Færsluflokkur: Vefurinn

Hvað varð um Eldland?

Mér leiðist sú þróun hjá fjölmiðlum að hætta að nota gamalgróin íslensk heiti í landafræði. Í þessari frétt kemur við sögu Tierra del Fuego, sem jafnan hefur kallast Eldland á íslensku. Enn verra þykir mér þegar notuð eru ensk heiti í stað þeirra sem heimamenn nota, svo sem Bavaria þegar átt er við Bayern eða Bæjaraland.

 

Mörg dæmi af þessum toga hefur borið fyrir augu á Moggavefnum síðustu árin. Á Vísisvefnum reyndar líka en það snertir mig síður. Mér er hlýtt til Morgunblaðsins, ég vil veg þess sem mestan. Þess vegna sárnar mér þegar þar er farið illa með íslenskt mál og íslenskar málvenjur. Mér sárnar oft ...

 

Síðustu árin, sagði ég. En þá kemur Tóta litla tindilfætt í hugann ...

 
mbl.is Frá Alaska til Tierra del Fuego á lýsi og svínafitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftháttur um Stefán Friðrik Stefánsson

Á Málefnavefnum er í gangi þráður helgaður Stefáni Friðrik Stefánssyni, einum af ofurbloggurunum hér á Moggabloggi, stjórnarmanni í Sambandi ungra sjálfstæðismanna og ritstjóra sus.is. Þar er látið að því liggja að hann hafi gengið í Frjálslynda flokkinn og verið á Landsþingi hans um daginn. Síðan vex orð af orði og spjallarar belgja sig út af hneykslun á Stefáni og framferði hans.

                  

Þannig segir Ingimundur Kjarval: Mér finnst þetta í meira lagi merkilegar upplýsingar. Ekki veit ég hvernig ég á að skilja þær þó. Eitt er víst álit mitt á Stebba eykst ekki við þessar upplýsingar ...

                     

Annar segir: Athyglisvert og lýsandi fyrir íslenska pólitík sem er bara kunningjapólitík og hugsjónir foknar út í veður og vind. Þetta þing frjálslyndra var auðvitað skandall ...

                       

Einhvern veginn finnst mér umræðan á téðum þræði ekki vera Málefnavefnum til mikils sóma. En það er nú bara mín skoðun.

           

Ætli þessi orðrómur sé á kreiki víða?


Tíminn gengur aftur

Blöðin og tímaritin sem þegar eru komin á netið hjá Landsbókasafni eru svo sem nægilegur tímaþjófur, eins og ég hef áður vikið að. Samt er gaman að fá þar fleiri gömul dagblöð. Ekki síst Tímann, sem var eina dagblaðið sem ég las reglulega á árunum upp úr 1950. Þá var Framsóknarflokkurinn ennþá stjórnmálahreyfing. Þegar tómu brúsarnir komu með mjólkurbílnum dag hvern voru nokkur kíló af skyri í einum brúsanum og Tímanum smeygt undir hölduna á lokinu. Höfðu þá bæði líkami og sál - efnið og andinn - sína næringu þann daginn. Þessi bólusetning við Framsóknarflokknum hefur enst vel. Aftur á móti er ég farinn að fást til að éta skyr.

 

Nú er greint frá því, að næst eigi að mynda Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið til birtingar á netinu, sem og Dag á Akureyri. En þá vantar Vísi, sem stofnaður var árið 1910 og lifði þangað til hann var sameinaður Jónasi og Dagblaðinu kringum 1980. Eða lifir hann enn?

 

Var ekki sagt um Alþýðublaðið á þeim tíma þegar það var að dragast upp og verða að engu, að það kæmist fyrir í eldspýtnastokki? Ætli Hrafn Jökulsson geti staðfest það?

             

Skyldi Framsóknarflokkurinn komast fyrir í eldspýtnastokki núna? 


mbl.is Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugagangur á Moggabloggi?

Í dag varð ég fyrir sérkennilegri reynslu hér í bloggheimi. Einhvern tímann kringum hádegið leit ég á forsíðuna á Moggabloggi og sá þar nýja færslu frá manni sem er vel þekktur í sinni stétt; var raunar kollega minn lengi þótt við hefðum aldrei hist eða talast við, það ég man. Þarna var hann að fjalla um tiltekið umferðarslys og kvaðst hafa heyrt að ökumaðurinn hefði ákveðið að binda endi á líf sitt og ástarsorg með þessum hætti. Ég skrifaði stutta athugasemd við þetta blogg, eina málsgrein, efnislega á þessa leið: Mér finnst eiginlega ótækt að fjalla með þessum hætti um svo persónuleg mál á opinberum vettvangi.

Síðdegis hringdi gemsinn minn. Áðurnefndur bloggari kynnti sig og krafði mig svara um það, hvað ég meinti eiginlega með athugasemdinni. Mér vafðist eitthvað tunga um tönn, sjaldan slíku vant, enda getur þvælst fyrir manni að útskýra hluti sem ættu að vera auðskildir. Samt reyndi ég að umorða skoðun mína þannig að hún skildist, en á meðan sleit viðmælandinn samtalinu umyrðalaust, skellti á, eins og kallað er.

Ég ætlaði þessu næst að líta aftur á téða bloggsíðu, en þá var hún ófinnanleg. Hún er enn ófinnanleg hér á Moggabloggi, hreinlega horfin, og væri ekki fyrir símanúmerið í gemsanum mínum, skráð kl. 16.08, þá héldi ég kannski að mig hefði dreymt þetta. Eða er þetta einhver draugagangur?

 

Vel viðrar til bloggskrifa

Skyldi netnotkun koma harðar niður á störfum fólks en aðrar fíknir? Það kæmi ekki á óvart. Svo að ég taki dæmi sem hendi er næst - afköst ýmissa hér á Moggabloggi eru talsverð, að ekki sé meira sagt. Fólk gerir ekki mikið annað á meðan, býst ég við.

 

En - hér kemur af einhverjum ástæðum upp í hugann það sem Steingrímur Hermannsson fyrrum forsætisráðherra sagði í ævisögu sinni:

 

„Það eina sem ég get fundið að starfsárum mínum í Seðlabankanum var að ég hef aldrei haft það jafnnáðugt í starfi á ævinni. Suma dagana nánast leiddist mér. Ég skildi betur hvað stundum hafði verið erfitt að ná í Tómas Árnason þegar vel viðraði fyrir golf  ...“

 

Og:

 

„Rólegheitin í Seðlabankanum höfðu þó sínar jákvæðu hliðar. Ég hafði betri tíma en nokkru sinni fyrr til að sinna áhugamálum mínum og fjölskyldu. Ég fór að spila golf og fékk tíma til að sinna skógræktinni í Borgarfirði ...“

                          

P.s.: Einungis tveir í sex manna nefnd til undirbúnings að framboði aldraðra og öryrkja heita Baldur Ágústsson. Þetta finnst mér ekki nógu gott. Líka vekur athygli, að engin kona skuli vera í þessum hópi.

                                

P.s. 2: Núna er kisa farin að hlaupa upp tveggja metra háan skjólvegg við húsið eins og ekkert væri.

  

Netfíklar - eins og lifandi lík

 

mbl.is Fylgst með netnotkun starfsmanna í þriðjungi danskra fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alcan-dagbókin - nafnlaus áráttuskrif á Moggabloggi

Einn af bloggurunum hér á Moggabloggi heitir Alcan Dagbókin. Þegar smellt er til að fá nánari upplýsingar um höfundinn kemur upp firmamerki Alcan. Meiri upplýsingar eru þar ekki. Einhverjir mættu því ætla að blogg þetta væri á vegum Alcan. Frágangurinn bendir strax til þess að þarna sé eitthvað annað á ferðinni. Upplýsingafulltrúi Alcan er a.m.k. þokkalega talandi og skrifandi, hefur mér sýnst, hvað sem annað má segja.

 

Þegar færslurnar eru lesnar kemur í ljós, að hér er um að ræða áráttuskrif í garð nafngreindrar konu, starfsmanns hjá Alcan í Straumsvík. Aftur og aftur og aftur. Margir aðrir eru nafngreindir í þessum einkennilegu skrifum - allir nema höfundurinn, sem nafnlaus notar firmamerki Alcan til kynningar á sjálfum sér hér á Moggabloggi.

 

Þetta innlegg mitt hefur ekkert með viðhorf mitt til téðs fyrirtækis að gera*). Málið snýst um það, hvort yfirleitt er ætlast til þess að Moggabloggið sé notað á þennan hátt - sem vettvangur fyrir nafnlaus þráhyggjuskrif undir fölsku flaggi.

                                     

Væri ekki rétt að benda viðkomandi á vefinn barnaland.is, annan undirvef mbl.is, þar sem skrif af þessu tagi ættu frekar heima?

 

*) Ég er á móti stækkun álversins í Straumsvík og ég er á móti stórvirkjunum á Íslandi, eins og margoft hefur komið fram. Auk þess þótti mér áróðursherferð Alcan fyrir jólin fíflaleg. Til gamans leyfi ég mér að skjóta því hér inn, að fyrsta blaðaviðtalið við Rannveigu Rist tók ég, að ég best veit - árið 1986, ef ég man rétt.**)

                       

**) Viðbót: Anna K. Kristjánsdóttir frænka mín og stórbloggari segir hér í athugasemdum: Varla hefur viðtal við RR verið hið fyrsta árið 1986. Hún lauk Vélskólanum 1983 og var þá þegar mikið í fréttum, m.a. sem vélstjóri á Óskari Halldórssyni RE, en var á Guðbjarti ÍS 1986.

