Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
3.1.2007
Hörður flugmaður snýr aftur
Gaman að minn afgamli vinur og nánast jafnaldri Hörður Guðmundsson flugmaður skuli aftur vera farinn að fljúga um Vestfirði. Margar ferðirnar fór ég með honum í ýmsum veðrum til ýmissa staða í fjórðungnum hér fyrr á árum. Flugfélagið Ernir er gamalt fyrirtæki og annaðist í fjölda ára bæði póstflug (áætlunarflug) og sjúkraflug innan Vestfjarða. Síðan tóku við verkefni erlendis, einkum í Afríku, en núna er Hörður flugmaður sumsé kominn aftur heim. Return of Tarzan. Það er gott að muna afmælisdaginn hans á sjálfri Jónsmessunni.
Post scriptum: Flugfélagið Ernir ber nafn fjallsins Ernis milli Skutulsfjarðar og Arnardals við Ísafjarðardjúp (Ernir: hvassbrýnt fjall; líka til m.a. í Bolungarvík). Beygist því ekki eins og örn heldur er eignarfallið Ernis. Þversögnin er sú, að á ensku nefnist félagið Eagle Air, sem minnir óneitanlega á Arnarflug sáluga.
bb.is 03.01.07 Fyrsta flug Ernis á Gjögur
bb.is 28.12.06 Ernir fær nýja vél í dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007
Elliheimilið Vestfirðir
Bloggar | Breytt 3.1.2007 kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.1.2007
Það sem er allra best ...
Mér leiðast heldur sprengingarnar og lætin á gamlárskvöld. Þetta er eitthvað svo yfirdrifið. En látum vera þó að þetta stæði bara í hálftíma eða svo kringum miðnættið, sjálf áramótin. Ekki þarf ég samt að kvarta yfir gamlárskvöldinu hér vel frambærilegur djöfulgangur í stuttan tíma á réttum tíma og síðan ekki söguna meir. Auk þess er ég verulega farinn að missa heyrn, sem betur fer. Drottinn leggur líkn með þraut, eins og þar stendur.
Ég var að hugsa það í gærkvöldi ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann á lífsleiðinni keypt flugelda. Hef aldrei haft áhuga. Komst líklega næst því þegar ég keypti hurðasprengjur í utanlandsferð fyrir kannski þrjátíu árum og notaði þær með útsmognum og kvikindislegum hætti á vinnustað.
Frá æsku minni á ég samt góðar minningar um gamlárskvöldin gríðarlega ljósadýrð í hæfilegri fjarlægð, þannig að hljóðið var klippt frá, ef svo má segja. Þá átti ég heima uppi í Mosfellssveit, sem núna er ekki lengur sveit, og höfuðborgin passlega langt í burtu.
Líka er mér minnisstæð prýðileg flugeldasýning á Ísafirði fyrir kannski tíu árum, man það ekki nákvæmlega. Hún hafði ekki einungis þann kost að ekkert heyrðist það sást nánast ekkert heldur. Stórfjölskylda frá Suður-Ameríku hafði komið í heimsókn til að skoða tengdasoninn (Össur Valdimarsson) og þegar þau voru á förum ákvað hann að efna til flugeldasýningar. Ekki veit ég hvort þetta var tengdafólkinu til heiðurs eða hvort hann var svona feginn að þau voru að fara.
Nema hvað eins og alltaf er sagt á þessum stað í frásögnum Össur fór með flugeldana upp á Gleiðarhjalla í fjallinu ofan við bæinn og skaut þeim upp hverjum af öðrum, að manni skildist. Að manni skildist, segi ég, því að við áhorfendur (hann var búinn að láta fjölmiðla vita) sáum nánast ekkert utan hvað greina mátti örsmáa mannveruna þarna í fimm hundruð metra hæð í fjallinu eða svo. Þetta var um hásumar í glaðasólskini um miðjan dag.
Það er eins og ég segi þegar flugeldar eru annars vegar, þá er næstbest að heyra ekki neitt. Allra best er að sjá ekkert heldur.
Gildir ekki bara um flugeldasýningar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007
Nú verða sagðar veðurfregnir
Hér frusu árin ekki saman, þó að litlu munaði. Vindur var mjög hægur af austnorðaustri. Úr þessu má lesa sitthvað um árið sem er að byrja. Þannig verður sumarið fremur þurrviðrasamt hér um slóðir og fremur sólríkt og hlýtt. Veturinn verður hægviðrasamur og fremur kaldur og snjóalög nokkur. Jólin verða hvít.
Í Jónsbúð á Reykhólum selst meira af skyri en verið hefur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)