Færsluflokkur: Bækur

Vistheimilið í Breiðavík - fleiri hliðar

Mannlíf og saga, Breiðavík 1Hljóðnað hefur um Breiðavíkurmál að sinni. Óþarfi er að rekja hér þau skelfilegu tíðindi sem vöktu íslenskt samfélag af værum blundi; þau eru enn í fersku minni. Nú er komið út svolítið bókarkver um Vistheimili drengja í Breiðavík frá stofnun þess árið 1952 og fram til 1964. Hér er á ferðinni 20. heftið í ritröðinni Mannlíf og saga fyrir vestan, sem Vestfirska forlagið gefur út. Að jafnaði koma út tvö til þrjú hefti á ári með blönduðu efni af ýmsu tagi, en í þessu tilviki er viðfangsefnið aðeins eitt: Vistheimilið í Breiðavík, upphaf þess og saga, deilur á opinberum vettvangi um markmið og leiðir, líf og starf drengjanna og fullorðna fólksins á heimilinu, minningar frá vistinni í Breiðavík.

 

Í þessari samantekt er reynt að skoða Breiðavíkurheimilið frá sem flestum hliðum, bæði kosti þess og galla. Hér virðist sem oftar, að jafnan eru ýmsar hliðar á hverju máli.                     

                                        

Þess má geta, að útgefandanum Hallgrími Sveinssyni er málið skylt. Hann var forstöðumaður í Breiðavík á árunum 1962-64, þá liðlega tvítugur að aldri og fyrir skömmu útskrifaður úr Kennaraskólanum. Eftir dvölina í Breiðavík var hann staðarhaldari og bóndi á Hrafnseyri við Arnarfjörð (Safn Jóns Sigurðssonar) í liðlega 40 ár og jafnframt kennari og skólastjóri á Þingeyri í nokkra áratugi. Rætt var við Hallgrím í Kastljósi Sjónvarpsins í tilefni Breiðavíkurmála á sínum tíma.

                            

Mannlíf og saga, Breiðavík 2Hallgrímur Sveinsson segir af þessu tilefni:

                  

Þegar uppbygging og rekstur heimilisins í Breiðavík hófst árið 1952 voru aðrar aðstæður í þjóðfélaginu en nú. Tímarnir eru gjörbreyttir, einkum hvað efnislegum gæðum viðkemur og öllum ytri aðstæðum. Það vita allir. Ef menn ætluðu að stofnsetja sambærilegt heimili í dag mundi sjálfsagt enginn láta sér detta í hug að staðsetja það á vestasta tanga Íslands í afskekktri sveit. En á þeim dögum þótti sjálfsagt úrræði fyrir börn og unglinga í þéttbýli, sem áttu erfitt uppdráttar af einhverjum ástæðum og höfðu kannski lent í útistöðum við yfirvöld, að skipta um umhverfi. Raunar voru fá önnur úrræði til á þeim tíma. Margir voru sendir í sveit sem kallað var og það ekki síður á afskekkt heimili en önnur og lánaðist oft mjög vel.           

                        

Eftir á að hyggja er þess ekki að dyljast, að margt orkar tvímælis í sambandi við Breiðavíkurheimilið. Það er til dæmis sárt til þess að hugsa og eiginlega óskiljanlegt, að engin eftirmeðferð var í gangi til að styðja þá drengi og styrkja sem frá Breiðavík útskrifuðust og höfðu hlotið þar góða undirstöðu í mannlegum samskiptum, minnsta kosti á þeim tíma sem hér er til umræðu. Margra þeirra beið gatan og sama umhverfi og þeir höfðu komið úr þegar þeir voru sendir vestur. Í því efni er ábyrgð stjórnvalda mikil.               

                

Þess má geta, að í snemma í febrúar skrifaði ég hér bloggfærslu sem bar heitið Fleiri hliðar á Breiðavíkurmálum.

 

Ég er lítill tréhestur

Merkilegt hvernig maður getur tekið ævilöngu ástfóstri við bækur. Eða eitthvað annað. Nánast upp úr þurru. Mér þykir einna vænst um Ævintýri litla tréhestsins af öllum bókum sem ég hef eignast og hef lesið hana misreglulega síðustu hálfa öldina eða svo. Ef ég ætti að velja eina bók til að hafa með mér á eyðieyju, eða yfir í eilífðina, þá tæki ég hana. Næst kæmi Candide / Birtíngur í þýðingu Kiljans - og með formálsorðum hans! Ef ég mætti hafa enn fleiri rit með mér, þá kæmu m.a. þessi - í óvissri röð: Egils saga, bækurnar um Tom Swift, Passíusálmarnir, Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton, Hávamál, Innansveitarkróníka, Sögukaflar af sjálfum mér eftir séra Matthías ...

 

Tarna er undarleg upptalning! Mér skilst að bækurnar eftir Enid Blyton séu einstaklega vondar bókmenntir. Bækurnar um Tom Swift jafnvel enn verri. En væntumþykja hlítir ekki alltaf rökum, allra síst bókmenntafræðilegum rökum.

 

Í gamla daga hlakkaði ég til þess að leggja stund á íslensku við Háskóla Íslands. Byrjaði þar samhliða námi í sagnfræði. En vonbrigðin urðu skelfileg. Á öðrum vetri í íslenskunni labbaði ég út og kom þar aldrei síðan. Að vísu hafði ég ekkert yfir málfræðinni og málsögunni að kvarta; mér fannst t.d. bæði fróðlegt og ákaflega skemmtilegt að kynnast gotneskunni. En bókmenntakennslan! Ég labbaði á dyr með þau orð á vörum, að ég kærði mig ekkert um að láta segja mér hvernig ég ætti að skynja tiltekin skáldverk. Að vísu var ég á menntaskólaárum búinn að kynnast steingeldum stöglurum á borð við Magnús Finnbogason magister og Bjarna Guðnason - en ég hélt að annað tæki við í háskóla að þeirri afplánun lokinni.

 

Ég hafði minn skilning, mína skynjun, á bókum sem ég hafði lesið í æsku og þótti vænt um, ég hafði í huga mér skapað mér mína eigin mynd af persónum og umhverfi - en núna komu tilskipanir um staðlaðan og samræmdan skilning sem allir yrðu að hafa til að ná prófum. Þegar ég fékk fyrirskipun um það hvernig ég ætti að skynja persónurnar í Manni og konu upp á nýtt, þá labbaði ég út. Tók síðan tvö stig í þýsku til að fylla upp í BA-prófið með sagnfræðinni samkvæmt sex stiga kerfinu sem þá var við lýði.

 

En aftur að litla tréhestinum og ævintýrum hans. Höfundurinn er Ursula Moray Williams, tvíburasystir Barböru Árnason. Þegar bókin kom í huga mér núna áðan, þegar ég las fréttina sem vísað er til hér að neðan, sló ég nafnið Ursula Moray Williams inn í leitarvélina Emblu til að finna íslenskar heimildir um hana. Og fékk þetta:

 

Leitað að Ursula Moray Williams

                        

Áttirðu við rusula moran Williams?

                                   

Nei, ég átti ekki við rusula moran Williams. Ég átti við Ursula Moray Williams eins og ég hélt að lægi fyrir. Merkilegar þessar bjánaspurningar sem maður fær iðulega í svarastað hjá leitarvélinni Emblu. Því næst notaði ég google.com og fékk mikið efni í hendurnar. Ursula Moray Williams lifði allt fram á þennan vetur, kom mér á óvart; dó um miðjan október, 95 ára að aldri. Bendi hér aðeins á dánarminningu í The Guardian.

 

Ég er litli tréhesturinn.

 
mbl.is Hroki og hleypidómar uppáhaldsbók breskra lesenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stromboli og Snæfellsjökull

Enn gýs Stromboli en Snæfellsjökull ekki. Eyjan Stromboli er eldkeila sem teygir blátoppinn upp úr sjónum norðan við Sikiley, rétt við tána á Ítalíuskaga. Hún er eitt af virkustu eldfjöllum jarðar um aldir og árþúsund og sosum nógu fræg sem slík. En hún er líka þekkt úr vísindaskáldsögunni Ferðinni í iður jarðar (Voyage au centre de la Terre) eftir Jules Verne. Þar greinir frá þýskum prófessor, Lidenbrock að nafni, sem kemur til Íslands og bregður sér ásamt frænda sínum og innfæddum leiðsögumanni (æðarbónda og þar með fyrirrennara Jónasar í Æðey, Jóns Sveinssonar sjóliðsforingja á Miðhúsum í Reykhólasveit og margra fleiri góðra manna) í könnunarleiðangur niður um eldfjallið gamla Snæfell á Snæfellsnesi (Snæfellsjökull). Eftir gríðarleg ævintýri, eins og jafnan í sögunum eftir Jules Verne, spýtast þeir að lokum upp um gíginn á Stromboli og allt fer vel, eins og vera ber.

 
mbl.is Neyðarástand á Stromboli; hraun flæðir úr tveim sprungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband