Einn af bloggurunum hér á Moggabloggi heitir Alcan Dagbókin. Þegar smellt er til að fá nánari upplýsingar um höfundinn kemur upp firmamerki Alcan. Meiri upplýsingar eru þar ekki. Einhverjir mættu því ætla að blogg þetta væri á vegum Alcan. Frágangurinn bendir strax til þess að þarna sé eitthvað annað á ferðinni. Upplýsingafulltrúi Alcan er a.m.k. þokkalega talandi og skrifandi, hefur mér sýnst, hvað sem annað má segja.
Þegar færslurnar eru lesnar kemur í ljós, að hér er um að ræða áráttuskrif í garð nafngreindrar konu, starfsmanns hjá Alcan í Straumsvík. Aftur og aftur og aftur. Margir aðrir eru nafngreindir í þessum einkennilegu skrifum - allir nema höfundurinn, sem nafnlaus notar firmamerki Alcan til kynningar á sjálfum sér hér á Moggabloggi.
Þetta innlegg mitt hefur ekkert með viðhorf mitt til téðs fyrirtækis að gera*). Málið snýst um það, hvort yfirleitt er ætlast til þess að Moggabloggið sé notað á þennan hátt - sem vettvangur fyrir nafnlaus þráhyggjuskrif undir fölsku flaggi.
Væri ekki rétt að benda viðkomandi á vefinn barnaland.is, annan undirvef mbl.is, þar sem skrif af þessu tagi ættu frekar heima?
*) Ég er á móti stækkun álversins í Straumsvík og ég er á móti stórvirkjunum á Íslandi, eins og margoft hefur komið fram. Auk þess þótti mér áróðursherferð Alcan fyrir jólin fíflaleg. Til gamans leyfi ég mér að skjóta því hér inn, að fyrsta blaðaviðtalið við Rannveigu Rist tók ég, að ég best veit - árið 1986, ef ég man rétt.**)
**) Viðbót: Anna K. Kristjánsdóttir frænka mín og stórbloggari segir hér í athugasemdum: Varla hefur viðtal við RR verið hið fyrsta árið 1986. Hún lauk Vélskólanum 1983 og var þá þegar mikið í fréttum, m.a. sem vélstjóri á Óskari Halldórssyni RE, en var á Guðbjarti ÍS 1986.
· Áhugavert: Hesthús og hundakofar nýríka fólksins
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vefurinn | Breytt s.d. kl. 07:52 | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála. Frekar hallærislegt að fela sig undir merkjum fyrirtækisins.
Takk fyrir kommentið þitt áðan... Þykir alltaf jafn gott að heyra þetta
Heiða B. Heiðars, 19.1.2007 kl. 11:53
Alcan er það fyrirtæki sem er mér hvað minnst að skapi. Mér finnst þetta Alcan-blogg þó afar fíflalegt.
erlahlyns.blogspot.com, 19.1.2007 kl. 15:00
Þetta gæti varðað við höfundarréttarlög um vörumerki og nöfn fyrirtækja.
Davíð Halldór Lúðvíksson (IP-tala skráð) 19.1.2007 kl. 15:55
Þarna virðist vera um einfaldan misskilning að ræða hjá þér Hlynur. Skrifað er í 2. færslu bloggsins (sem er því miður á leiðinni á bls 2) hver tilgangur bloggsins er.
Tilvitnun:
Tilgangur BloggsinsÞetta blogg er stofnað til þess að fólk geti lesið á opinberum vettfangi við hvað er átt þegar starfsmönnum er sagt upp hjá Álverinu í Strumsvík.
Þetta blogg mun byggjast á dagbókarfærslum og endurminningum fyrrum starfsmanns álversins og er birt með fullu leyfi hans.
Ergo: Ég (bloggarinn sem þú nefnir) er ekki starfsmaður Alcan og hef aldrei verið.
Ég er einungis að birta dagbókina eins og hún er skrifuð. Ég breyti ekki textanum. Málfræðin, hversu slæm sem þér finnst hún vera, fær að halda sér.
Þær breytingar sem hinsvegar hafa verið gerðar eru að nöfnum hefur verið breytt. Það kemur skýrt fram í sömu færslu og ég vitna í hér að ofan. Þannig að engir starfsmenn álversins eru nefndir með sínu rétta nafni:
Tilvitnun:
Þess ber að geta að lokum að í dagbókinni hefur nokkrum nöfnum verið breytt.
Ég vona lokum að þú vandir þig betur við upplýsingaöflun áður en þú dæmir skrif annars fólks.
Alcan dagbókin, 19.1.2007 kl. 15:58
Blessaður Hlynur!
Þótt ekki séum við pólitískir samherjar þá er andstaða okkar gegn stækkun álversins sameiginleg.
Þegar Rannveig útkrifaðist úr Vélstjóraskólanum tók ég viðtal við hana fyrir Þjóðviljann og var hún skemmtilegur viðmælandi.
Kveðja Sáfi
Sigurður Á. Friðþjófsson, 19.1.2007 kl. 21:01
Hvers á Barnaland að gjalda? Væri ekki nær að Mogginn henti út öllum öðrum en þeim sem eru að skrifa um börn þar. blog.is er mikið skárri vetvangur fyrir svona bull.
Steinarr Kr. , 21.1.2007 kl. 16:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.