Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sömu vinnubrögð, sama þroskastig

Er ekki rétt að vísa málum sem varða Saving Iceland til barnaverndarnefndar, sbr. eftirfarandi frétt á mbl.is í gær? Voru skemmdarverkin sem þar er greint frá e.t.v. á vegum Saving Iceland? Eða finna hóparnir fyrirmyndir hvorir hjá öðrum?

                         

Þrír ungir piltar á barnaskólaaldri unnu töluverðar skemmdir á byggingasvæði á höfuðborgarsvæðinu en óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna þessa í gærmorgun. Þegar komið var á byggingasvæðið blasti við ófögur sjón en búið var að brjóta nokkur ljós á stóru vinnutæki og við kaffiskúr.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var veggjakrot þar einnig að finna og grjóti hafði verið kastað í rúður svo sprungur mynduðust. Þá hafði málningu verið skvett á nærliggjandi íbúðarhús og við annað hús mátti sjá málningarskvettur á skjólvegg og útihúsgögnum.

Við rannsókn málsins beindust böndin fljótt að áðurnefndum piltum. Í fyrstu vísuðu þeir hver á annan en sannleikurinn kom þó fljótt í ljós. Málið verður sent til barnaverndarnefndar.


mbl.is Málningu hellt á skrifstofur Athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef Björn Bjarnason dómsmálaráðherra klifraði nú upp í krana í mótmælaskyni?

Einhvern veginn hef ég heldur skömm á aðgerðum af því tagi sem samtökin Saving Iceland hafa í frammi. Enginn málstaður er svo góður að ekki sé hægt að varpa hann skugga. Rónarnir koma óorði á brennivínið, var eitt sinn sagt, sumir prestar koma óorði á kaþólsku kirkjuna, nokkrir vitleysingar koma óorði á mótorhjólafólk. Samtökin Saving Iceland og menn á borð við Paul Watson (hvað er annars að frétta af boðaðri komu hans til Íslands?) koma óorði á náttúruvernd.

 

Auðvitað hafa einhverjir rokið upp eins og venjulega og sagt að lögreglan sé að banna fólki að mótmæla, banna skoðanir.

 

Málið snýst ekki um það. Ætli lögreglan sæti aðgerðalaus ef forstjórar álfyrirtækjanna, svo dæmi sé tekið, hlekkjuðu sig saman liggjandi á akvegum? Lögreglan léti ekki einu sinni sjálfan yfirmann sinn dómsmálaráðherrann afskiptalausan ef hann klöngraðist upp í byggingarkrana í mótmælaskyni við eigendur kranans.

 

Störf íslensku lögreglunnar snúast hvorki um skoðanir né mótmæli.

 
mbl.is Mótmælum við Grundartanga hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Njálsgötuheimili verði stofnað á Núpi í Dýrafirði

Breiðavík er upptekin vegna ferðaþjónustu en Núpur í Dýrafirði er laus. Þar var mjög lengi heimavistarskóli fyrir unglinga en núna eru húsakynnin miklu til sölu. Með því að nýta aðstöðuna á Núpi má slá tvær flugur í einu höggi: Leysa deiluna um Njálsgötuheimilið og fjölga fólki á Vestfjörðum. Sumir hinna nýju Dýrfirðinga gætu t.d. unnið við umhirðu í garðinum Skrúði, aðrir við að smíða hrífuhausa og enn aðrir við að telja fugla, eða hverjir aðra, auk þess sem allir yrðu í fjarnámi.

 

Jafnframt væri afstýrt hættunni á verðfalli húseigna við Njálsgötuna og þar í grennd.

 

Njálsgötufólkið heldur úti bloggsíðu hér á Moggabloggi undir heitinu Nágrannar Njálsgötu 74. Vonandi heldur hópurinn áfram að blogga eftir flutninginn vestur, t.d. undir titlinum Njálsgötufólk Núpi í Dýrafirði.

 

Þegar ég var nemandi á Núpi fyrir bráðum hálfri öld var einangrunin þar mikil. Segja má að héraðsskólarnir í gamla daga hafi verið samfélög að mestu utan hins venjulega mannlega samfélags.

 

Í trausti þess að svo sé enn legg ég fram ofangreinda hugmynd varðandi framtíðarbúsetu þess mannfjandsamlega liðs sem hamast gegn fyrirhuguðu heimili að Njálsgötu 74.

 

> Lægra húsnæðisverð

 
mbl.is Borgarráð samþykkir starfsemi við Njálsgötu 74
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar afskrifar olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum

Dofri Hermannsson, sem er varaborgarfulltrúi í Reykjavík og „starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar“ eftir því sem fram kemur í kynningu á bloggsíðu hans, skrifar í yfirlætis- og fyrirlitningartón um þá athugun sem nú fer fram á því að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Fyrirsögnin hjá honum er Að "windowsjoppa" olíuhreinsunarstöð. Þar fjallar hann m.a. um ferð „sérlegrar“ sendinefndar „stóriðjumangara“ og fleiri til meginlandsins til að kynna sér slíkar stöðvar. Ef reynt er að skilja hvað maðurinn er að fara verður ekki annað séð en hann sé - og þá væntanlega fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar sem hann er „starfandi“ framkvæmdastjóri fyrir eins og hann tekur fram - þegar búinn að afskrifa eins kjánalegt og fyrirlitlegt fyrirbæri og olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.

                     

Hafa má í huga, að meðal þeirra sem sitja í þingflokknum sem Dofri Hermannsson stjórnar er Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.

              

Óþarfi er að endursegja hér frekar ummæli framkvæmdastjórans. Best er að sem flestir lesi þau beint, einkum þeir sem málið snertir helst.

                     

Vegna þessara afdráttarlausu ummæla „starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar“ má hins vegar benda á og vitna í ummæli Sigurðar Péturssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ og flokksbróður framkvæmdastjórans, sem var einn þeirra sem fóru umrædda kynnisferð. Haft er eftir Sigurði á fréttavefnum bb.is, „að skoðunarferð sveitarstjórnarmanna Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar hafi verið afar fróðleg og gagnleg“. Að hans sögn er hér um hátækniiðnað að ræða. „Í svona stöð vinnur fjöldi tæknimanna og verkfræðinga og ef til þess kemur að olíuhreinsistöð verði reist er um að ræða nýtt stig í tækniþróun á Íslandi“, segir Sigurður. Það er mat hans að ferðin geri bæjarfulltrúum auðveldara fyrir að mynda sér sjálfstæða skoðun á málinu. „Við fengum beinan aðgang að fólki, bæði í Þýskalandi og Hollandi, sem hefur með þetta að gera og gátum spurt þau beint þeirra spurninga sem brunnu á okkur.“

                

Ekki verður séð mikil samsvörun með hófsamlegum orðum Sigurðar Péturssonar og drýldnislegum stílæfingum framkvæmdastjóra þingflokksins um þetta mál, þó að þeir séu flokksbræður.

                 

Vestfirðingar ættu endilega að kynna sér nánar viðhorf og málflutning „starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar“ - og þá jafnframt, skyldi maður ætla, afstöðu Samfylkingarinnar og iðnaðarráðherra til þess sem Vestfirðingar eru að bauka um þessar mundir. Ekki verður betur séð en bæjarfulltrúarnir úr Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð hefðu getað sparað sér kynnisferðina. Starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar veit allt um málið. Og væri naumast að skrifa um það á svona afdráttarlausan hátt án samráðs við iðnaðarráðherra og raunar ríkisstjórnina alla.

                        

En það kemur væntanlega í ljós.

 

Hver skrattinn hefur hlaupið í sjávarútvegsráðherra?

Einkennileg og fordæmislaus er sú ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, að fara að ráðum vísindamanna varðandi þorskveiðikvótann. Fram að þessu hafa ráðherrar ævinlega hunsað álit vísindamanna og látið veiða mun meira en skynsamlegt hefur talist. Síðasta aldarfjórðunginn hafa Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Árni M. Mathiesen mann fram af manni stjórnað hruni þorskstofnsins við Ísland.         

Núna er loksins kominn sjávarútvegsráðherra sem telur sig ekki yfir það hafinn að fara að ráðum þeirra sem best mega vita.

Eins og ég hef alltaf sagt: Einar K. Guðfinnsson er fjandakornið enginn pólitíkus. Til þess skortir hann sárlega helstu ókostina sem prýða hvern góðan stjórnmálamann. 


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrrverandi seðlabankastjóri lýsir starfinu

„Það eina sem ég get fundið að starfsárum mínum í Seðlabankanum var að ég hef aldrei haft það jafnnáðugt í starfi á ævinni. Suma dagana nánast leiddist mér. Ég skildi betur hvað stundum hafði verið erfitt að ná í Tómas Árnason þegar vel viðraði fyrir golf ...“, segir Steingrímur Hermannsson fyrrv. seðlabankastjóri (1994-98) í æviminningum sínum.

Ennfremur segir hann:

„Rólegheitin í Seðlabankanum höfðu þó sínar jákvæðu hliðar. Ég hafði betri tíma en nokkru sinni fyrr til að sinna áhugamálum mínum og fjölskyldu. Ég fór að spila golf og fékk tíma til að sinna skógræktinni í Borgarfirði ...“ 


mbl.is Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfundartaut Ólínu Þorvarðardóttur varðandi Flateyri

Mér kemur verulega á óvart, að það skuli koma nokkrum á óvart að kvótinn skuli hafa verið seldur frá Flateyri. Hvernig getur það komið á óvart að menn eigi viðskipti í nútímaþjóðfélagi? Ég hefði kannski skilið að Gísli heitinn á Uppsölum í Selárdal við Arnarfjörð hefði ekki skilið þetta. En ekki núlifandi menn sem fylgjast með samfélagsmálum. Þetta er einfaldlega eðlilegur partur af því kerfi í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa skapað. Gísli á Uppsölum var aldrei núlifandi maður.

 

Næst lýsa menn kannski furðu sinni á því að vatn skuli renna niður í móti. Það gerði það ekki í frostakaflanum í vor! Gerðist reyndar við norðanverðan Dýrafjörð á sínum tíma, ef marka má Gísla sögu Súrssonar. Kannski verða menn líka hissa á því að sólin skuli skína fram eftir kvöldi. Hún gerði það ekki í vetur!

 

Ólína Þorvarðardóttir fárast yfir því - vinstra öfundarliðinu líkt! - að aðaleigandi Kambs hafi nettó um tvo milljarða króna í aðra hönd eftir átta ára vinnu. Tvo milljarða! Það er ekki nema jafnvirði sæmilegrar afmælisveislu með þokkalegum skemmtikrafti - Elton John kæmi til greina, eða Facon á Bíldudal - ásamt kannski skitnum hundrað milljónum í aflátssjóð þannig að tryggð sé eilífðarvist í Himnaríki hjá Guði.

 

Var ekki einmitt boðað til messu í Flateyrarkirkju til að ganga formlega frá þessu við Guð?

 

Það sýnir best hversu vonlaus sjávarútvegurinn er hérlendis, að menn sem byrjuðu gjafakvótalausir á núlli fyrir átta árum skuli ekki hafa eftir í aðra hönd nema tvo milljarða nettó þegar þeir loksins gefast upp. Einhver verkamaðurinn hefði nú gefist upp á þeim kjörum og bara keypt sér hús á Spáni! Sem betur fer er staða þeirra sem fengu gjafakvótann frá þjóðinni á sínum tíma heldur skárri. Þar er ekki verið að telja í stökum milljörðum.

 

Hvernig vinstra öfundarfólkið getur látið!

 

Núna er Ísafjarðarbær að hugsa um að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna félag til að athuga hvort rétt sé að athuga með hugsanleg kaup á eignum Flateyrar. Ísafjarðarbær er alveg eins hissa og Gísli á Uppsölum hefði verið. En sumir aðrir eru ekki lengi að átta sig á hlutunum. Fram kemur í fréttum að þegar sé búið að selja mestan partinn af eignum Flateyringa.

 

Jafnvel þó að enginn hafi vitað neitt fyrr en löngu eftir kosningar.

 

Sem voru fyrir rúmri viku.

 

Lambakjöt frá Nýja-Sjálandi - en hvað með þorsk?

Senn verður farið að flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi, nú þegar Guðna nýtur ekki lengur við í landbúnaðarráðuneytinu. Annað þætti mér samt ennþá brýnna að flytja inn: Þorsk, hvar í andskotanum sem hann myndi annars fást. Kannski á Nýja-Sjálandi eins og lambakjötið? Ég man ekki almennilega lengur hvar í heiminum þorskur veiðist.

 

Í uppvextinum vandist ég því að éta fisk og þótti nýr þorskur góður. Hann fékkst iðulega í fiskbúðum syðra þegar ég átti heima í Reykjavík en eftir að ég settist að vestur á fjörðum fyrir rúmum tuttugu árum sá ég hann ekki meir. Reyndar ekki annan fisk en niðursoðinn túnfisk frá Tælandi með Ora-merkingum. Sagt var að ekkert þýddi að hafa fisk til sölu, hann seldist ekki neitt því að allir gætu fengið hann ókeypis. Það gilti reyndar ekki um mig. Auk þess var mér sagt að Íslendingar ætu ekki þorsk og allra síst Vestfirðingar.

 

Líklega er bráðum aldarfjórðungur síðan ég hef étið nýveiddan þorsk eða yfirleitt séð hann á boðstólum. Hversu ferskur hann yrði eftir flutning frá Nýja-Sjálandi eða Vancouver eða Kamtsjatka og hingað vestur veit ég ekki. Líklega samt ámóta ferskur og lambakjötið.

 

Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni

Stjórnarmyndunarkjaftæðið sem tók við af kosningabaráttukjaftæðinu og síðan kosningaúrslitakjaftæðinu í öllum fjölmiðlum hefur sín áhrif. Mig er farið að dreyma pólitíska drauma. Ekki vökudrauma um síðbúinn frama á þeim vettvangi heldur svefndrauma um myndun ríkisstjórnar. Kannski skömminni til skárra en að dreyma reglugerð um innflutning á búvörum, eins og henti mig fyrir stuttu.

 

Mig dreymdi í nótt að Ingibjörg Sólrún hefði slitið viðræðum við Geir H. Haarde og væri búin að mynda stjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.

 

Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni, eins og kallinn sagði við kellinguna þegar hana dreymdi að guð hefði tekið hana til sín.

          

 

Post mortem scriptum:

 

Sagan af Nínu (Ingibjörgu) og Geira kom upp í huga mér núna áðan af einhverjum ástæðum. Ég gúglaði hana til upprifjunar og sá mér til skemmtunar, að höfundurinn er Jón Sigurðsson. Leyfi mér að smella inn fyrsta og síðasta erindinu.

 

Ef þú vilt bíða eftir mér

á ég margt að gefa þér,

alla mína kossa, ást og trú

enginn fær það nema þú.

– – –        

Geiri elskan, gráttu ei,

gleymdu mér, ég segi nei.

Þú vildir mig ekki veslings flón

Því varð ég að eiga vin þinn Jón.

          

Texti: Jón Sigurðsson.

Lag: Twitty.       

 

Allt sem Björn Bjarnason gerir eða gerir ekki, segir eða segir ekki ...

Væntanlega koma nú einhverjir bloggarar, auk þeirra sem liggja nótt sem nýtan dag á spjallvefjum og hafa ekkert annað að gera, og veitast að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra með svívirðingum í tilefni fréttar um nýja lögreglubíla í Reykjavík. Skv. fréttinni er hér um að ræða litla bíla og verður Birni þess vegna úthúðað fyrir að þeir skuli ekki vera stórir. Hefðu þeir hins vegar verið stórir, þá hefði verið ráðist á Björn vegna þess hvað þeir væru stórir og dýrir. Jafnframt verður ráðist á hann vegna þess að bílarnir skuli vera svona fáir, eða svona margir. En hvort dómsmálaráðherra ákveður kaupin á einstökum bílum fyrir einstök umdæmi lögreglunnar, stærð þeirra og gerð og lit og áklæði á sætum og þar fram eftir götunum, er svo allt annað mál. Meginatriðið er að úthúða Birni Bjarnasyni.

 

Fram kemur, að nýju lögreglubílarnir séu rækilega merktir lögreglunni. Það er nú eitt. Þetta er enn eitt dæmið um lögregluríkistilburði dómsmálaráðherra. Ef þeir hefðu hins vegar verið ómerktir, þá hefði það verið enn eitt dæmið um leynilögreglutilburði dómsmálaráðherra.

 

Ég hef fylgst nokkuð með skrifum um Björn Bjarnason á spjallvefjum og bloggsetrum og víðar undanfarin misseri. Svo virðist, sem allnokkur hópur fólks sé haldinn þeirri þráhyggju, að allt skuli fordæmt sem Björn gerir, og líka það sem hann gerir ekki. Enn fremur allt sem hann segir, og líka það sem hann segir ekki.

 

Almennt hefur þessi mannskapur engar forsendur eða yfirleitt neina burði til þess að dæma Björn Bjarnason og verk hans - virðist yfirleitt ekki vera dómbær á nokkurn skapaðan hlut nema hugsanlega ilmvötn eða kjötfars eða því um líkt. Þetta minnir einfaldlega á gjammandi og glefsandi hundahóp.

 

Tek fram að lokum, að þótt við Björn Bjarnason höfum unnið á sama vinnustað fyrir fjórum áratugum, þá stofnaðist aldrei neinn kunningsskapur með okkur, hvað þá vinskapur. Manninn hef ég heldur ekki séð eða heyrt í eigin persónu síðan. Aftur á móti fylgdist ég allvel með störfum hans þegar hann var menntamálaráðherra, enda tel ég mér þá hluti nokkuð skylda, og ég staðhæfi, að betri og dugmeiri menntamálaráðherra höfum við ekki átt, a.m.k. ekki á síðari áratugum. Ég leyfi mér að halda því fram, að Björn Bjarnason sé einstaklega samviskusamur og dugandi í embættisverkum sínum. Í þeim efnum set ég hann og Jón Sigurðsson framsóknarformann undir sama hatt - án þess að vita sosum hvort þeim ágætu mönnum líkar sá samjöfnuður vel eða illa.

 
mbl.is Litlir lögreglubílar í hverfaeftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband