8.2.2007
Að eyðileggja hugsjónir ...
Það runnu á mig tvær grímur eftir fund hjá Framtíðarlandinu fyrir réttri viku. Ekki var ég þar, enda búsettur allfjarri Reykjavík og ekki einu sinni í félagsskapnum, en dóttir mín sat fundinn. Skoðanir okkar feðginanna fara oft merkilega vel saman, enda þótt hún sé Vinstri græn en ég hafi í mörg ár skilgreint mig sem hægri grænan - hugtak sem núna virðist vera farið að grassera víða.
Á ungum aldri fannst mér kommúnisminn fögur hugsjón - og finnst enn í dag - en ánetjaðist honum aldrei í praxís, enda er hann allt of hreinn og fallegur til að hann gangi upp hjá dýrategundinni homo sapiens. Ég hef alltaf verið svolítið veikur fyrir hugsjónum. Svo hrekkur maður upp úr draumi og litast um. Það er munur á hugsjón og veruleika, vöku og draumi, draumalandi ...
Aldrei geta sumir draumar ræst.
Samtökin Framtíðarlandið eru þverpólitísk, að mér skilst. Eða eiga að vera það. Eða áttu að vera það. Slíkt líkar mér vel. Svo fóru að koma fram hugmyndir um framboð til Alþingis á vegum Framtíðarlandsins. Það leist mér ekki á. Að trúa því að slíkt gæti orðið til farsældar eða framdráttar er ámóta barnalegt og að trúa því (enn í dag) að kommúnisminn gangi upp í praxís. Kannski lá heldur enginn barnaskapur þar að baki, heldur einhverjir útspekúleraðir þingsetudraumar einstaklinga. Samtök - hugsjónir - og metnaðargjarnir einstaklingar fara ekki vel saman, eins og kunnugt er.
Mér fundust þessi framboðsáform nærri því eins vitlaus og framboðshugmyndir aldraðra. Sérframboð aldraðra! Meira að segja tvö. Hverju heldur fólk að það komi til leiðar með slíku - öðru en að skemma fyrir málstaðnum? Jú, ein eða tvær metorðagjarnar manneskjur kæmust kannski á þing. Á spjöld sögunnar. Í Alþingismannatalið.
Hvernig ætli færi fyrir t.d. Náttúruverndarsamtökum Íslands ef þau réðust í framboð til Alþingis?
Ég nefndi að dóttir mín hefði setið fund í Framtíðarlandinu um daginn. Hún bloggaði um fundinn þá um kvöldið og segir þar m.a.:
Seinnipart dags sat ég lokaðan fund meðlima Framtíðarlandsins. Var þar rædd sú hugmynd að bjóða fram til næstu Alþingiskosninga, og voru skoðanir afar skiptar. Meðal annars voru uppi vangaveltur um að erfitt væri að ræða mögulegt framboð þar sem engin stefna lægi á borðum. Við því fengust þau svör að stefna hefði þegar verið mótuð, og að hana væri að finna í möppu sem ein forsvarskonan hefði undir höndum. Fyrir fundinn hefði þó verið ákveðið að halda þessari stefnu frá meðlimum Framtíðarlandsins til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar tættu hana í sig. Af þessu ræð ég að skipuleggjendur gerðu ráð fyrir að fólk myndi tjá sig um efni þessa fundar á opnum vettvangi, og geri ég það því óhikað.
Áður en ég mætti á fundinn vonaði ég að þar yrði komist að þeirri niðurstöðu að framboð væri ekki lausnin. Mun heillavænlegra væri að efla grasrótarstarfið og virkja fólk (já, virkja!) sem starfar innan stjórnmálaflokkanna til að berjast enn frekar fyrir umhverfismálum þar. Framboð Framtíðarlandsins væri einungis til þess gert að sundra ...
Frásögnin af téðum fundi (1. febrúar - þarf að skrolla niður) er í rauninni öll hin kostulegasta.
Ég leyfi mér að árétta þá skoðun mína, að þingframboð er vísasta leiðin til að eyðileggja hugsjónir, eyðileggja þverpólitísk samtök, eyðileggja raunar hvað sem er. Kommúnisminn er fögur hugsjón. Þess vegna voru það svo skelfileg mistök að reyna hann í praxís.
Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mæer finnst margt skrítið í framtíðarlandinu. Eins og að allt sé fyrirfram pælt og stælt og svo matað ofan í þá sem ætla að koma með. Ekkert pláss fyrir venjulegt fólk með hugsjónir. Halda stefnunni frá meðlimum framtíðarlandsins. Common!!!
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.2.2007 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.