Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
27.2.2007
Stromboli og Snæfellsjökull
Enn gýs Stromboli en Snæfellsjökull ekki. Eyjan Stromboli er eldkeila sem teygir blátoppinn upp úr sjónum norðan við Sikiley, rétt við tána á Ítalíuskaga. Hún er eitt af virkustu eldfjöllum jarðar um aldir og árþúsund og sosum nógu fræg sem slík. En hún er líka þekkt úr vísindaskáldsögunni Ferðinni í iður jarðar (Voyage au centre de la Terre) eftir Jules Verne. Þar greinir frá þýskum prófessor, Lidenbrock að nafni, sem kemur til Íslands og bregður sér ásamt frænda sínum og innfæddum leiðsögumanni (æðarbónda og þar með fyrirrennara Jónasar í Æðey, Jóns Sveinssonar sjóliðsforingja á Miðhúsum í Reykhólasveit og margra fleiri góðra manna) í könnunarleiðangur niður um eldfjallið gamla Snæfell á Snæfellsnesi (Snæfellsjökull). Eftir gríðarleg ævintýri, eins og jafnan í sögunum eftir Jules Verne, spýtast þeir að lokum upp um gíginn á Stromboli og allt fer vel, eins og vera ber.
Neyðarástand á Stromboli; hraun flæðir úr tveim sprungum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2007
Ísafjörður: Við skál síðan fyrir jól
30.12.2006 Pétur Tryggvi - bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það var eins og leikmenn West Ham fengju einhvern vonarneista þegar skipt var um þjálfara um miðjan desember. Í fyrsta leiknum eftir að Alan Curbishley var fenginn í staðinn fyrir Alan Pardew unnu þeir Manchester United 1-0. En svo dó neistinn og frammistaðan versnar stöðugt.
Í síðustu tíu leikjunum er uppskeran þrjú jafntefli og sjö töp - þrjú stig af þrjátíu mögulegum og markatalan 7-22. Í síðustu þremur leikjunum hefur liðinu ekki auðnast að skora mark en hefur fengið á sig sex - og þó var í síðustu tveimur leikjunum spilað gegn tveimur neðstu liðunum í deildinni.
Tölfræðin blasir við: Gengi West Ham er mun slakara með nýjum (og bráðum fyrrverandi) stjóra og nýkeyptum leikmönnum. Og þótti nógu slakt fyrir.
Curbishley óttast að vera rekinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þau gleðitíðindi voru að berast velunnurum Samfylkingarinnar, að Jakob Frímann Magnússon er genginn úr flokknum. Ekki er langt síðan Valdimar Leó Friðriksson gekk líka úr Samfylkingunni. Að vísu fylgdu því þau leiðindi fyrir Frjálslynda flokkinn, að Valdimar gekk í hann. Það vegur upp á móti úrsögn Gunnars Örlygssonar úr Frjálslynda flokknum á sínum tíma. En - þá gekk Gunnar í Sjálfstæðisflokkinn ...
Væntanlega kemst Sjálfstæðisflokkurinn áður en langt um líður á par með úrsögn Árna Johnsens.
Hvaða flokkur verður þá sá óheppni?
Jakob Frímann genginn úr Samfylkingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.2.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Undarleg er talningin á deildunum í enska boltanum; þvælist fyrir meiri bógum en mér. Í frétt á mbl.is í gær sagði: John Ward, knattspyrnustjóri enska 2. deildarliðsins Cheltenham Town, reyndi að fá íslenska landsliðsmanninn Brynjar Björn Gunnarsson lánaðan frá Reading í síðustu viku.
Ég fór inn á vefinn soccernet til að fræðast nánar um Cheltenham-liðið. Þar kemur fram, að Cheltenham, sem mbl.is segir (eflaust réttilega) að leiki í annarri deild, leikur í þriðju deild, sem heitir fyrsta deild ...
Bloggarinn Jóhanna Fríða Dalkvist spurði um Cheltenham og þar setti ég í athugasemdadálkinn eftirfarandi klausu til fróðleiks (hérna með smávægilegum viðbótum til enn frekari skilningsauka):
Cheltenham er lítið og lítt þekkt sveitaþorp (íbúar aðeins um 110 þúsund) í suðurhluta Englands. Knattspyrnuliðið Cheltenham er í fallsæti (22. sæti af 24) í fyrstu deildinni ensku, eða á svipuðum slóðum og West Ham verður að líkindum eftir tvö ár. Að vísu er fyrsta deildin í Englandi ekki sú fyrsta heldur sú þriðja. Fyrsta deildin í Englandi nefnist Úrvalsdeild (Premiership), önnur deildin heitir Meistaradeild (League Championship), og síðan kemur loksins röðin að fyrstu deild (League One). Næst á eftir fyrstu deild kemur önnur deild, merkilegt nokk (League Two), en fimmta deildin kallast Nationwide Conference, sem líklega yrði helst þýtt sem Alþingi. Neðsta liðið í neðstu (fimmtu) deild er Tamworth. Það er með sjö markverði en þyrfti að hafa fleiri. 20 lið eru í Úrvalsdeildinni en 24 í hverri hinna. Þannig er Cheltenham í 66. sæti í heildina en Tamworth í 116. sæti. Eða á svipuðum slóðum og Ísland er á heimsvísu eftir átján ára forystu Eggerts Magnússonar.
Eftir stærðfræðiraunir af þessu tagi er líklega rétt að fá sér te.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007
West Ham svo gott sem fallið
Óttalega eru Íslendingar seinheppnir í útrásartilraunum sínum í ensku knattspyrnunni. Hörmungarsagan varðandi Stoke er í fersku minni. Núna er það West Ham. Ljóst má vera að sá skellur verður ennþá verri. Þórðargleði í uppsiglingu hérlendis, ef að líkum lætur.
Leikurinn gegn Charlton var svokallaður sex stiga leikur gegn næstneðsta liðinu í deildinni. Annar sex stiga leikurinn í röð - í síðustu umferð tapaði West Ham á heimavelli fyrir Watford, neðsta liðinu í deildinni.
Tölfræðin úr leiknum í dag segir talsvert. Í fyrri hálfleik átti West Ham samtals eitt skot sem rataði á rammann. Charlton átti fjögur og þar af voru þrjú mörk! Í seinni hálfleik átti Charlton eitt skot á rammann og það var mark! Samtals fjögur mörk úr fimm skotum sem hittu á markið. Slík skotanýting þætti góð í handbolta.
Charlton-liðið hefur stórbatnað eftir að Alan Pardew tók við því ekki alls fyrir löngu. Mikill skaði fyrir West Ham að missa hann.
Eru mennirnir alveg kexruglaðir?
Já, Þórðargleðin ...
Viðbót:
Eftirfarandi frétt er á soccernet - sumir vilja lesa það út úr yfirlýsingunni (og segjast byggja á það á fyrri reynslu af yfirlýsingum Eggerts Magnússonar) að Curbishley verði rekinn strax eftir næsta leik ...
West Ham have stressed that Alan Curbishley's job is not under threat despite Saturday's 4-0 defeat at Charlton.
There has been claims that chairman Eggert Magnusson has given Curbishley a deadline to turn things around but the Icelandic businessman has strenuously denied this.
The Hammers released a statement tonight insisting Curbishley's position is not in jeopardy.
A club spokesman said: 'Alan's future is not in doubt. Obviously everyone is disappointed with today's result but the chairman remains fully committed to Alan.'
Stórsigur Charlton gegn West Ham í fallslagnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.2.2007 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2007
Nagli í líkkistuna - nú frá Marel
Fræg er yfirlýsing Þorsteins Más Baldvinssonar þegar Samherji yfirtók flaggskip ísfirskrar útgerðar: Guggan verður áfram gul og verður gerð út frá Ísafirði. Þau koma í hugann enn á ný nú þegar Marel fer með allt sitt frá Ísafirði. Sá er þó munurinn, að Marel býður starfsfólkinu á Ísafirði að flytja bara suður og halda áfram að vinna hjá fyrirtækinu þar.
Fyrirtækið Póls á Ísafirði var eitt af þeim sem Ísfirðingar höfðu mestar mætur á. Hreinlega stoltir af. Marel, helsti samkeppnisaðilinn, fyrirtæki með rætur í Sambandsveldinu gamla (og nýja), yfirtók Póls fyrir fáum árum. Þá voru uppi yfirlýsingar af sama tagi og varðandi Gugguna - yfirlýsingar gegn betri vitund, gefnar til að sefa í bili þá sem höfðu af þessu áhyggjur.
Líkkista atvinnulífs á Vestfjörðum er að verða fullsmíðuð.
Grétar Pétursson segir tíðindin af lokun Marels hafa áhrif á fleiri en starfsmenn fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra; þau slái líka á móralinn í bænum almennt. Hann segist ekki sjá það í fljótu bragði hvað starfsmenn taki sér fyrir hendur þegar yfir lýkur hjá fyrirtækinu. Hjá fyrirtækinu starfa margir ungir menn sem eru að byggja sér heimili á Ísafirði. Það er ekki gott að segja hvað menn munu gera. Grétar segist ekki spenntur fyrir þeirri tilhugsun að flytjast búferlum á höfuðborgarsvæðið og vinna hjá starfsstöð fyrirtækisins í Garðabæ. Ég bý í ljómandi góðu einbýlishúsi hér á Ísafirði, að selja það og eiga varla fyrir kjallaraholu í höfuðborginni í staðinn finnst mér ekki spennandi.
P.s.: Einmitt á þessari stundu er Kristján Þór Júlíusson að tjá sig í fréttum Ríkisútvarpsins - fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarmaður í Samherja, núverandi bæjarstjóri á Akureyri, eða hvort hann er nýhættur af vissum ástæðum þvert ofan í fyrri yfirlýsingar - um nauðsyn þess að hafa tiltekna þjónustu úti á landi ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.2.2007
Hvað á vegurinn að heita?
Lagning vegar milli Stranda og Breiðafjarðar um Arnkötludal og Gautsdal hefur verið boðin út (sjá kort). Það er hið besta mál. En þá kemur að nöldri yfir smámunum, sem sumir kalla: Nöfnum og númerum vega. Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík, sem hefur í mörg ár beitt sér fyrir þessum vegi, hefur ævinlega kennt hann við Arnkötludal. Það hafa líka aðrir gert sem um hann hafa fjallað. Fram að þessu.
Í útboði Vegagerðarinnar er vegur þessi nefndur Tröllatunguvegur. Við það hafa ýmsir athugasemdir fram að færa. Jón Jónsson ferðafrömuður á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð, Strandamaður í húð og hár, skrifar athyglisverða færslu um þetta á bloggi sínu og rökstyður mál sitt vel. Ég leyfi mér hér að vísa í hana og geri orð hans að mínum. Jafnframt vísa ég í færslukorn mitt um veg þennan fyrir nokkrum vikum.
P.s.: Ég veit að umræðuefni af þessu tagi er ekki til þess fallið að auka aðsókn að blogginu mínu. Lofa að tengja næst í einhverja heimsfrétt, svo sem af yfirvofandi jarðarför Önnu Nicole Smith eða hársprettunni hjá Britney Spears og lýsa skoðunum mínum í þeim efnum (þarf að koma mér upp skoðunum).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007
Titringur á heimasíðu SnowGathering ...
[Uppfært] Breytingar hafa verið gerðar á vef hinnar umdeildu ráðstefnu 2007 SnowGathering, sem haldin verður hérlendis í næsta mánuði. Felld hefur verið brott undirsíða með titlinum Attendees, en þar voru myndir af þátttakendum ásamt tenglum í klámvefi þeirra. Meðal þeirra voru vestur-íslensku bræðurnir Hjorleifsson, en á forsíðunni á þeirra vef er tengill í annan vef sem helgaður er beinum og augljósum skírskotunum til barnagirndar. Líklega þykir slíkt ekki heppilegt á meðan ráðstefnan er undir smásjá hérlendis.
Í yfirlýsingu sem sett hefur verið inn á vef SnowGathering er lýst undrun á viðbrögðum við fréttum af fyrirhugaðri ráðstefnu. Framkvæmdastjóri ráðstefnunnar leggur á það áherslu, að allir sem sæki hana séu andvígir barnaklámi og mansali. Það eina sem hægt væri að gagnrýna dagskrá ráðstefnunnar fyrir sé heimsókn á nektarklúbb, en verði gerðar athugasemdir af því tagi yrði það að teljast hræsni á hæstu gráðu, þar sem u.þ.b. sex löglegir nektarklúbbar séu starfandi í miðborg Reykjavíkur ...
Nú held ég væri ráð, ekki síst í ljósi nýlegra yfirlýsinga og samþykkta borgarstjóra og borgarstjórnar, að þetta síðasta verði tekið til athugunar - er miðbærinn morandi í nektarklúbbum? - jafnframt því sem áðurnefnd tilvísun á vef Vestur-Íslendinganna verði athuguð betur. Hún samræmist fremur illa því sem fram kemur í yfirlýsingunni á vef SnowGathering um viðhorf þátttakendanna til barnakláms ...
Viðbót: Komin er ný tilkynning á vef SnowGathering-ráðstefnunnar, þar sem greint er frá því að henni hafi verið aflýst. Með fylgir mynd af grindhvaladrápi Íslendinga með eftirfarandi texta: Endangered whales slaughtered against their own will! - Hvölum í [útrýmingar]hættu slátrað gegn vilja sínum!
Viðbót 2: Nú er mér bent á, að komin sé mynd af reyðarhval í vinnslustöð í staðinn fyrir myndina af grindhvalavöðu í fjöru. Textinn er hinn sami; hvalurinn hefur verið drepinn gegn vilja sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.2.2007
Skemmdarverk í mínu nafni ...
Stundum getur verið erfitt að verja góðan málstað*) þegar ofstækismenn segjast standa að honum líka, jafnvel eigna sér hann. Þetta gildir auðvitað ekki bara um náttúruvernd. Ég tel mig náttúruverndarsinna - og svo fréttist aftur og aftur af fólki sem einnig telur sig náttúruverndarsinna og hagar sér eins og fífl í nafni málstaðarins. Vegna hegðunar þessa fólks er minna mark tekið á mér! Það breytir engu í mínum huga þótt Frelsissamtök Jarðar hafi framið skemmdarverk á röngum vinnuvélum í eigu rangra aðila á röngum stað og röngum tíma - verknaðurinn er hinn sami, viljinn er hinn sami.
Það hefur oft komið fram, að ég er andvígur frekari stórvirkjunum hérlendis og andvígur endalausri álveravæðingu landsins. Það hefur komið fram, að ég er andvígur hvalveiðum Íslendinga - ekki vegna sérstakrar ástar á stórgáfuðum og fallegum dýrum, ekki vegna meiri ástar á hvölum en t.d. nautgripum og silfurskottum, heldur einfaldlega af praktískum ástæðum. Einmitt vegna þessara viðhorfa minna finnst mér slæmt þegar skemmdarvargar hafa sig í frammi í nafni náttúruverndar og hvalafriðunar - og þar með að vissu leyti í mínu nafni.
Ofstæki er fylgifiskur heimsku, eins og kunnugt er. Mörg dæmi þess hefur mátt sjá t.d. í athugasemdum hjá Katrínu Önnu Guðmundsdóttur og Sóleyju Tómasdóttur hér á Moggabloggi, svo og á knattspyrnuvefnum gras.is í tilefni af framboði Höllu Gunnarsdóttur til formennsku í KSÍ um daginn, eins og ég hef áður vikið að. Heldur einhver að það sé bara tilviljun, að þeir sem fara fram af mestu ofstæki skuli yfirleitt vera nánast óskrifandi?
Frétt á ruv.is (vill ekki talsmaðurinn Ólafur Páll Sigurðsson gefa sig fram?):
Í janúar birtist á vef EarthFirst yfirlýsing þess efnis að hópur sem kallar sig Earth Liberation Front, eða ELF, hefði skemmt þrjár vinnuvélar á vegum Alcan og skammstöfun ELF skilin eftir á vinnuskúr.
Í yfirlýsingunni kemur fram að verið sé að stækka verksmiðjuna út í verðmætt hraunlendi án samþykkis bæjarbúa í Hafnarfirði eins og búið hefði verið að lofa. Hópurinn stóð því í þeirri trú að framkvæmdir við stækkunina væru hafnar, en eins og fram kom í morgunfréttum var verið að vinna við skólphreinsistöð í Hafnarfirði. Þá er í lok yfirlýsingarinnar bent á heimasíðu Saving Iceland ef menn vilja frekari upplýsingar um hvernig verið sé að eyðileggja síðustu auðn Evrópu.
Fréttastofa hefur ekki náð í Ólaf Pál Sigurðsson talsmann Saving Iceland til að inna hann eftir tengslum samtakanna við EarthFirst, en framangreind yfirlýsing var einnig birt á heimasíðu Saving Iceland.
*) Það sem hver og einn telur góðan málstað; slíkt er einstaklingsbundið, eins og kunnugt er ...
Segjast hafa skemmt vinnuvélar í mótmælaskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)