Kjarvalsmálið, Ingimundur og jólakaka

Ingimundur Kjarval, sonarsonur meistarans, er helsti málsvari fjölskyldunnar í baráttunni um arfleifð gamla mannsins. Dómurinn um eignarréttinn á verkum Kjarvals, sem kveðinn var upp í undirrétti í gær, er ekki endanleg niðurstaða. Ef nokkrum manni er trúandi til þess að berjast fyrir einhverjum málstað fram í rauðan dauðann og kosta öllu til, þá er það Ingimundur Sveinsson Kjarval. Þjóðin fékk sýnishorn af honum í Kastljósinu í gærkvöldi og líka á Stöð2, skilst mér.

 

Um langan aldur hefur Ingimundur verið búsettur í Bandaríkjunum, þar sem hann stundar búskap. Eiginkona hans er listakonan Temma Bell, en foreldrar hennar voru hjónin Louisa Matthíasdóttir, einn af bestu og virtustu listmálurum sem íslenska þjóðin hefur alið, og bandaríski listmálarinn Leland Bell.

 

Ekki síst hefur Ingimundur Kjarval haldið tengslum við ættjörðina með skrifum sínum á Málefnunum, þar sem hann er meðal ötulustu blekbera. Líka bregður hann sér á Alvöruna, ef svo ber undir. Því fer þó fjarri, að á þessum spjallvefjum fjalli hann einkum um deiluna um verkin sem afi hans lét eftir sig. Ingimundur er þrasari af Guðs náð, leyfi ég mér að segja, og heldur í sumum efnum fram skoðunum sem fæstir eru sammála – þannig afneitar hann gróðurhúsakenningunni, sbr. óteljandi innlegg hans í endalausri deilu á Málefnunum. En flestum er hlýtt til Ingimundar, að ég hygg, meira að segja stöku blaðamönnum. Það eru nú meiri ósköpin hvað honum er uppsigað við blaðamenn in solidum!

 

Ingimundur heldur úti heimasíðu, þar sem hann hefur dregið saman margvísleg gögn og upplýsingar varðandi þau verk meistara Kjarvals og ýmsa persónulega muni, sem Reykjavíkurborg telur sig eiga. Þar á meðal eru (skv. skráningu) silungsnet, færi, tjaldhælar, kork, baðskrúbbur, kertapakki, jólakaka, sellófónþráður, skrúfjárn, sagarblað, skæri, hnífapör og múrskeið, og þannig mætti lengi telja. Skjalfest er að reyndar var ýmsu hent á sínum tíma, og má þar nefna mölétna trefla, nokkur hálsbindi, ullarnærföt (talin ónýt), tóma sígarettupakka, tóma eldspýtnastokka, laufabrauð, rúsínupoka, fjallagrasapoka og sitthvað fleira. Eitthvað virðist skráningin á teikningum Kjarvals hafa verið ónákvæmari, hvað sem því kann að hafa valdið.

    

Ekki felli ég dóm í deilumáli erfingja meistara Kjarvals við Reykjavíkurborg. Hitt er víst, að Ingimundur á samúð mína alla í þeim efnum.


mbl.is Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband