3.2.2007
Heilbrigðisráðherra í vondum málum
Stöð 2 greindi frá því í kvöldfréttum, að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefði tekið sér fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til vinnslu og dreifingar á áróðursbæklingi um nýja sýn ráðherrans á öldrunarmál. Fram kom í fréttinni að þetta muni ekki vera í fyrsta skiptið sem heilbrigðisráðherrar taka sér fé úr þessum sjóði, þannig að hér er a.m.k. ekki um að ræða nýja sýn á verkefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.
Rætt var við ráðherrann um þetta mál í fréttatíma stöðvarinnar. Líklega dettur fáum í hug nema ráðherrum að snúa hlutunum svo gersamlega á hvolf, að þetta samrýmist reglum um notkun fjármuna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Samkvæmt lögum á að nota framlög úr sjóðnum til að byggja og viðhalda stofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða; einnig er heimilt að nota fé úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Ekkert undarlegt þó að ráðherranum hafi vafist nokkuð tunga um tönn þegar hann var krafinn skýringa.
Ekki sé ég í fljótu bragði að aðrir vefmiðlar en visir.is hafi enn tekið við sér í þessu máli. Það hlýtur samt að gerast á næstu dögum. Á síðustu árum hafa ráðherrar í Skandinavíu og víðar í norðanverðri Evrópu hrökklast frá fyrir veigaminni brot.
Byrgismálið er mikill áfellisdómur yfir þeim ráðherrum, sem vissu árum saman hvernig ástandið var en héldu því leyndu. Fyrir heilbrigðisráðherrann er þetta mál þó verra, ef eitthvað er.
visir.is 03.02.2007 Framkvæmdasjóður aldraðra borgaði framtíðarsýn heilbrigðisráðherra
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.