Færsluflokkur: Bloggar

Stóra upplestrarkeppnin

Jónas HallgrímssonGaman var að hlusta á Stóru upplestrarkeppnina á Alþingi. Sumir sem þar komu fram gætu með tímanum orðið frambærilegir í Morfís. A.m.k. vantar ekki þann eiginleika að sjá tilveruna í svörtu og hvítu.

 

Annars stendur það helst eftir, að Jónas Hallgrímsson hefði að líkindum verið vinstri grænn.

 

Og Jón Sigurðsson er framsóknarmaður.

 
mbl.is 30% námslána breytist í styrki að námi loknu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrugripasafnið í eigu og umsjá ríkisins í 60 ár ...

Hið íslenska náttúrufræðifélag (stofnað 1889) rak náttúrugripasafn á tímabilinu frá 1890 til 1947, en þá afhenti félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Þetta stórmerka vísindasafn lá á þeim tíma undir skemmdum vegna húsnæðisvandræða. Félagið leitaði til ríkisstjórnarinnar eftir styrk til þess að bæta úr þessum vanda, en bauð safnið að gjöf að öðrum kosti, í trausti þess að vel yrði að því búið, og hefði þá ríkið allan veg og vanda af rekstri þess framvegis. Ríkisstjórnin tók síðari kostinn og hefur nú annast safnið af miklum myndarskap æ síðan, eða a.m.k þeim myndarskap sem flestir munu kannast við.

 

Í Morgunblaðinu fyrir réttum 60 árum, hinn 6. mars 1947, er greint frá þessum merku tímamótum í sögu safnsins og rætt við dr. Finn Guðmundsson náttúrufræðing (mynd: Tímarit.is).

 

Morgunblaðið 6. mars 1947

Og tíminn líður

Með aldrinum lítum við stöðugt oftar yfir farinn veg. Í æsku er ekkert að baki, allt framundan. Á efri árum er flest að baki, fátt spennandi framundan. Þess vegna er meira gaman að líta um öxl. Eða er það gaman? Annars vegar er liðinn tími röð góðra minninga, hins vegar eitthvað allt annað. Fer eftir hugarfarinu á hverri stund.

 

Ef ég hefði nú bara farið í þessa átt en ekki hina einhvern tiltekinn dag.

 

En hvað er að fást um það.

 

Ætti Alþingi að starfa fyrir luktum dyrum?

Ég hef ekki farið dult með þá skoðun, að virðingu Alþingis væri best borgið með því þingið yrði háð fyrir luktum dyrum. Skrípalætin sem þar tíðkast í beinni útsendingu eru ekki traustvekjandi, svo ekki sé meira sagt. Gaman er að lesa bloggskrif Björns Bjarnasonar um þetta núna. Tilefnið er m.a. sú niðurstaða úr viðhorfskönnun Gallups, að einungis 29% svarenda beri traust til Alþingis. Þar er þingið í neðsta sæti af átta stofnunum sem spurt var um, en í efstu sætunum eru Háskóli Íslands (85%) og lögreglan (78%).

 

Þingmenn halda því gjarnan fram, að þeir taki starf sitt alvarlega og vel sé unnið í nefndum þar sem enginn sér til. Jafnframt að þeir séu ekki í fríi hálft árið, eins og margir halda, heldur séu þeir þá að efla tengslin við kjósendur heima í héraði. Eða þá að þeir eru ásamt mökum og öðru föruneyti á mikilvægum ferðalögum út um allan heim, sem væntanlega eru bráðnauðsynleg vegna lagasetningar hérlendis. Eins og kannski einhverjir vita, þá er það hlutverk Alþingis að setja þjóðinni lög.

 

Hvernig væri að hafa líka beinar útsendingar frá nefndafundum, þar sem allt annar bragur er sagður vera en á sjálfum þingfundunum? Þá gætum við séð muninn.

 

Annars held ég að það sé ekki góð hugmynd ...

 

Dagbók Morgunblaðsins í dentíð

Friðrik Sigurbjörnsson lögfræðingur sá um Dagbókina í Morgunblaðinu þegar ég var á Mogganum fyrir fjórum áratugum eða þar um bil. Dagbókin var að mestu fastir liðir með gagnlegum upplýsingum og ýmsu smáræði. Friðrik skrifaði dálk undir yfirskriftinni Storkurinn sagði, brúðhjónamyndir voru birtar (í daglegu tali við vinnslu blaðsins kölluðust þetta ríðingamyndir), þarna var brandari dagsins (sá NÆST bezti) og teikningin eftir Sigmund. Líka voru þarna ýmsar smáfréttir af fólki.

 

Einn liðurinn í Dagbókinni hét Vísukorn, þar sem venjulega birtist frumsamin vísa eftir einhvern af hagyrðingum Reykjavíkur, sem oft lögðu leið sína á ritstjórnina eða hringdu. Fyrir kom að Friðrik varð uppiskroppa með vísur og fékk mig til að bulla eitthvað í eyðuna.

 

Á ráfi mínu núna í gömlum blöðum rekst ég nú á eitthvað af þessum samsetningi, sem ég vildi að vísu ekki hafa nafn mitt undir heldur notuðum við eitthvert dulnefni. Að minnsta kosti stundum var dulnefnið Mörður notað í þessum tilgangi. Ekki hélt ég þessu til haga að öðru leyti en hvað varðar birtinguna í Morgunblaðinu - og þætti þó kannski einhverjum nóg - og lagði það ekki heldur á minnið. Núna bar eftirfarandi vísukorn merkt Merði fyrir augu mér - Morgunblaðið 13. júlí 1967 - þar sem saga íslensku þjóðarinnar er tekin saman:

                                    

     Þjóðin hefur þraukað af

     þrengingar á færibandi.

     Daglegt brauðið Drottinn gaf

     en Danir fluttu það úr landi.

                                         

Þess má geta, að meðal mynda sem auglýstar eru í kvikmyndahúsum borgarinnar þennan sama dag eru Heimsendir, Skelfingarspárnar, Flóttinn frá víti og Á barmi glötunar. Ekki veit ég hvort það er einhver tilviljun, að þarna var þriðja kjörtímabilið undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks nýbyrjað ...

 

Myndir: Tímarit.is

 

Mbl. 13. júlí 1967, bls. 6

           

Mbl. 13. júlí 1967, bls. 7

Ég er lítill tréhestur

Merkilegt hvernig maður getur tekið ævilöngu ástfóstri við bækur. Eða eitthvað annað. Nánast upp úr þurru. Mér þykir einna vænst um Ævintýri litla tréhestsins af öllum bókum sem ég hef eignast og hef lesið hana misreglulega síðustu hálfa öldina eða svo. Ef ég ætti að velja eina bók til að hafa með mér á eyðieyju, eða yfir í eilífðina, þá tæki ég hana. Næst kæmi Candide / Birtíngur í þýðingu Kiljans - og með formálsorðum hans! Ef ég mætti hafa enn fleiri rit með mér, þá kæmu m.a. þessi - í óvissri röð: Egils saga, bækurnar um Tom Swift, Passíusálmarnir, Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton, Hávamál, Innansveitarkróníka, Sögukaflar af sjálfum mér eftir séra Matthías ...

 

Tarna er undarleg upptalning! Mér skilst að bækurnar eftir Enid Blyton séu einstaklega vondar bókmenntir. Bækurnar um Tom Swift jafnvel enn verri. En væntumþykja hlítir ekki alltaf rökum, allra síst bókmenntafræðilegum rökum.

 

Í gamla daga hlakkaði ég til þess að leggja stund á íslensku við Háskóla Íslands. Byrjaði þar samhliða námi í sagnfræði. En vonbrigðin urðu skelfileg. Á öðrum vetri í íslenskunni labbaði ég út og kom þar aldrei síðan. Að vísu hafði ég ekkert yfir málfræðinni og málsögunni að kvarta; mér fannst t.d. bæði fróðlegt og ákaflega skemmtilegt að kynnast gotneskunni. En bókmenntakennslan! Ég labbaði á dyr með þau orð á vörum, að ég kærði mig ekkert um að láta segja mér hvernig ég ætti að skynja tiltekin skáldverk. Að vísu var ég á menntaskólaárum búinn að kynnast steingeldum stöglurum á borð við Magnús Finnbogason magister og Bjarna Guðnason - en ég hélt að annað tæki við í háskóla að þeirri afplánun lokinni.

 

Ég hafði minn skilning, mína skynjun, á bókum sem ég hafði lesið í æsku og þótti vænt um, ég hafði í huga mér skapað mér mína eigin mynd af persónum og umhverfi - en núna komu tilskipanir um staðlaðan og samræmdan skilning sem allir yrðu að hafa til að ná prófum. Þegar ég fékk fyrirskipun um það hvernig ég ætti að skynja persónurnar í Manni og konu upp á nýtt, þá labbaði ég út. Tók síðan tvö stig í þýsku til að fylla upp í BA-prófið með sagnfræðinni samkvæmt sex stiga kerfinu sem þá var við lýði.

 

En aftur að litla tréhestinum og ævintýrum hans. Höfundurinn er Ursula Moray Williams, tvíburasystir Barböru Árnason. Þegar bókin kom í huga mér núna áðan, þegar ég las fréttina sem vísað er til hér að neðan, sló ég nafnið Ursula Moray Williams inn í leitarvélina Emblu til að finna íslenskar heimildir um hana. Og fékk þetta:

 

Leitað að Ursula Moray Williams

                        

Áttirðu við rusula moran Williams?

                                   

Nei, ég átti ekki við rusula moran Williams. Ég átti við Ursula Moray Williams eins og ég hélt að lægi fyrir. Merkilegar þessar bjánaspurningar sem maður fær iðulega í svarastað hjá leitarvélinni Emblu. Því næst notaði ég google.com og fékk mikið efni í hendurnar. Ursula Moray Williams lifði allt fram á þennan vetur, kom mér á óvart; dó um miðjan október, 95 ára að aldri. Bendi hér aðeins á dánarminningu í The Guardian.

 

Ég er litli tréhesturinn.

 
mbl.is Hroki og hleypidómar uppáhaldsbók breskra lesenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubbi fallinn í Hér & nú - hæstaréttardómur fallinn

Ekki var talið unnt að skilja forsíðufyrirsögnina öðruvísi en svo að fullyrt væri að Ásbjörn væri byrjaður að neyta vímuefna, enda væri þorra þjóðarinnar kunnugt um vímuefnaneyslu hans fyrr á árum. Eins og fullyrðingin var fram sett var hún talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun og voru ummælin dæmd dauð og ómerk.

 

Fallist var á að Ásbjörn ætti rétt á miskabótum úr hendi Garðars vegna þeirra ummæla sem birtust á forsíðu tölublaðsins [Hér & nú, 16. júní 2005]. Miskabótakrafa Ásbjarnar var einnig reist á því að friðhelgi einkalífs hans hefði verið rofin með óheimilli birtingu mynda og umfjöllun um einkamálefni hans í umræddu tölublaði.

  

Dómur Hæstaréttar: Garðar Örn Úlfarsson gegn Ásbirni K. Morthens og Ásbjörn K. Morthens gegn Garðari Erni Úlfarssyni og 365 prentmiðlum ehf.

 

Fljótandi nikótín í Dýrafirði

Sumar fréttir eru sérkennilegri en aðrar. Í gær greindi fréttavefurinn bb.is frá fljótandi nikótíni sem fundist hefði í húsi vestur í Dýrafirði: Eigandi hússins hafði verið að taka til á háalofti þegar hann rakst á tvo brúsa sem innhéldu fljótandi nikótín. Hafði hann samband við lögreglu sem kom boðum á slökkvilið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem slökkvilið Ísafjarðarbæjar fékk um efnið er það mjög hættulegt við innöndun og snertingu á húð. Var því efnið sótt og því komið til aðila sem eyðir því á öruggan hátt.

                        

Frá þessu líka greint á heimasíðu Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og vísar bb.is þangað. Hins vegar vaknaði sú spurning, sem ósvarað var, til hvers í ósköpunum fljótandi nikótín væri yfirleitt notað. Einhver hlýtur tilgangurinn með þessu skelfilega efni á brúsum að hafa verið. Við gúgl á netinu fannst í fyrstu ekkert um slíkt, ekki einu sinni í rækilegri umfjöllun um nikótín á Wikipediu. Helst datt mér í hug, að þetta hefði verið notað til þess að búa til „tóbak“ úr heyi - væri ekki hægt að marínera hey í fljótandi nikótíni, þurrka það og reykja síðan? Ekki man ég betur en fyrir kæmi í gamla daga að menn brældu hey í pípu þegar tóbak vantaði - allt er hey í harðindum ...

 

Síðan gerði ég það sem fyrst hefði átt að gera - gúglaði fyrirtækisnafnið á brúsanum á myndinni á heimasíðu slökkviliðsins - The British Nicotine Company. Og þá kemur mergurinn málsins: Manufacturers of nicotine and nicotine sulphate used for agricultural purposes.

                               

Fram kemur, að þetta brúsa-nikótín var unnið úr úrkasti frá tóbaksframleiðslu.

 

Þetta var sumsé ætlað til notkunar við akuryrkju. Ætla má, að sá tilgangur sé nú gleymdur hérlendis.

 

En þá vaknar önnur spurning: Skyldu brúsar þessir ekki hafa verið þarna á háaloftinu á Alviðru í Dýrafirði fyrir bráðum hálfri öld, þegar ég var nemandi á Núpi í Dýrafirði og var eins og fleiri í vist á Alviðru þar rétt hjá?

 

                        

28.02.2007  Fréttin á bb.is

27.02.2007  Slökkvilið Ísafjarðarbæjar: Hættuleg efni leynast víða

27.02.2007  Slökkvilið Ísafjarðarbæjar: Myndir - eiturefni Alviðru

                                 

Nicotine

Stromboli og Snæfellsjökull

Enn gýs Stromboli en Snæfellsjökull ekki. Eyjan Stromboli er eldkeila sem teygir blátoppinn upp úr sjónum norðan við Sikiley, rétt við tána á Ítalíuskaga. Hún er eitt af virkustu eldfjöllum jarðar um aldir og árþúsund og sosum nógu fræg sem slík. En hún er líka þekkt úr vísindaskáldsögunni Ferðinni í iður jarðar (Voyage au centre de la Terre) eftir Jules Verne. Þar greinir frá þýskum prófessor, Lidenbrock að nafni, sem kemur til Íslands og bregður sér ásamt frænda sínum og innfæddum leiðsögumanni (æðarbónda og þar með fyrirrennara Jónasar í Æðey, Jóns Sveinssonar sjóliðsforingja á Miðhúsum í Reykhólasveit og margra fleiri góðra manna) í könnunarleiðangur niður um eldfjallið gamla Snæfell á Snæfellsnesi (Snæfellsjökull). Eftir gríðarleg ævintýri, eins og jafnan í sögunum eftir Jules Verne, spýtast þeir að lokum upp um gíginn á Stromboli og allt fer vel, eins og vera ber.

 
mbl.is Neyðarástand á Stromboli; hraun flæðir úr tveim sprungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísafjörður: Við skál síðan fyrir jól

Slétt silfurplata er hömruð á steðja - dögum saman, vikum saman. Reyndar er hún ekki lengur slétt; við fyrsta högg byrjar hún að taka á sig mynd. Nákvæmlega þar sem platan nemur við steðjann þarf hamarinn að hitta. Við það þenst silfrið og þéttist. Með kerfisbundinni nákvæmni, með tilfinningu fyrir efninu, og með óbilandi þolinmæði, er hægt að gefa silfrinu form á þennan einfalda en ákaflega seinlega hátt. Við hömrun harðnar silfrið og hættir að láta að stjórn. Svo að silfrið rifni ekki þarf að glóðhita það. Þá verður það aftur mjúkt. Og áfram er haldið að hamra. Pétur Tryggvi Hjálmarsson silfursmiður á Ísafirði hefur verið að hamra eina plötu síðan fyrir jól - í meira en tvo mánuði. Platan verður smátt og smátt að einhverju. Platan og maðurinn eigast við. Þegar vel gengur verður hún listaverk; maðurinn listamaður. Skál! 

                  

Pétur Tryggvi - Skál 01

           

Pétur Tryggvi - Skál 02

                  

Pétur Tryggvi - Skál 03

                

Pétur Tryggvi - Skál 04

                

Pétur Tryggvi - Skál 05

30.12.2006 Pétur Tryggvi - bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband