Færsluflokkur: Matur og drykkur

Byltingarkenndar hugmyndir varðandi bragðbætt lambakjöt

 

Mér líst vel á hugmyndina um lambakjöt með hvannarkeim. Enn er mér í fersku minni hversu einstaklega ljúffengt íslenska hvannarótarbrennivínið var. Flestir drukku það einungis bragðsins vegna. Í framhaldi af fyrstu rabarbarasultugerðartilraun minni fyrir skömmu ætla ég hér á eftir að leggja fram tillögu að frekari bragðbótum á íslenska lambinu.

 

En fyrst varðandi rabarbarasultugerðina. Hér í Reykhólasveitinni er mikið um rabarbara, sem nefnist á íslensku tröllasúra. Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá húseigandanum að Hellisbraut 18 á Reykhólum til að höggva mér nokkra tröllasúruboli til sultugerðar. Á netinu fann ég þrjár uppskriftir og bar þeim að mestu saman. Tvennt var sagt eiga að vera í sultunni, rabarbari og sykur, og álíka mikið af hvoru. Þetta skyldi sjóða í hálftíma til klukkutíma.

 

Ég brytjaði niður tíu kíló af rabarbara og setti í ógurlegan pott sem ég fékk lánaðan ásamt jafnþyngd af sykri. Ég var búinn að kaupa sykurinn smátt og smátt á löngum tíma svo að Jón kaupmaður héldi ekki að ég væri að fara að brugga. Ekki leist mér á að sjóða þetta þurrt og taldi að í uppskriftunum væri ekki verið að taka fram svo augljósa hluti eins og vatn. Ég bætti vatni í pottinn og lét fljóta vel yfir og kveikti undir og hrærði í öðru hverju. Eftir klukkutíma, þann tíma sem lengstur var tilgreindur í uppskriftunum, var í pottinum þunn og fagurgræn súpa, alls ólík venjulegri rabarbarasultu sem er seigþykk og mjög dökk.

 

Eftir klukkutímasuðu í viðbót slökkti ég undir súpunni og hringdi í konu sem ég þekki og spurði ráða. Hún sagði að það ætti ekki að nota neitt aukavatn, það kæmi nóg vatn úr rabarbaranum. Best væri að láta rabarbarann og sykurinn liggja saman í pottinum yfir nótt áður en soðið væri. Úr því sem komið væri ætti ég tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að borða rabarbarasúpu í allt sumar og hins vegar að sjóða þetta niður við mjög lítinn hita.

 

Ég tók seinni kostinn enda var ætlunin að búa til sultu en ekki að lifa á rabarbarasúpu fram á haust. Þetta var á miðvikudegi. Ég sauð þetta áfram við minnsta hita og hrærði í tvisvar á dag að jafnaði og borðaði rabarbarasúpu og síðan rabarbaragraut tvisvar á dag að jafnaði. Á laugardagsmorgni var loksins orðin til prýðileg rabarbarasulta, dökkgljáandi og hnausþykk, en verulega hafði lækkað í pottinum og komnir í hann eins konar árhringir.

 

Í uppskriftunum var sagt að þegar sultan væri sett í krukkur ætti að láta smávegis edik eða koníak eða þvíumlíkt ofan á sultuna áður en krukkunum væri lokað. Koníakið sem ég var búinn að útvega til þessara nota - ég vissi ekki hvað þyrfti mikið svo að ég pantaði þrjár flöskur til að vera viss - kláraðist hins vegar daginn áður þannig að ég keypti edik í Jónsbúð til að setja ofan á áður en ég lokaði krukkunum. Koníakið er búið, sífelldur gestagangur, sagði ég til útskýringar þegar ég keypti edikið. Jón kaupmaður horfði á mig en sagði ekkert.

 

Þetta var örstutt innskot um rabarbarasultugerðina sem kveikti hugmyndina að bragðbættu lambakjöti á fleiri vegu en með því að ala lömbin á hvönn.

 

Í æsku minni var á sunnudögum lambasteik með brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Enn í dag er þetta það besta sem ég get hugsað mér, ásamt hvannarótarbrennivíninu. Eftir að ég varð einn fæ ég þennan uppáhaldsrétt minn hins vegar aldrei. Ég er löngu hættur að reyna að brúna kartöflur eða búa til sósu. Ég veit ekki um neinn annan sem hefur meira að segja mistekist að sjóða kartöflur. Nema kannski Jóhannes Birkiland.

 

Byltingarkennd hugmynd mín í framhaldi af hvannarótarlambakjötshugmyndinni er þessi: Lambakjöt með bragði af brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Hún er svona í praxís: Ala lömbin á brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Á góðum degi gæti jafnvel ég eldað þetta. Setja bara lærið í ofn og hafa það þar inni í tilskilinn tíma við tilskilinn hita. Síðan borið á borð, tilbúið, verði ykkur að góðu!

 

Samt er ég ekki alveg viss, svona innra með mér. Við vitum það báðir, Birkiland og ég, að sitt er hvort, teoría og praxís.

 

Einkum er það praxísinn sem hefur vafist fyrir okkur.

 

P.s.: Hvernig væri að gefa lömbunum hvannarótarbrennivín?

 

P.p.s.: Eitthvað finnst mér skrítið við fyrirsögnina á viðtengdri frétt. Áður en smellt er á hana er hún svona: Tilraun til að bragðbæta lambakjöt með hvönn. Þegar smellt er á fulla frétt breytist hún hins vegar og verður svona: Riðuveiki fannst í kindarhræi á afrétti.

 

P.p.p.s.: Það er meira andskotans mausið við að koma texta óbrengluðum hér inn. Það er t.d. eins konar rúlletta hvenær öll greinaskil detta út og hvenær ekki, eða sum greinaskil og önnur ekki, eða hvenær maður kemst inn aftur til að reyna að laga það sem aflaga hefur farið og hvenær ekki  ...

- - -

 

Núna í fjórðu tilraun líta greinaskilin svona út. Ég held að ég fari að láta viðskiptum mínum við Moggabloggið lokið. Það eru til aðrir bloggvefir þar sem menn eru ekki í misheppnuðum tilraunum að finna upp hjólið. - Fyrir nú utan það, að tengingin við fréttina kemur ekki. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að tengja við hana og drap því textann út og setti hann inn aftur. En það er eins og áður.


„Íslenskar kartöflur“ eru óboðlegt rusl

Íslenskar kartöflurÞar sem ég versla eru kartöflur venjulega merktar framleiðanda með einhverjum hætti, innlendar jafnt sem útlendar. Jafnan eru pokarnir glærir og vel hægt að sjá innihaldið og yfirleitt eru þetta prýðilegar kartöflur.

 

Í gær varð ég fyrir því óhappi að kaupa kartöflupoka sem einungis var merktur Íslenskar kartöflur. Ekki er frekari grein gerð fyrir framleiðanda, þannig að ætla má að þetta séu dæmigerðar íslenskar kartöflur. Pokinn er úr rauðu plasti sem villir svo um, að ástand innihaldsins kemur ekki almennilega í ljós fyrr en það er tekið úr umbúðunum.

 

Enda skiljanlegt að framleiðandinn skuli ekki vilja að innihaldið sjáist almennilega fyrr en um seinan. Líka skiljanlegt að hann skuli ekki vilja láta nafns síns getið. Þetta er óætt rusl, skorpið og skemmt, og þarf ekki fleiri orð.

 

Ég leyfi mér að vara við kaupum á „íslenskum kartöflum“. Reyndar finnst mér það ósvífni að merkja vöruna, ef vöru skyldi kalla, með þessum hætti. Ósvífni gagnvart öllum þeim sem rækta góðar kartöflur hérlendis.

 

Bjórmaður keypti límonaði

Clooney hefur líklega orðið þyrstur við tökurnar á Leatherheads - a romantic comedy set in the world of 1920s football (The Internet Movie Database) - þar sem hann er í senn leikstjóri, handritshöfundur og leikari í aðalhlutverki á móti Renée Zellweger. Clooney mun ekki slá hendinni á móti bjór þó að hann hafi fengið sér límonaði að þessu sinni. Eða eins og segir í postillunni IMDb: He loves beer. He does voiceovers for Budweiser TV commercials and allegedly had a beer keg installed in his dressing room during filming of Ocean's Eleven (2001) ...

 

Að öðru leyti sit ég hér með hálfvitasvip og velti fyrir mér helstu frétt helstu fjölmiðla veraldar þessa dagana og bloggefni mínu að þessu sinni.

   
mbl.is Clooney greiddi 1.300 krónur fyrir glas af límonaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband