Þar sem ég versla eru kartöflur venjulega merktar framleiðanda með einhverjum hætti, innlendar jafnt sem útlendar. Jafnan eru pokarnir glærir og vel hægt að sjá innihaldið og yfirleitt eru þetta prýðilegar kartöflur.
Í gær varð ég fyrir því óhappi að kaupa kartöflupoka sem einungis var merktur Íslenskar kartöflur. Ekki er frekari grein gerð fyrir framleiðanda, þannig að ætla má að þetta séu dæmigerðar íslenskar kartöflur. Pokinn er úr rauðu plasti sem villir svo um, að ástand innihaldsins kemur ekki almennilega í ljós fyrr en það er tekið úr umbúðunum.
Enda skiljanlegt að framleiðandinn skuli ekki vilja að innihaldið sjáist almennilega fyrr en um seinan. Líka skiljanlegt að hann skuli ekki vilja láta nafns síns getið. Þetta er óætt rusl, skorpið og skemmt, og þarf ekki fleiri orð.
Ég leyfi mér að vara við kaupum á íslenskum kartöflum. Reyndar finnst mér það ósvífni að merkja vöruna, ef vöru skyldi kalla, með þessum hætti. Ósvífni gagnvart öllum þeim sem rækta góðar kartöflur hérlendis.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Matur og drykkur | Facebook
Athugasemdir
Þetta með að versla, hver annar en kaupmaðurinn verslar? Við hin kaupum af kaupmanninum, við kaupum en kaupmaðurinn verslar... Eða eru allir íslendingar í verslunarmannafélagi?
Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.7.2007 kl. 11:55
Hvaða rugl er þetta? Ég veit ekki betur en ég versli við kaupmanninn. Ég fer í verslun til að versla við kaupmanninn. Væri það annars verslun? Hvað merkir sögnin að versla? Ég fæ vöru og geld hana verði. Annars er alltaf gaman að fá tilsögn í íslensku.
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 12:01
Ég keypti fínar danskar kartöflur um daginn. Nýjar!!
Vilborg Traustadóttir, 8.7.2007 kl. 13:20
Ekki kemur þessi óþverri úr Jónsbúð?
Halldór Egill Guðnason, 8.7.2007 kl. 13:21
Þú kaupir hjá kaupmanninum , kaupmaðurinn, hann verslar!.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.7.2007 kl. 14:10
Þegar ég kaupi eitthvað hjá kaupmanninum, þá er ég að verzla við hann.
Og ég verzla á sumum stöðum (en öðrum ekki) eða við suma, en ég verzla ekki hluti.
Td. verzla ég ekki brauð eða kaffi eða buxur.
Quackmore, 8.7.2007 kl. 14:21
Nei, þú kaupir hluti og nauðsynjavöru hjá kaupmanninum.. Kaupmaðurinn verslar með vöruna og hann hefur verslunarfólk í vinnu hjá sér.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.7.2007 kl. 14:37
Væri ekki rétt að fólk skrifaði um þessi áhugamál sín annars staðar en hér?
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 14:41
Og þú líka!
Sigurður G. Tómasson íslenskufræðingur bloggar hérna á netinu. Hvernig væri að leita álits hanns á hver kaupir og hver og verslar.. Ekki láta þetta fara svona í taugarnar á þér!
Guðrún Magnea Helgadóttir, 8.7.2007 kl. 14:49
Svo vill til, að ég er líka íslenskufræðingur.
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 14:51
Íslenskar kartöflur og íslenskar kartöflur er langt í frá sama fyrirbrigðið. Sjálfum finnst mér tegundin gullauga best, en enganveginn sama hvar eða hjá hverjum hún er ræktuð. Sjálfur hef ég stundað svona heimilis ræktun á gullauga ,en nú aflagt.
Ég held mikið uppá ræktunaraðila sem kenna sig við Lómatjörn norðan heiða og lífrænanræktunaraðila á Hornafirði... að mínu mati afburða vönduð framleiðsla. Þessir aðilar merkja sína vöru kyrfilega og til fyrirmyndar. Nú er komin júlí og ekki er lengur hægt að fá þessa afurð að sinni...annað hvort uppurin eða að þeir selja ekki lélega vöru (komin fram yfir tíma) til neytenda og raska þannig frábæru orðspori.
Nú um sinn verð ég að notast við innfluttar ,fljótsprottnar,kartöflur ,i neyð
Júlímánuður líður fljótt og nýjar íslenskar gæðakartöflur bitrast á ný... þannig er nú náttúrufarið hjá okkur. Engir jarðávextir né grænmeti slær því íslenska við ...en ekki er sama hver leggur hönd á plóg við ræktunina, gott að líta á vörumerkið.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 17:03
Sæll Hlynur
Mér finnst broslegt að lesa kommentin þar sem verið er að kenna þér íslensku. Þú ert nú ekki bara íslenskufræðingur heldur ertu líka ÍSLANDSMEISTARI í keppnisgrein í íslensku á landsmóti Ungmennafélags Íslands. Þau vilja kannski keppa við þig á þeim vettvangi?
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 8.7.2007 kl. 17:44
Kaup og sala kallast einu nafni verslun. Það kallast verslun þegar verðmæti eru látin af hendi fyrir önnur verðmæti. Fyrr á tímum var þar oft um vöruskipti að ræða. Núna er oftast notaður svokallaður gjaldmiðill. Á fyrri öldum var gjaldmiðillinn hérlendis iðulega vegið silfur. Lengi voru peningar algengir (slegin mynt og seðlar). Núna eru tilvísanir á verðmæti í bönkum eða sparisjóðum algengastar.
Meðan zeta tíðkaðist í íslenskri stafsetningu var ritað verzlun (verð+slun). Sú var tíðin að ég kenndi reglur um zetu, bæði í landsprófsdeild og gagnfræðadeild. Zetan í orðinu minnir á uppruna þess. Skilningur á upprunanum hjálpar til við að skilja inntak þess.
Auðvitað er kaupmaðurinn að selja vöru. Auðvitað er ég að kaupa af honum vöru. Þessi viðskipti okkar kallast einu nafni verslun. Fyrirtæki kaupmannsins, þar sem verslunin fer fram, nefnist líka verslun. Húsakynnin þar sem viðskipti þessi fara fram nefnast líka verslun. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess, að þar er stunduð verslun.
Ennþá dálítið flókið?
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 19:42
Næst ætla ég að kaupa mér rófur ...
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 20:00
Rófur í GLÆRUM plastpoka ......
Sigríður Hrönn Elíasdóttir, 8.7.2007 kl. 20:10
Rófur í lausu! Þær eru svo stórar í Jónsbúð að fæstir kaupa nema eina í einu og fjölskylda og vinir hjálpast að við að velta henni heim. Um daginn vorum við nokkrir að hjálpa Dalla frá Mýrartungu með rófu sem hann hafði keypt. Við misstum tökin á henni og hún hentist alla leið niður að Langavatni og reif niður girðingu á leiðinni og eyðilagði fuglaskoðunarskýlið. Núna er hún hólmi í vatninu þar sem fuglar una sér vel og heitir Skarfasker.
Hlynur Þór Magnússon, 8.7.2007 kl. 20:49
Það er gaman að lesa um skilningsmun milli manna á því að versla. Ég fór að versla í dag segir maður án þess að pæla í því. Nú mun ég hafa eitthvað að hugsa um næst þegar ég fer..... að versla.........Kartöflur og verslun eru greinilega málið í dag.....mikðað við kommentafjöldann!! Góð sagan um tilurð "Skarfaskers" og eflaust sönn....
Vilborg Traustadóttir, 8.7.2007 kl. 21:21
Skrýtið að bloggfærsla um kartöflur skyldi snúast uppí ritdeilu um íslenskt mál. Ég keypti arfavondar danskar kartöflur um daginn þannig að bæði innfluttar jafnt sem íslenskar kartöflur geta verið nánast óætar. En svo gæti nú alveg verið að þessar umræddu kartöflur hafi alls ekki verið íslenskar. Sum dreifingarfyrirtæki á grænmeti hafa orðið uppvís að því merkja innflutta vöru sem íslenska.
Þórir Kjartansson, 8.7.2007 kl. 22:35
Ja, en ég spurði nú bara hvort þær hefðu verið verzlaðar eða keyptar í Jónsbúð? Hún Dagbjört Kristjánsdóttir hefði nú bara átt að sjá hvað kartöflurnar í rauðu pokunum komu af stað! ( Hún kenndi mér og leiðrétti mig í Íslensku hér á árum áður)
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 00:55
"hverju" í stað hvað í annari línu.
Halldór Egill Guðnason, 9.7.2007 kl. 00:56
Já, ég fékk þær í Jónsbúð - en hlýt þá að taka fram um leið, að ég hef aldrei áður lent þar á slæmum kartöflum, eða neinu slæmu yfirleitt!
Hlynur Þór Magnússon, 9.7.2007 kl. 05:33
Langar bara að leggja mitt af mörkum til að koma þessum kommentum í a.m.k. 30!!!!
Vilborg Traustadóttir, 10.7.2007 kl. 00:17
Verslaði mér bara forsoðnar í dag...lagði ekki í annað...........get ekki grýtt þeim í viðkomandi af Ströndunum...............ef illa færi....Nú eru kommentin 30!!!!
Vilborg Traustadóttir, 10.7.2007 kl. 00:20
Þegar ég sé athugasemdafjölda sem hér hefur birst um annað en það sem upp var lagt með, þá man ég eftir kexinu sem var selt í mjólkurbúðinni á Hlíðarveginum í Kópavogi forðum, það var kallað rövl.
Yngvi Högnason, 10.7.2007 kl. 07:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.