Silfursmiðurinn Pétur Tryggvi Hjálmarsson var í dag sæmdur nafnbótinni bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar og ber hann titilinn næsta árið. Fráfarandi bæjarlistamaður er Elfar Logi Hannesson leikari og einleikjahöfundur. Fyrstur til að bera þetta sæmdarheiti fyrir nokkrum árum var Jónas Tómasson tónskáld.
Árið sem er að kveðja hefur verið listamanninum Pétri Tryggva hagstætt. Fyrir utan nýju nafnbótina ber þar hæst sýningu í Krónborgarhöll á Helsingjaeyri í Danmörku í haust ásamt bestu silfurlistamönnum Danmerkur, en þó einkum útkomu danskrar bókar um tuttugu bestu silfursmiði 20. aldarinnar, en í þeim hópi er Pétur Tryggvi.
Núna má segja að loksins sé Pétur Tryggvi vinur minn orðinn spámaður í sínu eigin föðurlandi, því að lengst af hefur upphefð hans að mestu verið utan Íslands. Það á sér vissar skýringar að hluta til, því að fyrir mörgum árum fluttist hann til Danmerkur og bjó þar og starfaði þangað til hann fluttist heim á æskustöðvarnar á Ísafirði nær aldahvörfunum. Reyndar skal þess getið, að í upphafi listferils síns árið 1979 tók hann þátt í verðlaunasamkeppni Félags íslenskra gullsmiða og hlaut þar fyrstu verðlaun. Sama ár hélt hann sína fyrstu sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Hér verða ekki taldar aðrar viðurkenningar og verðlaun sem Pétur Tryggvi hefur hlotið, né heldur sýningar, en þær eru orðnar margar víða um lönd síðasta aldarfjórðunginn. Samt má lauma því hér inn, að árið 2004 héldum við Pétur Tryggvi dálítið sérstæða samsýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, sem bar nafnið Silfurljóð. Efniviðurinn var silfur og gull hjá Pétri Tryggva en orð hjá mér. Kirkjusilfur eftir Pétur Tryggva er í ýmsum kirkjum hérlendis, þar á meðal í Þingvallakirkju og Vídalínskirkju í Garðabæ.
Í byrjun þessa árs varð Pétur Tryggvi fimmtugur og var af því tilefni fjallað um hann og list hans í helstu blöðum Danmerkur. Hér fyrir neðan fylgir til gamans úrklippa (pdf) úr Berlingske Tidende í tilefni fimmtugsafmælisins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.