Ákæruvaldið gegn Sigga Sveins ...

Mynd bb.isSigurður Sveinsson á Góustöðum í Skutulsfirði, liðlega hálfníræður að aldri, var í morgun sýknaður í Héraðsdómi Vestfjarða af ákæru fyrir eignaspjöll. Hér var um að ræða ítrekaða tilraun ákæruvaldsins til að fá Sigurð dæmdan fyrir að hafa látið setja ónýtt bátshræ á gamlársbrennu Ísfirðinga árið 2003 - gerónýtt brak sem ekkert var hirt um og ekkert borgað af og var öllum til ama.

                                       

                                        

Siggi Sveins var nærfellt hálfa ævina umsjónarmaður áramótabrennunnar á Ísafirði. Málinu var á sínum tíma vísað frá héraðsdómi en þeirri frávísun var áfrýjað til Hæstaréttar, sem vísaði málinu aftur til héraðsdóms.

  

Næsta skref ákæruvaldsins í málinu hlýtur að blasa við: Áfrýja aftur til Hæstaréttar! Aldrei að gefast upp! Siggi Sveins verður örugglega hundrað ára!

 

Af hverju koma Baugsmál upp í hugann ...?

 

Því má bæta við, þeim til eldsneytis sem nærast á samsæriskenningum, að Siggi Sveins er föðurbróðir Magnúsar Þorsteinssonar, stjórnarformanns Hf. Eimskipafélags Íslands, áður Avion Group, óþekkta mannsins sem allt í einu varð kunnur sem félagi Björgólfsfeðga í bruggævintýrinu í Rússlandi og einn þremenninganna í Samson  ...

                          

Framburður vitna um bátshræið og ástand þess var á einn veg. Dæmi:

 

Theódór Theódórsson, starfsmaður Ísafjarðarhafnar og fyrrverandi sjómaður, lýsti atvikum máls svo fyrir dómi að báturinn Inga Hrönn ÍS-100 hefði verið í hirðuleysi í höfninni á Ísafirði í talsverðan tíma. Þegar báturinn hefði verið orðinn fullur af sjó, og við það að sökkva, hefðu starfsmenn hafnarinnar tekið þá ákvörðun að leita eftir aðstoð frá starfsmönnum Eimskips og hífa bátinn á land. Honum hefði síðan verið komið fyrir á geymslusvæði við höfnina.

 

Þegar báturinn hefði verið fluttur af geymslusvæðinu og á brennuna sagði vitnið sér hafa verið tjáð að annar eigandi bátsins, Þórður G. Hilmarsson, hefði gefið leyfi fyrir töku hans. Vitnið sagði bátinn þá hafa verið orðinn handónýtt fúabrak. Þá sagði vitnið mann, sem haft hefði í hyggju að taka búnað úr bátnum, hafa tjáð sér að hann hefði gripið í tómt, búið hefði verið að hirða allan búnað úr bátnum. Vélina kvað vitnið reyndar enn hafa verið í bátnum, en ástand hennar áleit vitnið ekki geta hafa verið beysið eftir að hafa verið meira og minna á kafi í sjó.

 

Fram kom hjá vitninu að það hefði ítrekað reynt að hafa samband við Þórð G. Hilmarsson vegna hafnargjalda en með litlum árangri. Til hins eiganda bátsins, Hannesar Hvanndal Arnórssonar, hefði vitnið aldrei náð.

 

Guðmundur M. Kristjánsson greindi svo frá fyrir dómi að um mitt ár 2002 hefði hann verið ráðinn hafnarstjóri á Ísafirði. Báturinn Inga Hrönn ÍS-100 hefði þá verið á svokölluðu uppsátri á Suðurtanga.

 

Vitnið, sem taldi sig hafa ágætt vit á bátum eftir að hafa starfað við sjómennsku í áratugi, kvaðst oft hafa skoðað bátinn og hefði hann að mati vitnisins verið „... gjörsamlega ónýtur ...“, báturinn verið ónýtt „fúabrak“. Nánar bar vitnið að það hefði bæði farið um borð í bátinn og gengið í kringum hann. Fullyrti vitnið að engin tæki hefðu verið eftir um borð í bátnum er það skoðaði hann. Þá lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að vél og rafmagn hlyti að hafa verið orðið ónýtt þar sem báturinn hefði, að sögn starfsmanna hafnarinnar, verið um hríð hálfsokkinn í höfninni, áður en hann var hífður á uppsátrið.

 

Fram kom hjá vitninu að hafnarsjóður hefði árið 2002 afskrifað allar skuldir tengdar bátnum, um það bil 220.000 krónur.

   

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða


mbl.is Sýknaður af ákæru vegna áramótabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband