Færsluflokkur: Bloggar

Ofbeldishrinan í Írak ...

Bandaríkjaforseti segir að aukinn herafli í Írak muni „stöðva ofbeldishrinuna“ þar, ef rétt er með farið. Hef ég ekki heyrt eitthvað svipað áður? Hverjir voru það annars, sem áttu upptökin að þeirri „ofbeldishrinu“ sem um er rætt? Reyndar er það sérstætt að kalla innrás í fullvalda ríki ofbeldishrinu.

 

Man ég það annars ekki rétt, að tilgangi innrásarinnar sé þegar náð? Að búið sé að tryggja, að hagnaðurinn af gríðarlegum olíuauði Íraks muni renna í vasa olíurisanna sem standa að baki Bush forseta?

 

P.s.: Kötturinn hefur engar áhyggjur af þessu.

 
mbl.is Bush sendir 20 þúsund hermenn til viðbótar til Íraks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvimleið bilun í bloggkerfinu

Undarleg bilun virðist vera í bloggkerfinu hér. Síðustu daga hafa innlegg eins af helstu leiðtogum og hugmyndafræðingum Framsóknarflokksins og væntanlegs þingmanns í Reykjavíkurkjördæmi suður gengið aftur - og það aftur og aftur. Jafnskjótt og innlegg hans er horfið niður af bloggforsíðunni kemur það afturgengið efst á forsíðunni á ný. Þetta gerðist aftur og aftur og aftur með frásögn leiðtogans af afmælisdegi Elvis Presley í fyrradag og gerist núna aftur og aftur og aftur með gráti út af afdrifum íslenska þjóðsöngsins í Ríkisútvarpinu.

 

Gætu umsjónarmenn Moggabloggsins ekki lagfært þetta? Eða eru þeir svo illa innrættir gagnvart Framsóknarflokknum að þeir geri það ekki?

Viðbót: Þessa klukkutímana verður Grímur Gíslason á Blönduósi 95 ára - aftur og aftur og aftur ...


Bananar eða olía fyrir okkur?

Sómalía má heita ónumið land fyrir olíuvinnslu. Þar eru bananar ein helsta útflutningsvaran, lífskjörin slæm og barnadauði einna mestur í heiminum. En - þar eru miklar olíulindir í jörðu. Skyldu loftárásir Bandaríkjamanna á „meint hreiður al-Qaida hryðjuverkamanna“ hafa tekið mið af því? Vel hefur til tekist í Írak - olíugróðinn þaðan mun framvegis renna til olíurisanna sem standa undir Bush forseta, eins og fram hefur komið síðustu daga. Innrás Bandaríkjamanna og viljugra hunda þeirra í Írak - þar á meðal okkar Íslendinga - hefur skilað tilætluðum árangri.

 

En hvað með Sómalíu? Væri ekki rétt og skynsamlegt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands (skítt með vitneskju eða samþykki annarra hérlendis) taki nú virkan þátt í hernaði Bandaríkjanna í Sómalíu rétt eins og í Írak? Þó ekki væri nema með því að skaffa sérfræðinga sem gætu fundið efnavopn, sérfræðinga á borð við íslensku sinnepstunnumennina í Írak, og komið þar með Íslandi á kortið, eins og það er orðað?

 

Allt virðist vera til vinnandi að lækka bensínverð hérlendis. Írakssigurinn hefur ekki enn sem komið er skilað slíku til okkar. Að minnsta kosti ekki til almennings. Vonandi njóta íslensku olíufélögin samt góðs af lækkandi olíuverði, þó að það skili sér ekki ennþá til viðskiptavina.

 

Yfirráð siðmenntaðra ríkja yfir olíulindunum í Sómalíu verða vonandi til þess, í fyrstu lotu, að bananar verði ódýrari í íslenskum bensínsjoppum. Síðan er það spurningin hvort olíugróðinn rennur bara í vasa bandarísku olíurisanna eða líka til okkar, hinnar viljugu þjóðar, hinna viljugu bensínkaupenda.

 
mbl.is Áframhaldandi loftárásir Bandaríkjamanna á Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stytti sér aldur út af músagangi (?)

Meðal þess sem mér þykir undarlegast í samtímanum hérlendis - með aldrinum kemur að vísu sífellt færra á óvart - er rekstur stofnana, sem að öðru leyti mætti e.t.v. kalla þjóðþrifastofnanir, á spilakössum. Mér finnst ánægjulegt, að í borgarstjórn Reykjavíkur skuli vera þverpólitísk samstaða um að vinna gegn þessum ófögnuði. Kannski er heldur vægt að kalla þetta ófögnuð, rétt eins og t.d. músagang eða silfurskottur, sem leggja ekki líf fólks í rúst, að ég best veit. Ef einhver sem þetta les veit um manneskju sem hefur stytt sér aldur út af músagangi, þá væri það áhugavert út af fyrir sig.

 

Þeir sem sitja í fílabeinsturni Háskóla Íslands hafa auðvitað engan skilning á spilafíkn. Þeir segja að hverjum og einum sé í sjálfsvald sett hvort hann notar spilakassana.

 

Yfirlýsingar af því tagi bera vitni um fáfræði, hreina heimsku. Og það í sjálfum Háskóla Íslands. Þeir sem eru í ábyrgðarstörfum í stofnun af því tagi - universitas - og reyndar hinir líka, ættu manna best að vita að rök eru fyrir öllu, að skýringar eru á öllum hlutum, jafnvel þó að þeir skynji þær ekki á sjálfum sér. Þeir ættu manna best að vita að spilafíkn er staðreynd, jafnvel þótt þeir séu ekki haldnir henni sjálfir.

 

Og hvað með SÁÁ? Kannski er skiljanlegra að sú stofnun fremur en háskóli standi að viðhaldi og eflingu spilafíknar. Reksturinn þar byggist einmitt á eftirspurn og framboði langt genginna fíkla, ekki aðeins í áfengi, heldur einnig fíkla í efni á borð við amfetamín og kókaín - og spilakassa. Í samræmi við reksturinn á spilakössum væri eðlilegt, að SÁÁ fengi að hafa áfengis- og kókaínsjálfsala í anddyrinu á Vogi. Þannig mætti afla fjár til þess að veita enn fleiri áfengissjúklingum meðferð, og stuðla að því um leið, að enn fleiri ánetjist SÁÁ.

 

Ég nenni ekki núna að fjalla hér um Landsbjörgu, sem ekki aðeins þrífst á ógæfu spilasjúklinga, heldur einnig þeim algera barbarisma sem skoteldadjöfulgangurinn um áramótin er og allt sem honum fylgir. Það er kapítuli út af fyrir sig.

 

Morgunblaðið og Maaneds-Tidender

Mér virðist sem margir viti ekki um vefinn Tímarit.is - kannski vegna þess að ýmsir sem helst myndu nota hann eru lítið í tölvum. Nostalgían, fortíðarhyggjan, fortíðarþráin, kemur með aldrinum. Hvað um það - þarna má skoða og lesa ókeypis*), síðu fyrir síðu, vel yfir 200 íslensk blöð og tímarit, allmörg færeysk og nokkur grænlensk. Búið er að koma þarna inn nær öllum blöðum og tímaritum sem út komu í þessum löndum fyrir 1920; auk þess allmiklu eftir það og allt fram undir síðustu ár. Þar er helst að geta Morgunblaðsins, sem aðgengilegt er með þessum hætti allt frá upphafi árið 1913 og fram til 2000. Elst eru Islandske Maaneds-Tidender, sem eru svo gömul, að á þeim tíma voru Móðuharðindin ekki dunin yfir.

 

Tímarit.is er samstarfsverkefni Landsbókasafnsins - Háskólabókasafns og landsbókasafnanna í Færeyjum og á Grænlandi. Af íslenskum blöðum og tímaritum eru komnar inn eitthvað um milljón síður. Eins og gefur að skilja er þetta ægilegur tímaþjófur sjálfsagalitlu fólki sem haldið er fortíðarþrá ...

 

Fyrir skemmstu var Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og nú forstjóri hinna nýstofnuðu Flugstoða ohf. mjög í fréttum. Til gamans smelli ég hér inn síðuparti úr Morgunblaðinu fyrir réttum fjörutíu árum. Þá kom Þorgeir ásamt fjölskyldu sinni í snögga heimsókn til Íslands, en á þeim tíma lagði hann stund á flugverkfræði við MIT í Bandaríkjunum. Ég man afar vel eftir því þegar ég tók þetta viðtal við hann. Líka læt ég hér fylgja smáræði sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nærri hálfri öld og snertir mig öllu meira ...

      

 *) Ég verð stundum svolítið pirraður þegar verið er að tyggja klisjuna um að ekkert sé ókeypis, að alltaf sé einhver sem borgar fyrir hádegisverðinn. Að klifa á slíku er  útúrsnúningur - með þessu er einfaldlega átt við það, að sá sem notar eða nýtur borgi ekki sjálfur fyrir. Sú merking er rótgróin í íslensku máli.

      

Þorgeir PálssonMbl. sept. 1958


Samræmd vefmæling Modernusar

Fróðlegt er að skoða Samræmda vefmælingu Modernusar, þar sem fram kemur fjöldi notenda, innlita og flettinga á vefjum í hverri viku. Jólin með öllu sem þeim fylgir setja svip á notkunina og hafa í för með sér verulegar sveiflur. Ekki fyrst og fremst að vefir sem eru tengdir jólunum fái meiri aðsókn, heldur miklu frekar hitt, að á þeim tíma dregur verulega úr notkun almennra fréttavefja og bloggvefja og raunar langflestra vefja. Ástæðan er líklega ekki eingöngu sú að fólk hafi svo miklu meira að gera (flestir eru í fríi), heldur hitt, að flestir eru í fríi! Hvar er betra næði og meiri tími til að ráfa á Netinu en einmitt í vinnunni eða í kennslustundum í skólanum?

           

Í síðustu viku, í tilefni þess að rétt vika var liðin frá því að ég kom til sögunnar hér á blogginu, páraði ég í kvikindishætti mínum nokkur orð um áhrif skrifa minna á aðsóknina að vefnum mbl.is. Niðurstaðan var ótvíræð: Notendum á mbl.is hefur stórfækkað, innlitum hefur stórfækkað og flettingum hefur stórfækkað. Og síðan sagði: Skoði maður sundurliðun á einstökum undirvefjum Moggavefjarins, þá kemur í ljós, að hér munar mest um samdráttinn á blog.is, þar sem áhrifa minna gætir helst. Þar hefur notendum fækkað um 18% og innlitum um 27,1%.

         

Í dag komu nýjar tölur hjá Modernusi, fyrir fyrstu viku hins nýja árs. Gleðilegt er að sjá hversu vel mbl.is og blog.is og notendur þessara vefja hafa jafnað sig eftir mig - eða jólin. Notendum hefur stórfjölgað, innlitum hefur stórfjölgað og flettingum hefur stórfjölgað.

                              

En þetta gildir ekki bara á Moggavefjunum. Í flestum tilvikum gildir það líka um aðra vefi. Nokkrar skiljanlegar undantekningar má nefna: jol.is, jpv.is og vefkort.is - og vinbud.is.

 

Margt má finna áhugavert í snuðri á lista Samræmdrar vefmælingar. Jafnan vekur athygli hin mikla aðsókn að vef Bæjarins besta á Ísafirði, bb.is - ef miðað er við fólksfjölda, að íslenskum sið. Þar eru innlitin í nýliðinni viku álíka mörg og hjá Víkurfréttum á Suðurnesjum, þrátt fyrir margfaldan mun á íbúafjölda á svæðunum.

 

Svona hefur þetta reyndar verið alla tíð. Vefurinn bb.is hóf göngu sína í ársbyrjun 2000, fyrir réttum sjö árum. Aðsóknin að honum var strax langtum meiri en menn bjuggust við, jafnvel ekki laust við að einhverjir efuðust um þær tölur sem fram komu!

 

Mér er ákaflega hlýtt til Bæjarins besta og bb.is og þeirra sem þar halda á spöðum. Enda málið mér nokkuð skylt. Ég annaðist fréttaskrifin á bb-vefnum frá fyrsta degi og var ritstjóri hans í nokkur ár.

 

Hvað sem því líður - gaman að sjá að vefnotkun landsmanna stóreykst að loknu jólafríi. Það leynir sér ekki að fólk hefur nóg fyrir stafni, hvort heldur er í vinnunni eða skólanum ...

 

Svona á landbúnaður að vera!

„Fylkisstjóri í Finnmörku í Noregi trúir ekki tölum hreindýrabænda um ágang rándýra.  400 hreindýraeigendur telja sig hafa misst 54.000 dýr á síðasta ári, aðallega kálfa. Þar af hafi rándýr tekið 45.000 hreindýr. Rándýr, sem leggjast á hreindýr, eru aðallega jarfi, örn, gaupa og úlfur. Hreindýrabændum hefur ekki tekist að leggja fram gögn um nema 415 drepin dýr.  Fylkisstjórinn hefur samþykkt að greiða bætur fyrir liðlega 5.900 dýr.“ (ruv.is)

 

Hvernig væri að taka þetta fyrirkomulag upp í sauðfjárbúskapnum hérlendis? Að vísu höfum við ekki jarfa, gaupur eða úlfa, en auk arnarins höfum við refinn. Húnvetningar þóttu líka liðtækir á sínum tíma ...

 

Lítil fluga í mánudagsmorgunsárið

Hvernig er eiginlega þarna á Reykhólum? er ég stundum spurður. Norðaustanátt, svara ég. Þetta er að vísu einföldun, og líka útúrsnúningur. En hann er ansi oft á norðaustan. Ekki svo að skilja að ég mæli neitt frekar með sífelldum útnyrðingi. Þetta er bara svona. Og ekki bara akkúrat hérna.

 

Stíf norðaustanáttin er meðal þess sem ég minnist einna best þegar ég hugsa til vetranna minna í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í gamla daga. Sífelldur bölvaður norðaustanleiðindastrekkingur, að manni fannst. En það var bara úti. Ég hugsa með hlýju til skólans í Reykjanesi og allra sem þar voru.

 

Þegar ég var barn, þá leiddust mér veðurfréttirnar í útvarpinu. Almennu fréttirnar voru litlu skárri, stöðugt verið að tala eitthvað um Formósu. Ég vildi frekar heyra Litlu fluguna og lét mömmu kalla á mig þegar lagið kom í útvarpinu. Núna veit ég að Sigfús Halldórsson samdi þetta lag hérna á Reykhólum og höfundur textans var Sigurður Elíasson, sem hér var tilraunastjóri á þeim tíma. Litla flugan lifir enn; engin dægurfluga.

 

En þegar ég var orðinn fulltíða maður (sbr. 1. Korintubréf 13:11), þá fór ég að hafa mætur á veðurfréttum. Meðal þess sem ég les alltaf hér á Moggabloggi eru veður- og veðurfarspistlar Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, jafnvel þó að hann sé framsóknarmaður.

 

Núna í mánudagsmorgunsárið er norðaustanstrekkingur hér á Reykhólum við Breiðafjörð, ískaldur næðingur. En það er bara úti.

 

Lífið er norðaustanátt, hefði bróðir minn í andanum Forrest Gump getað sagt. Bara misjafnlega hvöss.

 

Dinner for two

Kisa virðist efnilegur veiðiköttur. Í útivistartímanum sínum í fyrradag kom hún með nýveiddan fugl upp að húsinu og át hann að mestu sjálf, eins og fiðrið út um allt bar vitni um. Færði mér reyndar annan vænginn - kom með hann inn og lagði við fætur mér. Kannski var þetta fyrsta bráðin hennar.

 

Kisan er líklega eitthvað um hálfs árs gömul, úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Hún er ljós yfirlitum og ákaflega andlitsfríð og heitir þess vegna Helga Guðrún. Helga Guðrún Geirdal. Fyrir jólin fékk hún kattafárssprautu og ormalyf. Pilluna fær hún vikulega. Nú vantar ekkert nema bjöllu á hana.

 

Ekki skortir að kisa fái nógu mikið og gott að éta. Úrvals kattamat frá útlöndum, ýmist þurrmat eða jukk úr dósum og pokum. Samt vill hún miklu frekar mannamat og étur þá allt. Bölvaður kötturinn étur allt, eins og þar stendur. Meira að segja kartöflur.

 

Þetta er alveg eins og var með köttinn okkar Anette minnar í gamla daga. Kisan sú hét Mulemulemuschmuschmusch, kölluð Mulemusch eða bara Muschi, og var frá Túni skammt frá Selfossi. Við fengum hana örsmáan kettling og höfðum hana í skúringafötu í bílnum á leiðinni til Reykjavíkur. Mulemusch vildi alltaf éta það sem við vorum að éta og þótti allt betra en kattamatur. Hún skildi ekki íslensku enda var eingöngu töluð þýska á heimilinu. Stundum fórum við í handbolta. Hún var í markinu og skutlaði sér til að verja.

 

Þau urðu endalok Mulemusch, að hún fékk sprautu hjá dýralækni til þess að verða ekki breima, en við það bólgnuðu júgrin á henni og dýralæknirinn sagði að það yrði að svæfa hana. Þann dag allan lá ég í rúminu grátandi, maður kominn hátt á þrítugsaldur. Enda náskyldur séra Matthíasi.

 

Gaman verður að éta kæstan hákarl með Helgu Guðrúnu á þorranum. Þá held ég sú murri, þangað til værðin að máltíð lokinni slekkur á mulningsvélinni. Í svefninum fara kippir um kampana. Þá er hana líklega að dreyma spennandi fuglaveiðar. Eða kartöflur.

 

Vefur Ríkisútvarpsins - til hvers?

Ríkisútvarpið heldur úti vef. Allt gott um það - ef á honum mætti finna það sem helst ætti að vera þar: Skilmerkilegar upplýsingar um dagskrána. Núna fór ég inn á dagskrá Sjónvarpsins í dag. Þar getur meðal annars að líta eftirfarandi:

 

13.55 Íslandsmótið í handbolta

15.30 Alpasyrpa

15.55 Íslandsmótið í körfubolta

 

Ekki eru neinar frekari upplýsingar um þessa dagskrárliði. Ætli þetta séu yfirlitsþættir um mótin? Valdir kaflar úr leikjum ásamt spjalli spekinga? Beinar útsendingar frá leikjum? Og þá frá hvaða leikjum?

 

Hvers vegna í fjandanum er ekki hægt að segja nánar frá þessum dagskrárliðum, úr því að Ríkisútvarpið er á annað borð að halda úti vef? Ef þarna er um að ræða beinar útsendingar frá leikjum, þá finnst mér skipta máli hvaða lið eigast við. Suma leiki vildi ég gjarnan sjá, aðra alls ekki.

 

Nei, maður verður að gera svo vel að vera við tækið á tilsettum tíma og gá hvað kemur. Spila í happdrættinu.

 

Kemur sér líklega vel fyrir Sjónvarpið í áhorfskönnunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband