Dinner for two

Kisa virðist efnilegur veiðiköttur. Í útivistartímanum sínum í fyrradag kom hún með nýveiddan fugl upp að húsinu og át hann að mestu sjálf, eins og fiðrið út um allt bar vitni um. Færði mér reyndar annan vænginn - kom með hann inn og lagði við fætur mér. Kannski var þetta fyrsta bráðin hennar.

 

Kisan er líklega eitthvað um hálfs árs gömul, úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Hún er ljós yfirlitum og ákaflega andlitsfríð og heitir þess vegna Helga Guðrún. Helga Guðrún Geirdal. Fyrir jólin fékk hún kattafárssprautu og ormalyf. Pilluna fær hún vikulega. Nú vantar ekkert nema bjöllu á hana.

 

Ekki skortir að kisa fái nógu mikið og gott að éta. Úrvals kattamat frá útlöndum, ýmist þurrmat eða jukk úr dósum og pokum. Samt vill hún miklu frekar mannamat og étur þá allt. Bölvaður kötturinn étur allt, eins og þar stendur. Meira að segja kartöflur.

 

Þetta er alveg eins og var með köttinn okkar Anette minnar í gamla daga. Kisan sú hét Mulemulemuschmuschmusch, kölluð Mulemusch eða bara Muschi, og var frá Túni skammt frá Selfossi. Við fengum hana örsmáan kettling og höfðum hana í skúringafötu í bílnum á leiðinni til Reykjavíkur. Mulemusch vildi alltaf éta það sem við vorum að éta og þótti allt betra en kattamatur. Hún skildi ekki íslensku enda var eingöngu töluð þýska á heimilinu. Stundum fórum við í handbolta. Hún var í markinu og skutlaði sér til að verja.

 

Þau urðu endalok Mulemusch, að hún fékk sprautu hjá dýralækni til þess að verða ekki breima, en við það bólgnuðu júgrin á henni og dýralæknirinn sagði að það yrði að svæfa hana. Þann dag allan lá ég í rúminu grátandi, maður kominn hátt á þrítugsaldur. Enda náskyldur séra Matthíasi.

 

Gaman verður að éta kæstan hákarl með Helgu Guðrúnu á þorranum. Þá held ég sú murri, þangað til værðin að máltíð lokinni slekkur á mulningsvélinni. Í svefninum fara kippir um kampana. Þá er hana líklega að dreyma spennandi fuglaveiðar. Eða kartöflur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Já, virkilega falleg færsla. Ég hlakka nú enn meir til að hitta Helgu Guðrúnu.

erlahlyns.blogspot.com, 7.1.2007 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband