Lítil fluga í mánudagsmorgunsárið

Hvernig er eiginlega þarna á Reykhólum? er ég stundum spurður. Norðaustanátt, svara ég. Þetta er að vísu einföldun, og líka útúrsnúningur. En hann er ansi oft á norðaustan. Ekki svo að skilja að ég mæli neitt frekar með sífelldum útnyrðingi. Þetta er bara svona. Og ekki bara akkúrat hérna.

 

Stíf norðaustanáttin er meðal þess sem ég minnist einna best þegar ég hugsa til vetranna minna í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í gamla daga. Sífelldur bölvaður norðaustanleiðindastrekkingur, að manni fannst. En það var bara úti. Ég hugsa með hlýju til skólans í Reykjanesi og allra sem þar voru.

 

Þegar ég var barn, þá leiddust mér veðurfréttirnar í útvarpinu. Almennu fréttirnar voru litlu skárri, stöðugt verið að tala eitthvað um Formósu. Ég vildi frekar heyra Litlu fluguna og lét mömmu kalla á mig þegar lagið kom í útvarpinu. Núna veit ég að Sigfús Halldórsson samdi þetta lag hérna á Reykhólum og höfundur textans var Sigurður Elíasson, sem hér var tilraunastjóri á þeim tíma. Litla flugan lifir enn; engin dægurfluga.

 

En þegar ég var orðinn fulltíða maður (sbr. 1. Korintubréf 13:11), þá fór ég að hafa mætur á veðurfréttum. Meðal þess sem ég les alltaf hér á Moggabloggi eru veður- og veðurfarspistlar Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, jafnvel þó að hann sé framsóknarmaður.

 

Núna í mánudagsmorgunsárið er norðaustanstrekkingur hér á Reykhólum við Breiðafjörð, ískaldur næðingur. En það er bara úti.

 

Lífið er norðaustanátt, hefði bróðir minn í andanum Forrest Gump getað sagt. Bara misjafnlega hvöss.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband