31.1.2007
Ljósaperur á Alþingi og víðar
Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu? Mér þykir líklegt að þeir geri það alls ekki.
Eitt sinn vann ég á ríkisstofnun þar sem voru margar ljósaperur (þar á ég ekki við starfsmennina heldur lýsingarbúnað). Oft kom fyrir að ég og aðrir skiptum um ljósaperur þegar þörf krafði. Jafnvel á hverjum degi. Þarna var mikið af loftljósum með flúrpípum eða hvað það heitir - aflöngum ljósaperum - og sífellt var einhver að bila og blikka. Nóg var af varaperum í geymsluherbergi.
Athæfi okkar komst upp - þetta athæfi að skipta um peru eins og ekkert væri, hvort sem þær voru kúlulaga eða aflangar - og taldist hið versta mál. Á þessu var tekið af ábyrgð og festu: Starfsmönnum var stranglega bannað að skipta um peru, ef hún var aflöng. Heimilt var að skipta um peru, ef hún var kúlulaga og bilunin taldist hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þess sem perunnar naut. Kalla skyldi til löggiltan rafvirkjameistara, sem tiltekinn var, hvenær sem aflöng pera bilaði. Hann skyldi jafnframt skipta um kúlulaga perur, sem starfsmenn höfðu ekki skipt um vegna þess að bilun þeirra taldist ekki hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þeirra sem þeirra nutu.
Mig minnir að rafvirkjameistarinn hafi eftir þetta setið hjá okkur flesta kaffitíma.
Annars held ég að það séu ekki margar ljósaperur á Alþingi núna.
Hvað þarf margar ljósaperur til að skipta um þingmenn?
Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.