Einkennileg finnst mér fréttin í Blaðinu af brunavörnum í sumarbúðum fyrir börn, sem reknar eru allvíða hérlendis. Þar kemur fram, að í úttekt sem Brunamálastofnun gerði í fyrrasumar hafi ástand brunavarna verið slæmt í nærri helmingi þeirra bygginga sem athugaðar voru en sæmilegt í hinum. Samt hafi ástandið hvergi verið óviðunandi. Auðvitað er þetta spurning um skilgreiningar og orðalag, en undarlegt má telja að slæmt ástand brunavarna þar sem fjöldi barna er saman kominn skuli teljast viðunandi.
Annað sem þarna kemur fram er þó kannski ennþá undarlegra. Haft er eftir starfsmanni Brunamálastofnunar, að staðan sé ekki klapp á öxl slökkviliðsstjóra í viðkomandi sveitarfélögum en þeir tengist stundum rekstraraðilunum. Jafnframt segist starfsmaðurinn efast um að hann myndi senda barn í sumarbúðir sem fengið hafi slíkar einkunnir.
Samt neitar hann að gefa upp hvaða sumarbúðir hér sé um að ræða en segir í staðinn að foreldrar geti hringt í viðkomandi slökkviliðsstjóra til að fá upplýsingar um ástand brunavarna í sumarbúðum. Sumsé, fyrst lætur hann að því liggja að í einhverjum tilvikum kunni slökkviliðsstjórar að vera sekir um vanrækslu á skyldum sínum vegna tengsla við þá sem reka búðirnar, en vísar svo á þá til að veita upplýsingar um ástandið.
Ef rétt er eftir haft, þá er hér um mjög alvarlegar aðdróttanir í garð slökkviliðsstjóranna að ræða. Ef þeir vanrækja skyldur sínar í þessum efnum með þeim hætti sem ýjað er að, þá má ætla að slík vanræksla teldist glæpsamleg ef illa færi.
Fram kemur, að umræddur starfsmaður Brunamálastofnunar segir að reikna megi með að ástandið sé betra nú en í fyrra. Hins vegar virðist hann ekki vita það. En þá er bara að hringja í slökkviliðsstjórana ...
Eldvörnum í sumarbúðum ábótavant | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:33 | Facebook
Athugasemdir
Þetta finnst mér einmitt mjög athyglisvert því að í Fréttablaðinu segir brunamálastjóri eftirfarandi:
Þetta eru ekki sömu skilaboðin og yfirverkfræðingur gefur Blaðinu...
Davíð Örn Sveinbjörnsson, 11.7.2007 kl. 12:30
Meira og minna sköllóttar fréttir eru sosum ekkert óalgengar, ef út í það færi.
Hlynur Þór Magnússon, 11.7.2007 kl. 12:41
Hef á tilfinningunni að Brunamálastofnun sé til tilvistarkreppu og sé að reyna að láta ljós sitt skína. Því eins og ég las fréttina þá er verið að tala um að húsin standist ekki kröfur eins og þær eru í dag en standast krofurnar eins og þær voru þegar það var byggt eða breytt seinast, það veldur því að húsnæðið stenst kröfur þangað til að því er breytt næst.
Einar Þór Strand, 11.7.2007 kl. 18:31
Því miður er víða pottur brotinn þar sem börn dvelja. Veit ég um skólabygginar sem sleppa í gegn en eru samt stórhættulegar og erfitt að komast út. Hálfsögð saga er verri en engin.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.7.2007 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.