           

                         

· Áhugavert: Hesthús og hundakofar nýríka fólksins


Inngangur að dýrafræði bloggheimsins

Alltaf er maður að kynnast nýjum veröldum. Meira að segja á gamals aldri. Bloggið er ein veröldin enn. Ekki grunaði mig fyrir mánuði að ég ætti eftir að gerast bloggari. Einhvern veginn fannst mér þetta bara vera fyrir ungt fólk. Auk þess einhver bölvuð vitleysa. Sem það auðvitað er.

 

Reyndar eru nokkur ár síðan*) ég fór að kjafta á Málefnunum. Slíkir vefir eru eins konar hálfbræður blogganna. Svipaðir en þó allt öðruvísi. Mér hefur þótt gaman að skreppa öðru hverju inn á Málefnin og taka þátt í spjallinu. Að vísu hef ég fátt lagt þar til málanna af neinu viti. Enda er þess ekki krafist. Og verður síst krafist af mér.

 

Mjög fáir nota sín réttu nöfn á Málefnunum. Nafnleysið veitir visst frelsi, gefur kost á sleggjudómum og ábyrgðarleysi. Samt er það sjaldgæft að hlutirnir fari úr böndunum. Í samfélagi Málefnanna þekkja nánast allir alla - þar á ég við karakterana sem birtast en ekki fólkið að baki þeim - og samfélagið bregst við þegar einhver fer að haga sér illa. Líka er eins konar öryggislögregla á vakt en er sjaldan kölluð til.

 

Mér er hlýtt til Málefnanna og fólksins sem þar kemur saman. Þetta er mjög sundurleitur hópur, sem betur fer. Skelfing væri leiðinlegt ef öll vitleysan væri eins.

 

Aftur að blogginu. Hérna byrjaði ég að bulla milli jóla og nýárs. Nánast óforvarendis, rétt eins og þegar ég smakkaði selkjöt í fyrsta sinn, þá kominn vel á fertugsaldur.

 

Ég hef velt þessari nýju veröld talsvert mikið fyrir mér síðustu vikurnar. Stúderað svolítið karakterana og hvað þeir hafast að og tilganginn sem fyrir þeim vakir. Þar kennir ýmissa grasa, að ekki sé meira sagt. Sumir eru mjög persónulegir og blogga eingöngu um daglegt amstur, aðrir gersamlega ópersónulegir og rita leiðara um stjórnmálaviðhorfið. Og allt þar á milli. Kannski reyni ég á næstunni að vinna úr þeim minnispunktum sem ég hef krotað hjá mér um tegundir bloggara, einkenni þeirra og hegðunarmynstur. Gæti kannski stuðst við flokkunarkerfi Linnés.

 

Ekki er ég viss um að svokallaðar vinsældir hér á Moggabloggi segi alltaf mikið um innihald og framsetningu. Þar eru miklu frekar önnur öfl að verki. Ég leyfi mér að nefna hér bloggara sem er í einu af efstu sætunum í mínum huga þó að hér þekki hann fáir, vin minn Katanesdýrið, sem er læknir í Miðvestrinu í Bandaríkjunum. Mikið finnst mér gaman að hann skuli vera farinn að blogga og notalegt að líta inn til hans.

         

            

*) Hortitturinn síðan getur verið fremur leiðinlegur, rétt eins og hortittir eru venjulega í máli þeirra sem kunna ekki að nota þá - þeirra sem hafa málið ekki nægilega vel á valdi sínu. Af einhverri tilviljun lenti einmitt þessi hortittur einna efst á vinsældalista bannorða í íslenskukennslu. Margar kynslóðir lærðu að það væri danska og ljótt að segja síðan. Og það er með þetta eins og annað sem lært er án skilnings - það er stundum tekið of bókstaflega. Ég var raunar alveg gáttaður þegar ég heyrði fyrst orðalagið frá í gær í Ríkisútvarpinu. Og hugsaði með mér: Þarna hefur hortitturinn síðan lent á einhverjum bannorðalista hjá málfarsráðunautnum; því miður hefur honum láðst að útskýra mál sitt nægilega vel. Þess vegna hefur skandallinn frá í gær orðið til - forsetning stýrir forsetningarlið, eða hvað í ósköpunum sem ætti að kalla þetta. Í orðasambandinu síðan í gær er orðið síðan hreint ekki neinn hortittur. Þegar sagt er fyrir löngu síðan er það hins vegar sá hortittur sem spjótunum var beint að. 

Netfíklar - eins og lifandi lík ...

Sagt er að milljón manns eða svo í Þýskalandi séu haldnir netfíkn. Auðvitað er þó hægt að skilgreina slíka hluti með ýmsum hætti. Þetta væru nokkur þúsund manns hérlendis. Sé snögglega tekið fyrir netnotkunina, þá koma fram fráhvarfseinkenni líkt og hjá neytendum eiturefna. Í Berlín (og kannski miklu víðar) er í boði meðferð fyrir netfíkla, hliðstæð meðferðum fyrir alkóhólista og dópista eða spilafíkla.

 

„Eru eins og lifandi lík“, er haft eftir sálfræðingi í umfjöllun á Spiegelvefnum í dag. Þar er átt við netfíkla sem hanga á vefnum tíu-fimmtán tíma á sólarhring, nærast illa og hirða sig ekki. Sagt er að margir þeirra lifi á bótum og hafi lokað sig frá venjulegu lífi - þangað til símanum er lokað. Og þá tekur meðferðin við - afnetjun í þrjár-fjórar vikur.

 

Skyldu nokkrir slíkir vera við iðju sína hér á Moggabloggi ...?

 

Hvimleið bilun í bloggkerfinu

Undarleg bilun virðist vera í bloggkerfinu hér. Síðustu daga hafa innlegg eins af helstu leiðtogum og hugmyndafræðingum Framsóknarflokksins og væntanlegs þingmanns í Reykjavíkurkjördæmi suður gengið aftur - og það aftur og aftur. Jafnskjótt og innlegg hans er horfið niður af bloggforsíðunni kemur það afturgengið efst á forsíðunni á ný. Þetta gerðist aftur og aftur og aftur með frásögn leiðtogans af afmælisdegi Elvis Presley í fyrradag og gerist núna aftur og aftur og aftur með gráti út af afdrifum íslenska þjóðsöngsins í Ríkisútvarpinu.

 

Gætu umsjónarmenn Moggabloggsins ekki lagfært þetta? Eða eru þeir svo illa innrættir gagnvart Framsóknarflokknum að þeir geri það ekki?

Viðbót: Þessa klukkutímana verður Grímur Gíslason á Blönduósi 95 ára - aftur og aftur og aftur ...


Morgunblaðið og Maaneds-Tidender

Mér virðist sem margir viti ekki um vefinn Tímarit.is - kannski vegna þess að ýmsir sem helst myndu nota hann eru lítið í tölvum. Nostalgían, fortíðarhyggjan, fortíðarþráin, kemur með aldrinum. Hvað um það - þarna má skoða og lesa ókeypis*), síðu fyrir síðu, vel yfir 200 íslensk blöð og tímarit, allmörg færeysk og nokkur grænlensk. Búið er að koma þarna inn nær öllum blöðum og tímaritum sem út komu í þessum löndum fyrir 1920; auk þess allmiklu eftir það og allt fram undir síðustu ár. Þar er helst að geta Morgunblaðsins, sem aðgengilegt er með þessum hætti allt frá upphafi árið 1913 og fram til 2000. Elst eru Islandske Maaneds-Tidender, sem eru svo gömul, að á þeim tíma voru Móðuharðindin ekki dunin yfir.

 

Tímarit.is er samstarfsverkefni Landsbókasafnsins - Háskólabókasafns og landsbókasafnanna í Færeyjum og á Grænlandi. Af íslenskum blöðum og tímaritum eru komnar inn eitthvað um milljón síður. Eins og gefur að skilja er þetta ægilegur tímaþjófur sjálfsagalitlu fólki sem haldið er fortíðarþrá ...

 

Fyrir skemmstu var Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og nú forstjóri hinna nýstofnuðu Flugstoða ohf. mjög í fréttum. Til gamans smelli ég hér inn síðuparti úr Morgunblaðinu fyrir réttum fjörutíu árum. Þá kom Þorgeir ásamt fjölskyldu sinni í snögga heimsókn til Íslands, en á þeim tíma lagði hann stund á flugverkfræði við MIT í Bandaríkjunum. Ég man afar vel eftir því þegar ég tók þetta viðtal við hann. Líka læt ég hér fylgja smáræði sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nærri hálfri öld og snertir mig öllu meira ...

      

 *) Ég verð stundum svolítið pirraður þegar verið er að tyggja klisjuna um að ekkert sé ókeypis, að alltaf sé einhver sem borgar fyrir hádegisverðinn. Að klifa á slíku er  útúrsnúningur - með þessu er einfaldlega átt við það, að sá sem notar eða nýtur borgi ekki sjálfur fyrir. Sú merking er rótgróin í íslensku máli.

      

Þorgeir PálssonMbl. sept. 1958


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband