Fleiri hliðar á Breiðavíkurmálum

„Megi þeir sem lifandi eru rotna í fangelsi það sem eftir er ævinnar, og megi þeir sem farnir eru halda áfram að stikna í heitasta víti; það er sérstakur staður til fyrir fólk sem þetta.“ Þannig kemst góður og gegn og margreyndur spjallari á Málefnavefnum að orði um gerendurna í Breiðavík á sínum tíma.

 

Ég verð að játa, að hér þykir mér sterkt að orði kveðið. Látum svo vera; núna eru sterkar tilfinningar á róti í samfélaginu. Vonandi tekur dómstóll götunnar samt ekki völdin, jafnvel gegn þeim sem síst skyldi. Vonandi taka stjórnvöld á málum af þeirri festu, þeirri ábyrgð og þeim myndarskap, að til þess komi ekki.

 

Fólkið sem núna er í Breiðavík fer ekki varhluta af umræðunni og sætir jafnvel hótunum - fólk sem fluttist í Breiðavík fyrir tæpum áratug, tuttugu árum eftir að rekstri vistheimilisins þar var hætt, fólk sem hefur ekkert til saka unnið í þessum efnum og tengist hörmungunum í Breiðavík ekki á nokkurn hátt - annan en þann að vera núna búsett á þessum stað.

 

Líkt og hér á Moggabloggi hafa verið miklar umræður á Málefnavefnum, og það á mörgum þráðum í ýmsum málefnaflokkum. Vegna nafnleyndarinnar sem margir kjósa sér á Málefnunum hefur ýmislegt verið sagt þar sem síður væri gert undir fullu nafni. Birna Mjöll Atladóttir í Breiðavík stofnaði þess vegna í gær nikkið Ábúandi í Breiðavík til að geta komið sjónarmiðum fjölskyldunnar á framfæri í hinni hatrömmu umræðu á Málefnavefnum. Hún segir þar meðal annars að þau fái upphringingar með hótunum.

 

Birna Mjöll segir einnig (og ég bendi alveg sérstaklega á fyrstu efnisgreinina):

 

En það má ekki gleyma einu, og það er að hér voru margir forstöðumenn. Ég held ég megi segja að flestir þeirra hafi verið mjög góðir. Ég held að hér sé í flestum tilfellum verið að tala um einn forstöðumann. Allavega hef ég á þeim árum sem ég hef búið hér ekki heyrt að það hafi verið fleiri en einn sem hafi verið svona.


Yngstu börnin sem voru send hingað voru 6 ára (ekki 10 ára), þau voru hér á aldrinum 6-18 ára að mér skilst. Þetta voru ekki allt vandræðadrengir sem hingað voru sendir, enda hvernig er hægt að kalla 6 ára gamalt barn vandræðabarn? Mikið af þessum drengjum komu frá erfiðum heimilum. Foreldrar kannski drykkjumenn og þess háttar. 6 ára gamalt barn er bara eins og ómótaður leir. Auðvitað hafa sum börnin síðan mótast hér. Það má kannski segja að umhverfið sem þau voru í hér, þ.e. þegar þessi ósköp stóðu yfir, hafi kannski mótað þau.

Það er svolítið sárt í allri þessari umræðu að staðurinn virðist vera dreginn niður í svaðið.

 

Í ferðaþjónustublaðinu Vestfirðir sumarið 2006 getur að líta eftirfarandi pistilkorn sem ég (Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður blaðsins) skrifaði um Breiðavík. Þegar ég skrifaði málsgreinina um forsöguna þar á staðnum óraði mig ekki fyrir því sem nú er komið fram, frekar en svo marga aðra. Leyfi mér að smella þessu inn til fróðleiks um Breiðavík og fólkið sem þar er núna. Tek fram, að ég veit ekki til þess að hafa nokkru sinni hitt Birnu Mjöll eða fjölskyldu hennar - hef nokkrum sinnum á liðnum árum talað við hana í síma eða tölvupósti út af ferðamálum; sjálfur hef ég ekki komið í Breiðavík.

 

Í Breiðavík í Vestur-Barðastrandarsýslu reka hjónin Keran St. Ólason og Birna Mjöll Atladóttir ásamt börnum sínum myndarlegt bú, sem er blanda af ferðaþjónustu og sauðfjárbúskap. Húsakostur er mikill í Breiðavík og má rekja það til þess, að í nokkra áratugi og allt fram til 1979 rak ríkið þar vistheimili fyrir drengi sem áttu í erfiðleikum með lífið og tilveruna.

 

Breiðavík er ein af þremur breiðum en stuttum víkum milli Látrabjargs að sunnan og Blakkness við utanverðan Patreksfjörð og kallast þær einu nafni Útvíkur. Syðst er Látravík, síðan gamli kirkjustaðurinn Breiðavík og nyrst er Kollsvík.

 

Þetta er áttunda árið sem Birna Mjöll og Keran reka ferðaþjónustu í Breiðavík. Vinsældir staðarins hafa vaxið ár frá ári og hefur gestafjöldi meira en tvöfaldast frá fyrsta sumrinu. Jafnframt hefur gistirými verið aukið að sama skapi. Tjaldsvæðið í Breiðavík hefur einnig tekið miklum stakkaskiptum. Fyrir tveimur árum var tekið í notkun nýtt þjónustuhús með aðskildum sturtum fyrir bæði kynin ásamt snyrtingu. Aðgangur er að eldhúsi og matsal þar sem tjaldgestir geta komið inn og eldað ef veður gerir tjald-matseldina ófýsilega. Þvottavél er á tjaldsvæðinu ásamt þurrksnúrum. Þá er einnig hægt að grilla í heimagerðum kolagrillum sem eru á svæðinu. Í Breiðavík er rekin verslun þar sem seldar eru helstu nauðsynjavörur, auk minjagripa og handverks.

 

Breiðavík telst mjög afskekkt í huga þeirra sem þekkja einkum þéttbýlið. Þetta er staður fyrir þá sem vilja njóta náttúrufegurðar, kyrrðar og næðis frá ys borgarlífsins. Ekki næst þar sjónvarp og varla hægt segja að útvarp náist. Auk þess er þar GSM-frelsi í orðsins fyllstu merkingu. Mikil veðursæld er í Breiðavík og oft skartar kvöldsólin sínu fegursta fram yfir miðnætti.

 

Það fer mjög í vöxt að að fólk komi og gisti í nokkra daga, annað hvort í tjöldum eða herbergjum. Þá er farið í gönguferðir og töluvert um að hópar séu trússaðir á milli staða. Þá er farið er með göngufólk að morgni og það sótt eftir langan göngudag að kveldi. Búendur í Breiðavík sjá um að trússa hópana og til stendur að fá stærri bíl til þeirra nota. Frá Breiðavík er örstutt út á Látrabjarg með allt sitt fuglalíf, útsýni og náttúrufegurð.

                         

Leyfi mér að lokum að biðja fólk að dæma ekki eða ofsækja í blindni alla sem einhvern tímann hafa búið og starfað í Breiðavík eða eru þar nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þrymur - ég hélt að ég tjáði mig skiljanlega - ég er að tala um FÓLKIÐ SEM ER NÚNA Í BREIÐAVÍK OG AÐRA SEM ÞAR HAFA VERIÐ OG HAFA EKKERT TIL SAKA UNNIÐ - að þetta fólk sé ekki dæmt í blindni eins og sumir gera greinilega ...

Hlynur Þór Magnússon, 7.2.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Já, ég veit það - hins vegar hefur það komið fram, að fólk hringir í Birnu Mjöll og fjölskyldu hennar og hefur í hótunum, og fordæmir líka alla sem einhvern tímann hafa verið í Breiðavík, og það eru margir. Það lesa væntanlega ekki allir DV - og þeir sem lesa það eða annað lesa nú ekki allir mjög nákvæmlega ...

Hlynur Þór Magnússon, 7.2.2007 kl. 01:10

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þetta er mjög góður pistill. Það er hættulegt ef dómstóll götunnar æðir áfram í múgæsingu og hefndarþorsta.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.2.2007 kl. 06:51

4 Smámynd: Ester Júlía

Það er skelfilegt til þess að hugsa að núverandi ábúendur á Breiðavík séu að fá skelfileg símtöl - hótanir og annað.  Ekki hafa þau sér neitt til saka unnið.  Ég gæti þó aldrei hugsað mér að koma að Breiðuvík - mér myndi líða skelfilega illa og hugsa um illa meðferð á drengjunum í hverju spori sem ég tæki.   Það er að sjálfsögðu ekkert persónulegt við fólkið sem býr þar nú og rekur ferðaþjónustu, bara mitt litla hjarta.  

Góður pistill hjá þér.   Kv. Ester móðir fjögurra drengja.

Ester Júlía, 7.2.2007 kl. 07:24

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Góður punktur! 

Guðríður Haraldsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:02

6 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Gott blogg Hlynur ! 

Júlíus Garðar Júlíusson, 7.2.2007 kl. 16:11

7 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

"Nákvæmlega það sem ég óttaðist mest að illa upplýst fólk stykki upp á nef sér..." eru þá allir sem hafa skoðun á þessu máli illa upplýstir heimskingjar? Ég hef þessa skoðun af þeim viðtölum sem ég hef heyrt og lesið og það hefur ekkert að gera með núverandi ábúðendur Breiðavíkur. og ég tel mig ekki vera ill aupplýsta.

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 7.2.2007 kl. 20:29

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ef maður reynir að aðgreina umræðuna í tvennt, annars vegar þá atburði sem gerðust í Breiðavík og hins vegar viðbrögð fólks við frásögnum af þessum atburðum, þá fær maður ekki varist ónotakennd yfir ofsanum sem grípur sumt fólk þegar það heyrir frásagnir af þessu tagi. Bloggfærslan þín staðfestir að dómgreindin fer út í veður og vind í hamförum hugans í leit að sökudólgi. Við erum sannarlega skrýtin skepna, mannskepnan.

Páll Vilhjálmsson, 7.2.2007 kl. 23:27

9 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Tek heils hugar undir síðustu setninguna í bloggi þínu Hlynur.

 Hef líka verið mikið að velta fyrir mér þetta með aumingja strákana sem lentu í þessu öllu. Þeir hafa margir hverjir orðið sekir um slæm athæfi síðan þeir voru vistaðir fyrir vestan og ekkert skrýtið eftir þessa lífsreynslu. En það sem ég hef sem sagt verið að velta fyrir mér er þessi spurning, hvað gerði þá sem brutu gegn þessum drengjum að þessu fólki sem það varð að? Lenti það kannski líka í einhverju svipuðu og þeir drengir sem lentu svo fyrir barðinu á því?

Förum varlega í að dæma aðra, við vitum ekki hvað liggur að baki.

Ágúst Dalkvist, 7.2.2007 kl. 23:40

10 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Smá knús í umræðuna HÉR

Júlíus Garðar Júlíusson, 8.2.2007 kl. 09:57

11 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hlynur: Skynsamir menn sem sjá tilveruna með báðar lappir á jörðinni eru sjaldgæfir... Ég fann einn slíkan hérna! 

Heiða B. Heiðars, 9.2.2007 kl. 02:50

12 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Báðar lappir? Ég hef stundum líkt mér við kónguló - með allar lappir á jörðinni.

Hlynur Þór Magnússon, 9.2.2007 kl. 04:19

13 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Eða áttirðu kannski við einhvern annan en mig ...?

Hlynur Þór Magnússon, 9.2.2007 kl. 04:20

14 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Neibb... var að beina orðum mínum til þín, kónguló :)

Heiða B. Heiðars, 9.2.2007 kl. 05:08

15 Smámynd: áslaug

Af hverju slekkur manneskjan ekki á símanum?

áslaug, 10.2.2007 kl. 03:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband