Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Gamlárssund í vorblíðu á Reykhólum

c_documents_and_settings_hlynur_my_documents_my_pictures_sundlaugin.jpg

Það var ljúft í lauginni og heitu pottunum hérna á Reykhólum núna áðan. Vorblíða, hægur andvari, nánast logn; alger kyrrð. Auk heimafólks fimmtán manna hópur útlendinga sem dveljast hérna í þorpinu yfir áramótin – gestir prestsins okkar, séra Sjafnar Þór. Séra Þórarinn afi hennar var prestur hér í gamla daga og gott ef ekki prófastur.

 

Sundlaugin okkar heitir Grettislaug. Reyndar er gamla laugin með því nafni í brekkunni rétt fyrir ofan þá nýju; þar sér enn fyrir fornri grjóthleðslu. Hér eru hverir og volgrur um allt og gufan hangir í loftinu í kyrru veðri.

 

Svona hefur þetta líka verið þegar Grettir Ásmundarson og þeir fóstbræður Þorgeir og Þormóður áttu samtímis veturvist hér á Reykjahólum ekki alls fyrir löngu.

 

Þó er ekki víst að þeir hafi spáð mikið í náttúrufegurðina, víðernið, mólent og mýrlent flatlendið út til sjávarins með vötnum og lónum og tjörnum og klapparholtum á milli; hvergi á landinu er fjölbreyttara fuglalíf en hér. Skarðsströndin teygir sig í suðaustri, Barðaströnd langt í vestri. Breiðafjörðurinn opnast til hafs milli Snæfellsjökuls og Stálfjalls; eyjar og hólmar og sker eru legíó.

 

Mér skilst að náttúrufegurðin hafi ekki verið fundin upp fyrr en á nítjándu öld.

 

Grettislaug hin nýja er einhver besta útisundlaug hérlendis. Hún væri ekki kölluð nýja laugin nema vegna þeirrar gömlu. Við erum jafnaldrar. Hún fagnar sextugsafmæli sínu á nýja árinu; ekki rétt að fullyrða með mig ennþá. Hún er líka næstum eins og ný eftir að allt sem henni viðkemur var gert upp fyrir nokkrum árum. Ég er ekki alveg eins og nýr enda hef ég ekki verið gerður upp. Líka skortir eitthvað á viðhaldið. Ég þarf að bæta úr því og fá mér viðhald.

 

Ég óska vinum og velunnurum til sjávar og sveita nær og fjær (er formúlan ekki svona?) farsældar á komandi ári. Og ég þakka fyrir allt. Ég meina það af hjartans einlægni.

 

Pétur Tryggvi útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar

Silfursmiðurinn Pétur Tryggvi Hjálmarsson var í dag sæmdur nafnbótinni bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar og ber hann titilinn næsta árið. Fráfarandi bæjarlistamaður er Elfar Logi Hannesson leikari og einleikjahöfundur. Fyrstur til að bera þetta sæmdarheiti fyrir nokkrum árum var Jónas Tómasson tónskáld.

 

Árið sem er að kveðja hefur verið listamanninum Pétri Tryggva hagstætt. Fyrir utan nýju nafnbótina ber þar hæst sýningu í Krónborgarhöll á Helsingjaeyri í Danmörku í haust ásamt bestu silfurlistamönnum Danmerkur, en þó einkum útkomu danskrar bókar um tuttugu bestu silfursmiði 20. aldarinnar, en í þeim hópi er Pétur Tryggvi.

 

Núna má segja að loksins sé Pétur Tryggvi vinur minn orðinn spámaður í sínu eigin föðurlandi, því að lengst af hefur upphefð hans að mestu verið utan Íslands. Það á sér vissar skýringar að hluta til, því að fyrir mörgum árum fluttist hann til Danmerkur og bjó þar og starfaði þangað til hann fluttist heim á æskustöðvarnar á Ísafirði nær aldahvörfunum. Reyndar skal þess getið, að í upphafi listferils síns árið 1979 tók hann þátt í verðlaunasamkeppni Félags íslenskra gullsmiða og hlaut þar fyrstu verðlaun. Sama ár hélt hann sína fyrstu sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Hér verða ekki taldar aðrar viðurkenningar og verðlaun sem Pétur Tryggvi hefur hlotið, né heldur sýningar, en þær eru orðnar margar víða um lönd síðasta aldarfjórðunginn. Samt má lauma því hér inn, að árið 2004 héldum við Pétur Tryggvi dálítið sérstæða samsýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, sem bar nafnið Silfurljóð. Efniviðurinn var silfur og gull hjá Pétri Tryggva en orð hjá mér. Kirkjusilfur eftir Pétur Tryggva er í ýmsum kirkjum hérlendis, þar á meðal í Þingvallakirkju og Vídalínskirkju í Garðabæ.

 

Í byrjun þessa árs varð Pétur Tryggvi fimmtugur og var af því tilefni fjallað um hann og list hans í helstu blöðum Danmerkur. Hér fyrir neðan fylgir til gamans úrklippa (pdf) úr Berlingske Tidende í tilefni fimmtugsafmælisins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Græn áramót

Hvít jól eða rauð? Hér stefnir í græn áramót. Þetta er nú meira tíðarfarið! Hægviðri og rigning og rjúpurnar eru enn á ný á vappi í garðinum. Ég minnist þess ekki að hafa áður séð fannhvítar rjúpur á grænu grasi. Kötturinn sefur inni og veit hvorki af Saddam né rjúpunum. Og sem betur fer veit hann ekkert um áramótadjöfulganginn sem hræðir líftóruna úr honum á morgun.

 

Það verða þá átta líftórur eftir.


Drjúg urðu okkur Bush morgunverkin

Saddam er dauður. En er heimurinn betri? Verður heimurinn betri við aftöku þessa manns? Nei, hann verður ekki betri. Ég veit að hann verður verri, ef eitthvað er.

         

Og ég á þátt í því.

         

Að vísu var ég ekki spurður. Tveir menn ákváðu upp á sitt eindæmi, fyrir mína hönd og allrar íslensku þjóðarinnar, að taka þátt í þeirri tröllheimsku sem innrásin í Írak var.

 

Ógnaröldina sem á eftir fylgdi mátti sjá fyrir. Afleiðingarnar blöstu við flestu heilvita fólki. Ekki skorti viðvaranirnar. En það var ekkert mark tekið á slíku fremur en fyrri daginn.

 

Af hverju má ekki læra af reynslunni? Af hverju má ekki skoða söguna? Hvernig fór til dæmis í Víetnam? Af hverju má ekki taka heiminn eins og hann er í staðinn fyrir að vígbúast í eigin hugarheimi? Hvernig stendur á því, að íslenskir menn, sem eru bæði læsir og skrifandi, skuli fylgja í blindni karakter á borð við George W. Bush?

 

Ég veit það ekki. Kannski vegna þess að hann er svo trúrækinn. Svo rosalega kristinn. Einhver kristnasti þjóðarleiðtogi heims, ef svo má komast að orði.

 

Á ekki núna, samkvæmt bókinni, að ríkja lýðræði, friður og frelsi í Írak? En er það svo?

 

Það þarf ekki að spyrja og ekki heldur að svara. Þetta vita allir. Nema líklega George W. Bush, valdamesti maður heims. Og kannski sá kristnasti líka, ef frá eru taldir páfinn og Guðmundur í Byrginu.

 

Mikið skelfing geta menn verið heimskir, ég segi það enn og aftur. Auðvitað geta þeir lítið gert við því sjálfir. Þarna er ég reyndar að hugsa um tvo íslenska menn fremur en um Bush, það er svo augljóst með hann. Já, auðvitað geta þeir lítið gert við því sjálfir. En það er ábyrgðarhluti að láta slíka menn taka ákvarðanir í nafni heilla þjóða.

 

Svo sendu téðir forsjármenn mínir íslenskar hetjur til Íraks svo að ennþá fljótar gengi að koma þar á friði og frelsi og lýðræði og öryggi og réttlæti og umbótum og hvað það nú allt heitir – og mannréttindum. Ógleymanlegt er stoltið í fasi utanríkisráðherra þegar hann tilkynnti að Íslendingarnir knáu hefðu fundið gereyðingarvopn. Sinnepsgas! Hann var barnslega glaður að geta tilkynnt þjóð sinni og allri heimsbyggðinni að Íslendingar hefðu fundið gereyðingarvopn í Írak, fyrstir manna.

 

Margir trúðu þessu í fyrstu og sumir voru hreint ekki glaðir, öfugt við utanríkisráðherrann. Sumir hefðu talið það betri frétt að alls engin gereyðingarvopn hefðu fundist. Þetta er eins og læknir væri að skoða mann sem vitjaði hans og gleddist yfir því að finna í honum krabbamein.

 

En svo kom hið sanna í ljós og brosið á utanríkisráðherranum gufaði upp og hefur ekki sést síðan. Íslendingarnir höfðu fundið sinnepstunnu í rústunum af pylsuvagni sem frelsararnir höfðu sprengt af því að þeir héldu að hann væri efnavopnaverksmiðja.

 

Það fundust aldrei nein efnavopn.

 

Mér er nær að halda að einhver kristnasti þjóðarleiðtogi heims hafi aldrei lesið boðskap Krists. Kannski varla von að hann hafi gert það. En hann hefði þó getað hlustað á prestinn í einhverjum af messuferðunum sínum fimmtíu á ári hverju. Og hefði valdamesti maður heims hlustað á boðskapinn og tileinkað sér hann, þá væri heimurinn öðruvísi en hann er núna.

 

Saddam er dauður. Hann var hengdur að loknum sýndarréttarhöldum á vegum Bandaríkjastjórnar – og jafnframt á mínum vegum, þó svo að ég hafi ekki verið spurður. Réttarhöldin og dauðadómurinn voru lögleysa. Saddam var hengdur án dóms og laga, eins og það er kallað.

 

Bush fer eflaust glaður í kirkju á morgun eins og alltaf á sunnudögum. Einstaklega kristinn og kirkjurækinn maður, Bush forseti. Að vísu með langtum fleiri mannslíf á samviskunni en Saddam, en það er önnur saga.

 

Það er að segja, ef hann hefði samvisku.

  

Góðvinum Mogga og íhalds hampað?

Rakst á skemmtilega „samsæriskenningu“ hér á Moggabloggi. Þar segir m.a.: „Ég fór að skoða þessar bloggfærslur af Moggabloggi sem birtust á vefMogga og varð fljótt ljóst að þar komu saman sérstakir góðvinir Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Að vísu brá fyrir stöku aðila sem ekki var í flokknum eins og Birni Inga og Guðmundi Steingrímssyni en munurinn á þeim og íhaldinu er næfurþunnur ... Ég fæ á tilfinninguna að Morgunblaðið sé með birtingu Moggabloggs að byggja upp hægrisinnað kerfisblogg sem andstöðu við grasrótina sem einkennt hefur bloggheiminn öðru fremur. Allavega fæ ég lítið út úr Moggabloggi þar sem sem Heimdellingarnir og aðrir íhaldsmenn eru að skrifa sama pistilinn með lítt breyttu orðalagi. Það er ljóst að Mogginn hefur ákveðið að vinna með sínum bloggurum og reyna þannig að vinna blogglesendur á sitt band út frá gömlu reglunni: „If you can´t beat them, join them.“

 

Svo mörg voru þau orð. Ég skrifaði dálitlar athugasemdir við þessa færslu og leyfi mér að birta þær hér líka:

 

Ekki er ég nú sannfærður um að kenningin sem hér kemur fram sé rétt! Ég hef þá trú, að hér sé Mogginn einfaldlega með viðskipti en ekki pólitík að leiðarljósi - að þetta sé einn liðurinn í baráttunni um vinsældir og heimsóknir og þá fyrst og fremst við vefinn visir.is.

 

Átta „valin blogg“ birtast með áberandi hætti á bloggsíðu Moggans hverju sinni, þar af tvö á aðalforsíðu mbl.is. Þarna er ljóslega um að ræða nokkru stærri hóp bloggara sem róterast jafnt og þétt. Ekki get ég séð að þarna séu fyrst og fremst „sérstakir góðvinir Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins“, þó að þeir séu þarna líka. Mér virðist þetta vera talsvert þverpólitísk blanda af bloggurum, fyrst og fremst mjög vel ritfæru fólki.

 

Þegar ég leit inn á bloggvefinn skömmu eftir að þú skrifaðir þessa færslu, þá voru þrír af átta „völdum“ bloggurum þessir: Árni Þór Sigurðsson, Hrafn Jökulsson og Sigurjón M. Egilsson. Varla eru þetta miklir vinir Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins! Af hinum fimm vissi ég einungis um pólitískan lit á einum: Það var Björn Bjarnason, sá maður sem líklega hefur bloggað einna lengst allra manna hérlendis. Næst þegar ég leit þarna inn blasti Salvör Gissurardóttir við mér!

    

„Samsæriskenningin“ í heild:

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/94565/


Kötturinn og rjúpurnar

Heimiliskötturinn fór út að fá sér frískt loft í gærmorgun eins og venjulega. Svo leið og beið og ekkert bólaði á honum. Þegar að var gætt voru sex rjúpur á beit í garðinum (ef sagt er að rjúpur séu á beit), aðeins fáeina metra frá húsinu. Kötturinn er bráðungur og virðist ekki mjög hugumstór. Að minnsta kosti lét hann ekki sjá sig fyrr en rjúpurnar voru farnar.

  

Heimsókn rjúpnanna bar upp á annan jóladag. Þær hafa líklega talið sér óhætt þar sem heilt ár er þangað til jólarjúpur verða næst á borðum.

  

Í dag hefur kötturinn ekki viljað fara út.

  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband