Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2007
Minningarstund
Þó að ég sé ekki ungur vinstri grænn - ég er gamall hægri grænn - verð ég í dag í anda við minningarathöfn í Reykjavík vegna þeirra fórna á ómetanlegum og óbætanlegum náttúruverðmætum sem Kárahnjúkavirkjun hefur krafist. Þeir sem að virkjuninni standa hafa reist sér voldugan minnisvarða - virkjunina sjálfa. Dýrasta og dýrkeyptasta minnisvarða Íslandssögunnar, minnisvarða um heimsku. Óvíða í veröldinni má finna sambærileg monúment nema frá tíma Sovétríkjanna. Þokkalegur félagsskapur, eða hvað?
Ung vinstri græn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007
Hvalafurðirnar ...
Ætli afgangurinn verði ekki urðaður líka á sama stað, þ.e. það sem búið er að vinna. Ekki selst það. E.t.v. kaupir ríkið afurðirnar af Kristjáni Loftssyni til urðunar, svo að hægt verði að halda áfram að veiða hval og sýna heiminum að Íslendingar séu sjálfstæð þjóð - hvað sem það kostar!
![]() |
Hvalaafurðir urðaðar á Mýrum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007
Fram úr hófi sjarmerandi ...
Álpaðist inn á vefinn Spámaður.is og fékk þar ýmsar misskrítnar upplýsingar um sjálfan mig. Leyfi mér að tilfæra hér nokkur dæmi, eins og þetta: Það er merkilegt að sjá að þú býrð yfir magnaðri fegurð sem fer ekki fram hjá neinum sem fær að njóta nærveru þinnar og ekki má gleyma að minnast á mikla sál- og dulræna krafta þína ...
Ennfremur:
Þar sem stjörnumerki þitt er hið síðasta í röð tólf merkja safnast í því eðliseinkenni hinna ellefu. Þar af leiðandi birtist þú móttækilegur, fram úr hófi sjarmerandi, og fullur innsæis ...
Þegar ég dró spil kom þetta:
Þú hefur markvisst dregið þig frá umhverfi þínu á einhvern hátt og er það eingöngu af hinu góða ef þú ert þar með að styrkja sjálfið. Þér gæti mislíkað það sem er að gerast í kringum þig eða þú finnur þörfina á að vera í einrúmi og huga að persónulegum þörfum og jafnvel tíma til að huga betur að eigin líðan. Hér er talað um að þú ættir að ákveða hvað skal aðhafst án áhrifa annarra. Lausn vandans liggur innra með þér og svarið fæst fyrr en síðar. Skilaboð hjarta þíns, vellíðan og vanlíðan munu vísa þér á rétta braut.
Þegar ég dró svokallað ástarspil:
Þú kýst að vera fálátur um þessar mundir af einhverjum ástæðum en þú ert aldrei eins ánægður og þegar allt sem þú unnir fellur saman í eina heild með þig sjálfan sem miðju. Þú vilt í einlægni að fólkinu í kringum þig líði vel. Afstaða tungls og sólar ásamt veðrabreytingum hefur jafnvel sterk áhrif á líðan þína samhliða sverðásnum.
Beindu viðkvæmni þinni í sem ánægjulegastar og árangursríkastar brautir og líttu á viðkvæmnina sem guðsgjöf og notaðu hana í þágu málstaðar og fólks sem er þér kært. Geysileg hugarstarfsemi á við hérna þar sem þú kýst að bæta aðstæður á einhvern hátt. Tjáðu innstu hvekkingar þínar og upplifðu áhyggjuleysi og unað framvegis.
Þú reynir án efa að vera sveigjanlegur og bregst ekki við eftir skynjun þinni heldur aðstæðum. Þú stuðlar hérna að stöðuleika sem er jákvætt vissulega.
Tréð mitt reyndist vera grátvíðir og svona manneskja er ég:
Hér er á ferðinni falleg en oft á tíðum döpur manneskja. Hún er aðlaðandi og mjög skilningsrík, hrífst af fegurð og smekkvísi, og býr yfir góðu innsæi. Manneskjan nýtur þess að ferðast, er dreymin en eirðarlaus, og er frekar duttlungafull þótt hún sé heiðarleg. Hún er erfið í sambúð, enda kröfuhörð, þótt hægt sé að hafa áhrif á hana. Hún þarf förunaut sem styrkir hana. Ástarmálin valda henni oft angist.
Niðurstaða (mín): Ekki er öll vitleysan eins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2007
Norðvesturkjördæmi hægri grænt
Fróðlegt er að skoða nýjustu fylgistölurnar úr Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt þeim er Sjálfstæðisflokkur með 28% fylgi og Vinstri grænir með 25%. Síðan eru litlu flokkarnir þrír allir á svipuðu róli: Framsóknarflokkurinn 17%, Frjálslyndir 16% og Samfylkingin 15%.
Merkilegt er að sjá Samfylkinguna í neðsta sætinu. Auðvitað eru samsæriskenningar komnar á stjá og ein þeirra kom fram í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gærkvöldi:
Valdimar Lúðvík Gíslason, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Bolungarvík í áratugi og flokksbundinn Samfylkingarmaður, segir að lítið fylgi við Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi í skoðanakönnunum megi rekja beint til prófkjörs flokksins í haust. Hann segir hreint út að séra Karl Valgarður Matthíasson hafi beitt bolabrögðum í prófkjörinu og smalað óflokksbundnum mönnum til að kjósa sig. Hann hreppti annað sætið.
Hvað sem kann að vera til í þessari kenningu, þá er næsta víst að sitthvað fleira kemur til. Hætt er við að það sitji enn í mörgum, ekki síst á Vestfjörðum, þegar Össuri Skarphéðinssyni var bolað úr formannsstólnum.
Auk þess getur varla talist gæfulegt þegar einn flokkur er með álíka margar stefnur í hverju máli og þingmennirnir eru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007
Þung lesning
Jamm. Akureyringar fá lánaðar bækur í tonnavís. Samtals 53,3 tonn á síðasta ári, samkvæmt frétt að norðan. Nokkur kíló á hvert mannsbarn. Ekki er ég með Innansveitarkróníku handbæra og langt síðan ég las hana man ekki alveg hvort það er í henni eða hvort ég heyrði sjálfur sagt frá því þegar ég var að alast upp í Mosfellssveitinni: Þegar bóndinn á Hrísbrú fór á bókasafnið í sveitinni (þetta var á fyrri hluta síðustu aldar), þá sló hann um sig og bað um svo og svo mörg kíló af bókum, líkt og mjöl væri eða sykur. Menn þóttust vita að hann væri lítt eða ekki læs á bækur en þætti vegsauki að vera mikill bókamaður. Líklega einmitt vegna þess að hann var það ekki.
Ætli Akureyringar séu miklir bókamenn?
![]() |
Safngestir fengu 53 tonn að láni á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ingimundur Kjarval, sonarsonur meistarans, er helsti málsvari fjölskyldunnar í baráttunni um arfleifð gamla mannsins. Dómurinn um eignarréttinn á verkum Kjarvals, sem kveðinn var upp í undirrétti í gær, er ekki endanleg niðurstaða. Ef nokkrum manni er trúandi til þess að berjast fyrir einhverjum málstað fram í rauðan dauðann og kosta öllu til, þá er það Ingimundur Sveinsson Kjarval. Þjóðin fékk sýnishorn af honum í Kastljósinu í gærkvöldi og líka á Stöð2, skilst mér.
Um langan aldur hefur Ingimundur verið búsettur í Bandaríkjunum, þar sem hann stundar búskap. Eiginkona hans er listakonan Temma Bell, en foreldrar hennar voru hjónin Louisa Matthíasdóttir, einn af bestu og virtustu listmálurum sem íslenska þjóðin hefur alið, og bandaríski listmálarinn Leland Bell.
Ekki síst hefur Ingimundur Kjarval haldið tengslum við ættjörðina með skrifum sínum á Málefnunum, þar sem hann er meðal ötulustu blekbera. Líka bregður hann sér á Alvöruna, ef svo ber undir. Því fer þó fjarri, að á þessum spjallvefjum fjalli hann einkum um deiluna um verkin sem afi hans lét eftir sig. Ingimundur er þrasari af Guðs náð, leyfi ég mér að segja, og heldur í sumum efnum fram skoðunum sem fæstir eru sammála þannig afneitar hann gróðurhúsakenningunni, sbr. óteljandi innlegg hans í endalausri deilu á Málefnunum. En flestum er hlýtt til Ingimundar, að ég hygg, meira að segja stöku blaðamönnum. Það eru nú meiri ósköpin hvað honum er uppsigað við blaðamenn in solidum!
Ingimundur heldur úti heimasíðu, þar sem hann hefur dregið saman margvísleg gögn og upplýsingar varðandi þau verk meistara Kjarvals og ýmsa persónulega muni, sem Reykjavíkurborg telur sig eiga. Þar á meðal eru (skv. skráningu) silungsnet, færi, tjaldhælar, kork, baðskrúbbur, kertapakki, jólakaka, sellófónþráður, skrúfjárn, sagarblað, skæri, hnífapör og múrskeið, og þannig mætti lengi telja. Skjalfest er að reyndar var ýmsu hent á sínum tíma, og má þar nefna mölétna trefla, nokkur hálsbindi, ullarnærföt (talin ónýt), tóma sígarettupakka, tóma eldspýtnastokka, laufabrauð, rúsínupoka, fjallagrasapoka og sitthvað fleira. Eitthvað virðist skráningin á teikningum Kjarvals hafa verið ónákvæmari, hvað sem því kann að hafa valdið.
Ekki felli ég dóm í deilumáli erfingja meistara Kjarvals við Reykjavíkurborg. Hitt er víst, að Ingimundur á samúð mína alla í þeim efnum.
![]() |
Héraðsdómur telur sannað að Kjarval hafi gefið borginni teikningarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007
Áhrif mín á Moggabloggið
Rétt vika er frá því að ég byrjaði að blogga hér á mbl.is. Mér þótti rétt að kanna áhrif skrifa minna hér og leit þess vegna inn á vef Samræmdrar vefmælingar, þar sem aðsóknartölur eru birtar vikulega og jafnframt breytingar milli vikna í prósentum. Niðurstaðan er ótvíræð: Notendum á mbl.is hefur stórfækkað, innlitum hefur stórfækkað og flettingum hefur stórfækkað.
Skoði maður sundurliðun á einstökum undirvefjum Moggavefjarins, þá kemur í ljós, að hér munar mest um samdráttinn á blog.is, þar sem áhrifa minna gætir helst. Þar hefur notendum fækkað um 18% og innlitum um 27,1%.
Segið svo að ég sé ekki áhrifamikill bloggari, a.m.k. hvað fælingarmáttinn varðar ...
Núna er ég væntanlega búinn að skrúfa fyrir allar vonir um að komast í heiðursflokkinn sem róterast efst á bloggsíðunni ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.1.2007
Hörður flugmaður snýr aftur
Gaman að minn afgamli vinur og nánast jafnaldri Hörður Guðmundsson flugmaður skuli aftur vera farinn að fljúga um Vestfirði. Margar ferðirnar fór ég með honum í ýmsum veðrum til ýmissa staða í fjórðungnum hér fyrr á árum. Flugfélagið Ernir er gamalt fyrirtæki og annaðist í fjölda ára bæði póstflug (áætlunarflug) og sjúkraflug innan Vestfjarða. Síðan tóku við verkefni erlendis, einkum í Afríku, en núna er Hörður flugmaður sumsé kominn aftur heim. Return of Tarzan. Það er gott að muna afmælisdaginn hans á sjálfri Jónsmessunni.
Post scriptum: Flugfélagið Ernir ber nafn fjallsins Ernis milli Skutulsfjarðar og Arnardals við Ísafjarðardjúp (Ernir: hvassbrýnt fjall; líka til m.a. í Bolungarvík). Beygist því ekki eins og örn heldur er eignarfallið Ernis. Þversögnin er sú, að á ensku nefnist félagið Eagle Air, sem minnir óneitanlega á Arnarflug sáluga.
bb.is 03.01.07 Fyrsta flug Ernis á Gjögur
bb.is 28.12.06 Ernir fær nýja vél í dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007
Elliheimilið Vestfirðir
Bloggar | Breytt 3.1.2007 kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.1.2007
Það sem er allra best ...
Mér leiðast heldur sprengingarnar og lætin á gamlárskvöld. Þetta er eitthvað svo yfirdrifið. En látum vera þó að þetta stæði bara í hálftíma eða svo kringum miðnættið, sjálf áramótin. Ekki þarf ég samt að kvarta yfir gamlárskvöldinu hér vel frambærilegur djöfulgangur í stuttan tíma á réttum tíma og síðan ekki söguna meir. Auk þess er ég verulega farinn að missa heyrn, sem betur fer. Drottinn leggur líkn með þraut, eins og þar stendur.
Ég var að hugsa það í gærkvöldi ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann á lífsleiðinni keypt flugelda. Hef aldrei haft áhuga. Komst líklega næst því þegar ég keypti hurðasprengjur í utanlandsferð fyrir kannski þrjátíu árum og notaði þær með útsmognum og kvikindislegum hætti á vinnustað.
Frá æsku minni á ég samt góðar minningar um gamlárskvöldin gríðarlega ljósadýrð í hæfilegri fjarlægð, þannig að hljóðið var klippt frá, ef svo má segja. Þá átti ég heima uppi í Mosfellssveit, sem núna er ekki lengur sveit, og höfuðborgin passlega langt í burtu.
Líka er mér minnisstæð prýðileg flugeldasýning á Ísafirði fyrir kannski tíu árum, man það ekki nákvæmlega. Hún hafði ekki einungis þann kost að ekkert heyrðist það sást nánast ekkert heldur. Stórfjölskylda frá Suður-Ameríku hafði komið í heimsókn til að skoða tengdasoninn (Össur Valdimarsson) og þegar þau voru á förum ákvað hann að efna til flugeldasýningar. Ekki veit ég hvort þetta var tengdafólkinu til heiðurs eða hvort hann var svona feginn að þau voru að fara.
Nema hvað eins og alltaf er sagt á þessum stað í frásögnum Össur fór með flugeldana upp á Gleiðarhjalla í fjallinu ofan við bæinn og skaut þeim upp hverjum af öðrum, að manni skildist. Að manni skildist, segi ég, því að við áhorfendur (hann var búinn að láta fjölmiðla vita) sáum nánast ekkert utan hvað greina mátti örsmáa mannveruna þarna í fimm hundruð metra hæð í fjallinu eða svo. Þetta var um hásumar í glaðasólskini um miðjan dag.
Það er eins og ég segi þegar flugeldar eru annars vegar, þá er næstbest að heyra ekki neitt. Allra best er að sjá ekkert heldur.
Gildir ekki bara um flugeldasýningar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)