Hlutafélag til undirbúnings þýska þjóðarbílsins var stofnað 28. maí 1937 og telst sá dagur stofndagur Volkswagen. Segja má að þjóðarbíllinn eða almenningsbíllinn (Volks-Wagen) sé eitt þeirra hugðarefna þjóðarleiðtogans Adolfs Hitlers, sem mesta framtíð átti fyrir sér. Rétt eftir að Hitler varð kanslari Þýskalands árið 1933 hvatti hann til bílvæðingar hjá þýskum almenningi. Hann sá fyrir sér bíl sem væri hentugur fyrir fjölskyldur, gæti haldið 100 km hraða á hraðbrautum en væri þó sparneytinn og umfram allt ódýr í innkaupi.
Reyndur bílasmiður, Ferdinand Porsche að nafni, sem var austurrískur að uppruna eins og Hitler og hafði áður unnið m.a. hjá Mercedes-Benz, fékk það hlutverk að hanna og smíða þjóðarbílinn, en Samtök atvinnulífsins í Þýskalandi (Deutsche Arbeitsfront - DAF) komu að stofnun félagsins. Árið 1938 lagði Hitler hornsteininn að fyrstu Volkswagen-verksmiðjunni í Wolfsburg og fjöldaframleiðsla á VW-bjöllunni hófst.
Stríðið var þá rétt handan við hornið. Á stríðsárunum var VW-verksmiðjan ekki notuð til framleiðslu á almennan markað heldur til smíða á hergögnum og farartækjum fyrir herinn. Á þeim tíma störfuðu þar tugþúsundir manna í nauðungarvinnu, einkum stríðsfangar og fangar úr svokölluðum útrýmingarbúðum, svo sem gyðingar, hommar, frímúrarar og vangefið fólk og aðrir óvinir ríkisins sem hægt var að nota.
Eftir stríðið komst framleiðslan á þjóðarbílnum á fullan skrið á ný. Bjallan lagði ekki aðeins undir sig heimalandið heldur allan heiminn. Enn í dag eru bílar með merkjum VW og Porsche meðal þeirra allra virtustu og minna á hugsjónir Adolfs Hitlers. Merkið stendur þótt maðurinn falli, eins og sagt hefur verið ...
Núna er Volkswagen-samsteypan stærsti bílaframleiðandi Evrópu. Meðal þekktustu merkja hennar eru Audi, Bentley, Bugatti, Lamborghini, Seat, Skoda og Volkswagen. Aftur á móti munu Porsche-verksmiðjurnar ekki vera í eignatengslum við Volkswagen um þessar mundir þótt sambandið þar á milli hafi löngum verið mjög náið. Ferdinand Piëch, stjórnarformaður Volkswagen-samsteypunnar, er dóttursonur Ferdinands Porsche og stór hluthafi í Porsche-verksmiðjunum.
Helstu heimildir: Spiegel.de, Wikipedia.de.
Athugasemdir
Hann hefði betur haldið sig við voffann og vatnslitamyndirnar.
Blekpenni (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 04:25
Svo er reykingabann á opinberum stöðum fyrst sett á laggirnar af Hitler.
Eyþór Laxdal Arnalds, 28.5.2007 kl. 14:06
Já, enginn er alvondur og stundum verða gæðablóð til þess að ekki er staðið í ístaðinu gagnvart hinu illa. Í nýrri, fróðlegri bók með heitinu "Nazism at war" er því líkt skilmerkilega hvernig nasistar lögðu undir forystu Hitlers inn á þá braut þegar árið 1935 sem gat ekki endað með öðru en stríði.
Það er hrollvekjandi lesning sem upplýsir um það að engin leið var fyrir Þjóðverja að snúa við á þessari braut eftir að komið var inn á hana á fullri ferð og enn meiri hroll vekur að sjá að hefðu gæðablóðin bresku og frönsku þá dregið réttar ályktanir af staðreyndum, sem blöstu æ skýrar við með hverju árinu, hefði öllum mátt ljós vera að friðþægingarstefna lýðræðisþjóðanna leiddi aðeins til stríðs þótt ætlunin væri þveröfug.
Eini málsmetandi Bretinn sem sá þetta og hamraði á því var Winston Churchill en málaði sig út í horn í breskum stjórnmálum fyrir vikið og var talinn öfgamaður.
Varðandi reykingabann: Mér var eitt sinn falið að vera spurningameistari í spurningakeppni á Grand rokk. Meirihluti gesta í salnum reykti og þar var þykkur reykjarmökkur.
Áður en keppnin hófst spurði ég gestina hvort þeir væru mér sammála í því að hver maður ætti að ráða því og bera á því ábyrgð sjálfur hvort hann reykti. Allir voru sammála því.
Því næst spurði ég hvort þetta frelsi mætti líka gilda um mig sjálfan, að ég réði því hvort ég reykti eða reykti ekki. Allir svöruðu játandi.
Þá sagðist ég óska eftir því að fá að taka þá ákvörðun fyrir mig sjálfan að reykja ekki og spurði hvort það væri samþykkt að ég hefði frelsi til þess. Enn svöruðu allir játandi.
Ég sagðist þá hafa tekið þá ákvörðun að reykja ekki en til þess að sú ákvörðun hefði einhverja þýðingu yrði ég að velja um tvennt: Annars vegar að fara út úr húsinu og hætta við að stjórna spurningakeppninni . Hinn kosturinn væri að gestirnir sæu til þess að ég þyrfti ekki að gleypa reyk þeirra og stunda óbeinar reykingar. Á móti skyldi ég beita mér fyrir drjúglöngu hléi í miðri keppni svo að þeir sem vildu gætu farið út og reykt þar.
Þetta var samþykkt einróma af því að gestirnir skildu að frelsi eins getur heft frelsi annars á óbærilegan hátt. Hitler hefði betur skilið þetta á fleiri sviðum en hvað snerti óbeinar reykingar.
Ómar Ragnarsson, 28.5.2007 kl. 14:45
Saga bílasmíði í Þýskalandi frá öndverðu er skemmtileg - og raunar margflókin þegar líður nokkuð fram á 20. öldina. Ferdinand Porsche kemur þar víða við sögu. Fyrirtæki klofnuðu og sameinuðust á ýmsa vegu. Þannig hrökklaðist bílasmiðurinn August Horch frá fyrirtækinu sem bar nafn hans og stofnaði annað undir nafninu Audi - en audi merkir það sama á latínu og horch á þýsku: Hlustaðu! Seinna sameinuðust DKW, Audi, Horch og Wanderer undir nafninu Auto Union og firmamerkið var fjórir hringir í röð, tákn fyrirtækjanna fjögurra, núna þekkt sem Audi-merkið. Löngu seinna komst Auto Union í eigu Daimler-Benz sem seldi það síðar til Wolkswagen AG. Á Wikipedíu á þýsku - wikipedia.de - er mikill fróðleikur um bílasöguna gömlu og gríðarmikið af skemmtilegum myndum sem gagnast alveg þeim sem eru ekki mjög sleipir í þýskunni.
Þennan sama dag - 28. maí 1937 - varð Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta. Þar má segja, að lagður hafi verið einn af hornsteinum seinni heimsstyrjaldarinnar. Eitt enn sem gerðist þennan dag: Franklín D. Roosewelt Bandaríkjaforseti opnaði brúna yfir Gullna hliðið við San Francisco til umferðar ...Hlynur Þór Magnússon, 28.5.2007 kl. 16:14
Takk fyrir þennan skemmtilega og athyglisverðan fróðleik Hlynur.
En Ómar verðum við ekki alltaf að leita friðsamlegra leiða fyrst þó svo vera kunni að seinna komi í ljós að stríð hafi ekki verið umflúið? - er ekki verri glæpur að ana í þarflaust stríð en að ana í haldlítinn frið?
Ég held þvert á viðtekna söguskrýringu að framlag Neville Chamberlain hafi verið mikilvægt til að skapa bandamönnum þá sjálfsmynd í stríðinu og alla tíð eftir stríðið að þeir leituðu allra lausna til friðar og voru því algerlega saklausir um að hafa stofnað til stríðsins, - það er líka mikilvægt.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.5.2007 kl. 21:34
Seinni heimstyrjöldin var óumflýjanleg að margra mati vegna Versalasamningsins, og stríðsskaðabótanna sem þjóðverjum var gert að standa skilá með honum, ekki vissi ég að Hitler karlinn væri faðir reykingabannsins, hann gerði þá eitthvað gagn þrátt fyrir allt. Reyndar gaman að velta því fyrir sér hvernig staðan væri hér á Íslandi ef engin seinni heimstyrjöld hefði orðið, hvernig væri umhorfs í henni veröld þá, hve langtá veg væri tæknin komin ef ekkert stríð hefði orðið, styrjaldir stórveldanna ýta undir tækniframfarir meira en nokkuð annað.
Magnús Jónsson, 28.5.2007 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.