Inngangur að dýrafræði bloggheimsins

Alltaf er maður að kynnast nýjum veröldum. Meira að segja á gamals aldri. Bloggið er ein veröldin enn. Ekki grunaði mig fyrir mánuði að ég ætti eftir að gerast bloggari. Einhvern veginn fannst mér þetta bara vera fyrir ungt fólk. Auk þess einhver bölvuð vitleysa. Sem það auðvitað er.

 

Reyndar eru nokkur ár síðan*) ég fór að kjafta á Málefnunum. Slíkir vefir eru eins konar hálfbræður blogganna. Svipaðir en þó allt öðruvísi. Mér hefur þótt gaman að skreppa öðru hverju inn á Málefnin og taka þátt í spjallinu. Að vísu hef ég fátt lagt þar til málanna af neinu viti. Enda er þess ekki krafist. Og verður síst krafist af mér.

 

Mjög fáir nota sín réttu nöfn á Málefnunum. Nafnleysið veitir visst frelsi, gefur kost á sleggjudómum og ábyrgðarleysi. Samt er það sjaldgæft að hlutirnir fari úr böndunum. Í samfélagi Málefnanna þekkja nánast allir alla - þar á ég við karakterana sem birtast en ekki fólkið að baki þeim - og samfélagið bregst við þegar einhver fer að haga sér illa. Líka er eins konar öryggislögregla á vakt en er sjaldan kölluð til.

 

Mér er hlýtt til Málefnanna og fólksins sem þar kemur saman. Þetta er mjög sundurleitur hópur, sem betur fer. Skelfing væri leiðinlegt ef öll vitleysan væri eins.

 

Aftur að blogginu. Hérna byrjaði ég að bulla milli jóla og nýárs. Nánast óforvarendis, rétt eins og þegar ég smakkaði selkjöt í fyrsta sinn, þá kominn vel á fertugsaldur.

 

Ég hef velt þessari nýju veröld talsvert mikið fyrir mér síðustu vikurnar. Stúderað svolítið karakterana og hvað þeir hafast að og tilganginn sem fyrir þeim vakir. Þar kennir ýmissa grasa, að ekki sé meira sagt. Sumir eru mjög persónulegir og blogga eingöngu um daglegt amstur, aðrir gersamlega ópersónulegir og rita leiðara um stjórnmálaviðhorfið. Og allt þar á milli. Kannski reyni ég á næstunni að vinna úr þeim minnispunktum sem ég hef krotað hjá mér um tegundir bloggara, einkenni þeirra og hegðunarmynstur. Gæti kannski stuðst við flokkunarkerfi Linnés.

 

Ekki er ég viss um að svokallaðar vinsældir hér á Moggabloggi segi alltaf mikið um innihald og framsetningu. Þar eru miklu frekar önnur öfl að verki. Ég leyfi mér að nefna hér bloggara sem er í einu af efstu sætunum í mínum huga þó að hér þekki hann fáir, vin minn Katanesdýrið, sem er læknir í Miðvestrinu í Bandaríkjunum. Mikið finnst mér gaman að hann skuli vera farinn að blogga og notalegt að líta inn til hans.

         

            

*) Hortitturinn síðan getur verið fremur leiðinlegur, rétt eins og hortittir eru venjulega í máli þeirra sem kunna ekki að nota þá - þeirra sem hafa málið ekki nægilega vel á valdi sínu. Af einhverri tilviljun lenti einmitt þessi hortittur einna efst á vinsældalista bannorða í íslenskukennslu. Margar kynslóðir lærðu að það væri danska og ljótt að segja síðan. Og það er með þetta eins og annað sem lært er án skilnings - það er stundum tekið of bókstaflega. Ég var raunar alveg gáttaður þegar ég heyrði fyrst orðalagið frá í gær í Ríkisútvarpinu. Og hugsaði með mér: Þarna hefur hortitturinn síðan lent á einhverjum bannorðalista hjá málfarsráðunautnum; því miður hefur honum láðst að útskýra mál sitt nægilega vel. Þess vegna hefur skandallinn frá í gær orðið til - forsetning stýrir forsetningarlið, eða hvað í ósköpunum sem ætti að kalla þetta. Í orðasambandinu síðan í gær er orðið síðan hreint ekki neinn hortittur. Þegar sagt er fyrir löngu síðan er það hins vegar sá hortittur sem spjótunum var beint að. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Þakka vingjarnleg orð í garð dýrs nokkurs er áður hrelldi bændur íslenska en hrellir nú bændur af skandinavískum uppruna, þá er búa í Minnisóta. 

Merkileg eru Málefnin og hafa þau oftsinnis hjálpað mér við ventíleringu aðskiljanlegustu frústrasjóna. Það er og merkilegt að hugsa til þess að burthvarf kærra Málverja geti framkallað e.k. Málverjamissis-angst sem nagar sálina. Mikið verður maður svo glaður er þeir birtast á ný.  

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 18.1.2007 kl. 04:03

2 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já nafnleysið hefur komið það mikið við kaunin á sumum að þeir hafa komið óorði á nafnleysis-kerfið. Að allt í einu sé bara hægt að gagnrýna hluti!

Nafnleysið er líka til komið að ekki eru allir með áhuga á að setja sína mynd og nafn við allt sem þeir gera, ekki eru allir kapítalistar eða svona uppteknir við að ota sér áfram, heldur hafa áhuga á hugmyndum og umræðuefninu sjálfu. Eins og bara fagfífl sem eru með áhugann við efnið en ekki sig sjálfa. En málefnin eru góður vettvangur og nauðsyn að viðhalda, enda öðrivísi formatt en mbl blog.is

Ólafur Þórðarson, 18.1.2007 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband