afa á Þingeyri upp, Sigmundarhús, sem gleður mig mikið. Það var í mikilli niðurníslu en á eftir að verða glæsilegt á ný.
Frásögnin af lækninum og aðförum hans í baðinu er snilld!
Lilja Haralds (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 21:23
Eiginlega get ég ekki stillt mig um að bæta hér við góðlátlegri gamansögu af lækni af hinu gagnmerka, skarpgreinda og orðhvata Guðlaugsstaðakyni fyrir norðan, sem miklu seinna starfaði í Bolungarvík. Líka kemur við sögu ein af dætrunum í Einarshúsi, sem urðu fyrir lekanum þegar læknirinn fékk að fara í bað á æskuárum þeirra. Ég veit mér fyrirgefst þetta.
Læknir þessi er Pétur Pétursson frá Höllustöðum, bróðir Páls fyrrum félagsmálaráðherra, föðurbróðir Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppnisstofnunar og náfrændi Hannesar Hólmsteins og Salvarar Gissurardóttur (bloggvinar okkar allra) og Guðrúnar Stellu húsfreyju á Hanhóli í Syðridal í Bolungarvík.
Pétur læknir lætur margt flakka og oft meitlað. Þannig eru í minnum höfð ummæli hans um steratröllin í vaxtarræktinni, sem hann var kærður fyrir: Eistun á þessum aumingjum eru eins og rúsínur.
Ein af dætrum Einars heitins Guðfinnssonar, sem þá var orðin roskin, kom til Péturs á heilsugæsluna í Bolungarvík, sem er á jarðhæð. Hann bað hana að fara úr vegna einhverrar skoðunar. Hún hikaði við og benti á að ekki væri neitt fyrir glugganum. Pétur læknir svaraði: Hver heldurðu eiginlega að hafi áhuga á að sjá þetta?Hlynur Þór Magnússon, 17.5.2007 kl. 22:08
HAHAHAHAHA!!!
Lilja Haralds (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 22:10
Önnur viðbót varðandi Pétur lækni þegar hann var í Bolungarvík. Finnbogi Bernódusson vélsmiður, sem núna er gamli skeggjaði sjómaðurinn í safninu í Ósvör, fékk járnflís í augað og kom á stofuna til Péturs. Þar var m.a. bekkur til kvennaskoðunar með statífum fyrir fæturna og Finnbogi sagði í gríni: Á ég að leggjast þarna? Pétur læknir svaraði: Já, það skaltu endilega gera ef þú ert með augað í rassgatinu.
Hlynur Þór Magnússon, 17.5.2007 kl. 22:23
Á árunum mínum við kennslu í Menntaskólanum á Ísafirði kenndi ég mörgum af afkomendum Einars Guðfinnssonar og Elísabetar konu hans - afkomendum þeirra í annan lið. Í minningu minni hefur þessi hópur alveg ákveðið svipmót: Jákvætt, félagslynt, góðviljað, vel gefið og svipfallegt fólk. Það gildir líka um aðra afkomendur þeirra hjóna sem ég hef kynnst, svo sem Einar K. Guðfinnsson, sonarson þeirra, en hann var of gamall til að lenda í kennslu hjá mér.
Hlynur Þór Magnússon, 17.5.2007 kl. 23:02
Afskaplega góður pistill. Í þessu heillandi húsi ómar saga sorgar og gleði í hverju skrefi. Vertu velkominn í kaffi ef þú átt leið.
Kveðja
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 18.5.2007 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.