Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
31.3.2007
Fagnaðarfundir þessa heims og annars
Hundurinn Dexter fagnar mér líkt og fótboltamaður marki þegar ég kem heim. Þvílík læti! Þvílíkur fögnuður! Munurinn er sá, að enginn fékk á sig mark og þess vegna er enginn vonsvikinn. Kötturinn Helga Guðrún Geirdal gleðst líka en á langtum hófsamari hátt. Eitthvað svipað og þegar forsetinn rís úr sæti og klappar fyrir marki í landsleik.
Ég má til að vekja athygli á ljósmyndabloggi sem ég rakst á núna áðan. Aldeilis frábærar myndir! Ekki þekki ég höfundinn, sem heitir Halldór Sigurðsson. Þarna getur m.a. að líta mynd af kirkjustaðnum forna og nýja Mosfelli í Mosfellssveit. Í garðinum á Mosfelli höfum við heima verið jörðuð í marga mannsaldra. Þar verða líka fagnaðarfundir öðru hverju.
Það var bankað hjá mér áðan. Úti var hópur af krökkum úr Reykhólaskóla ásamt Ástu Sjöfn kennara. Erindið? Að gefa mér köku! Við hana voru festir tveir miðar. Á öðrum stendur: Til Hlyns, frá krökkunum í Reykhólaskóla. Á hinum: Hamingjan er ómetanleg en kostar ekkert. Þar er líka teiknuð andlitsmynd sem kannski á að vera af mér. Minnir samt frekar á brosandi kött, að mér finnst. Ef til vill minni ég sjálfur á brosandi kött. Ekki þætti mér það neitt slæmt, síður en svo!
Já, núna er þemavika í Reykhólaskóla og nemendurnir biðja íbúa Reykhólahrepps um liðveislu í því að gera okkar góða samfélag enn betra. Krakkanir minna okkur meðal annars á að við getum boðið góðan dag með bros á vör, hjálpað öðrum, tekið tillit til annarra, verið jákvæð og látið hjá líða að kvarta að óþörfu. Og ekki síst: Við getum látið fólk vita að okkur þyki vænt um það.
Því má bæta við, að ég er ekki alls ókunnugur samfélaginu góða í Reykhólahreppi. Það er einmitt helsta ástæða þess, að ég er kominn hingað aftur og sestur hér að á ný eftir meira en aldarfjórðungs fjarveru.
Núna ætla ég að fá mér kökubita og hugsa á meðan til vina minna og ættingja í Reykhólaþorpi og um allan Reykhólahrepp að fornu og nýju. Mér þykir vænt um Reykhólasveitina og héraðið allt, ættarslóðir móður minnar. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn og afmælisdagurinn hennar var í gær.
30.1.2007
Með tetanus í höfðinu
Kisa beit mig í gærmorgun; auk þess er ég illa klóraður. Varla voru liðnar tíu mínútur þegar ég hringdi á heilsugæslustöðina í Búðardal og spurði eftir lækninum. Mér var sagt að hann yrði með viðtalstíma hér á Reykhólum síðdegis. Takk, skrifaðu mig niður, sagði ég, en þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi.
Mér hefur staðið stuggur af tetanusi - stífkrampa - allt frá unglingsárum þegar hann kom við sögu í námsefninu hjá Örnólfi Thorlaciusi. Svo virðist hann hafa magnast í höfðinu á mér með tímanum. Ég hef alltaf tekið sérlega vel eftir tetanustilfellum í frásögnum og kvikmyndum, nú síðast í bresku gamanþáttunum af geðstirða sveitalækninum í Sjónvarpinu í vetur.
Tilvitnuð orð mín, mælt af rósemi þess manns sem hefur séð Róm og mætir dauða sínum óvílinn - þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi - urðu til þess að ég fékk ég forgangsþjónustu og bæði pensilín og stífkrampasprautu. Og er enn á lífi, hvað sem síðar verður.
Það var ekkert persónulegt þegar kisa beit mig og klóraði. Forsaga og málavextir eru sem hér segir:
Erla dóttir mín kom í nokkurra daga heimsókn ásamt hundi sínum, Dexter að nafni. Þegar hún fer aftur verður hundurinn eftir í fóstri fram á vorið. En það er þetta með hund og kött. Dexter er vanur köttum og hinn ljúfasti, en kisa mín - Helga Guðrún Geirdal fulltrúi - er alls óvön hundum. Og bregst hin versta við. Nema hvað, í gærmorgun var ég með hana í fanginu og færði mig smátt og smátt nær hundinum sem ég króaði af úti í horni - hann var smeykur - og reyndi að tala á milli þeirra líkt og prestur á milli hjóna. Þetta gekk vandræðalítið uns varla var nema spönn milli trýnanna. Kisa var að vísu síurrandi inni í sér. Þá hreyfði hundurinn sig ógætilega og kisa breyttist á sekúndubroti í ægilegt óargadýr. Grimmdarhljóðið í ketti við þessar aðstæður er skelfilegt. Ég varð höndum seinni að sleppa kisu og áður en varði var hún allt í senn búin að klóra mig til blóðs, bíta mig á kaf í höndina og horfin á braut.
Við Dexter sátum eftir og hugsuðum líklega báðir það sama: Tetanus!
Mér leið betur þegar ég var búinn að fá sprautuna. Ekki í hendinni heldur sálinni. Svo gúglaði ég tetanus. Wikipedia segir m.a.: The incubation period of tetanus ranges from 3 to 21 days, with an average onset of clinical presentation of symptoms in 8 days. Og ég hugsaði með mér: Kannski hef ég verið aðeins of dramatískur. Wikipedia segir líka: The highest mortality rates are in unvaccinated persons and persons over 60 years of age. Og þá leið mér enn betur: Ég verð ekki kominn yfir 60 years of age fyrr en eftir mánuð.
Núna verður mér hugsað til Þorgils Arasonar forvera míns hér á Reykhólum, sem gat haldið samtímis heilan vetur vandræðalaust Gretti Ásmundarson og þá fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kolbrúnarskáld. Ætli mér sé vandara að þreyja þorra og góu með einn hund og einn kött?
16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.1.2007
Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti
Kisa er komin heim - birtist í gærkvöldi eins og ekkert væri. Ég sem var farinn að taka saman í huganum punkta í minningargrein. Mikið ósköp getur ein lítil manneskja eins og ég glaðst yfir endurheimt eins lítils kattar! Ég hefði slátrað alikálfi hefði ég átt hann.
Ég sem á ekki svo mikið sem alimús.
Það var á föstudagsmorguninn sem kisa fór út að ganga eins og venjulega. Brátt fór að snjóa þessi ósköp. Tíminn leið og ekki kom kisa. Öðru hverju fór ég út í dyrnar og klappaði saman lófunum. Kisa veit að það er merki þess að núna sé matur. En ekki kom kisa.
Eldsnemma á laugardagsmorguninn rölti ég um göturnar hér í þorpinu og klappaði saman lófunum. Ekki veit ég hvort nokkur hefur séð til mín. Að minnsta kosti hefur enginn haft orð á því við mig. Kurteisar manneskjur, fólkið hérna á Reykhólum. En ekki kom kisa.
Á sunnudaginn var fólk að dreifa fuglakorni í görðum sínum hvarvetna. Munið eftir smáfuglunum í vetrarhörkunum og allt það. Ég fór út í garð og dreifði kattamat, og komst að því að snjótittlingar éta kattamat. Sjálfir geta þeir verið kattamatur, bölvaðir! En ekki kom kisa.
Í gær var mánudagur. Eins og kunnugt er, þá geta mánudagar verið erfiðir. Þetta var sérstaklega erfiður mánudagur. Minningarnar um kisu hrönnuðust upp. Ég fór út með meiri kattamat og klappaði saman lófunum, og fældi með því snjótittlingana. En ekki kom kisa.
Aldrei hefur nokkur maður gáð eins oft hvort hann sæi ekki lítil spor í mjöllinni. Spor eftir hvíta kisu í hvítri mjöll. Hvít spor. Þeir verða að missa sem eiga. Enginn finna okkur má / undir fannahjarni / dagana þrjá yfir dauðum ná / dapur sat hann Bjarni.
En ekki kom kisa.
Síðdegis í gær þurfti ég að fara að heiman. Þegar ég kom aftur seint í gærkvöldi fór ég strax að gá að sporum í snjónum. Og þarna voru þau! Kisa kúrði inni á sínum stað og teygði sig alla og geispaði öll þegar ég kom til hennar. Virtist ekkert svöng, enda líklega nógur kattamatur í garðinum.
Þegar kisa var almennilega vöknuð og nógu teygð og nógu geispuð gaf ég henni lifrarkæfu og rjóma. Svo kúrði hún í fanginu á mér dálitla stund áður en hún fór að leika sér að pappírsmús, á milli þess sem hún nuddaði sér utan í lappirnar á mér. Merkilegt að það skuli ekki verða þverfótað fyrir einum litlum ketti í heilu húsi!
Núna er mér aftur orðið hlýtt. Dyrnar út í garðinn voru opnar í fjóra daga og þrjár nætur, nógu mikið opnar fyrir hvítan kött.
Einhvern tímann um daginn kynnti ég kisu hér á blogginu. Leyfi mér að gera það aftur. Kisa er bjartleit og falleg. Þess vegna heitir hún Helga Guðrún. Hún er úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Þess vegna heitir hún fullu nafni Helga Guðrún Geirdal.
Stöðuheiti Helgu Guðrúnar Geirdal er fulltrúi. Hún er fulltrúi alls þess fólks og allra þeirra dýra sem mér hefur þótt vænt um á lífsleiðinni. Þegar ég gef henni lifrarkæfu og rjóma, þá er ég líka að gefa þeim lifrarkæfu og rjóma.
Mér hefur liðið bölvanlega þessa daga sem kisa var fjarri. Minntist samdægurs á það hér á blogginu að kisa hefði ekki skilað sér. Það var áður en ég fór að óttast um hana. En svo bloggaði ég ekki um hana söguna meir. Ég lét mér nægja að blogga um ómerkilega hluti eins og heimsfriðinn og Kárahnjúkavirkjun og reyta af mér brandara eins og fólk gerir alltaf þegar því líður illa.
Dularfulla kattarhvarfið verður sennilega aldrei upplýst, frekar en aðrar góðar gátur. Í huganum leitaði ég ýmissa skýringa. Kannski hafði hún verið að eltast við snjótittlinga og nýfallinn snjórinn orðið til þess að hún rataði ekki heim aftur. Kannski hafði góðhjartað fólk skotið yfir hana skjólshúsi. Kannski hafði hún hrakist niður á gámasvæði og leitað þar skjóls og músa. Kannski hafði örninn tekið hana.
Og hver er svo lærdómurinn af þessari sögu? Sosum enginn. Ég er orðinn fullgamall til að draga lærdóma. Nema kannski þann, hvað maður getur verið lítill í sér þegar köttur týnist. Eiginlega ekki stærri en mús.
Núna sefur Helga Guðrún Geirdal fulltrúi og veit ekki að hún er einni lítilli manneskju kærari en heimsfriðurinn og víðerni öræfanna. Ég ætla að gefa henni lifrarkæfu og rjóma þegar hún vaknar.
Fyrri blogg um kisu:
12.01.07 Niðurlag vantar
07.01.07 Dinner for two
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 05:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.1.2007
Dinner for two
Kisa virðist efnilegur veiðiköttur. Í útivistartímanum sínum í fyrradag kom hún með nýveiddan fugl upp að húsinu og át hann að mestu sjálf, eins og fiðrið út um allt bar vitni um. Færði mér reyndar annan vænginn - kom með hann inn og lagði við fætur mér. Kannski var þetta fyrsta bráðin hennar.
Kisan er líklega eitthvað um hálfs árs gömul, úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Hún er ljós yfirlitum og ákaflega andlitsfríð og heitir þess vegna Helga Guðrún. Helga Guðrún Geirdal. Fyrir jólin fékk hún kattafárssprautu og ormalyf. Pilluna fær hún vikulega. Nú vantar ekkert nema bjöllu á hana.
Ekki skortir að kisa fái nógu mikið og gott að éta. Úrvals kattamat frá útlöndum, ýmist þurrmat eða jukk úr dósum og pokum. Samt vill hún miklu frekar mannamat og étur þá allt. Bölvaður kötturinn étur allt, eins og þar stendur. Meira að segja kartöflur.
Þetta er alveg eins og var með köttinn okkar Anette minnar í gamla daga. Kisan sú hét Mulemulemuschmuschmusch, kölluð Mulemusch eða bara Muschi, og var frá Túni skammt frá Selfossi. Við fengum hana örsmáan kettling og höfðum hana í skúringafötu í bílnum á leiðinni til Reykjavíkur. Mulemusch vildi alltaf éta það sem við vorum að éta og þótti allt betra en kattamatur. Hún skildi ekki íslensku enda var eingöngu töluð þýska á heimilinu. Stundum fórum við í handbolta. Hún var í markinu og skutlaði sér til að verja.
Þau urðu endalok Mulemusch, að hún fékk sprautu hjá dýralækni til þess að verða ekki breima, en við það bólgnuðu júgrin á henni og dýralæknirinn sagði að það yrði að svæfa hana. Þann dag allan lá ég í rúminu grátandi, maður kominn hátt á þrítugsaldur. Enda náskyldur séra Matthíasi.
Gaman verður að éta kæstan hákarl með Helgu Guðrúnu á þorranum. Þá held ég sú murri, þangað til værðin að máltíð lokinni slekkur á mulningsvélinni. Í svefninum fara kippir um kampana. Þá er hana líklega að dreyma spennandi fuglaveiðar. Eða kartöflur.
Vinir og fjölskylda | Breytt 8.1.2007 kl. 05:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)