Hvað í ósköpunum er þetta eiginlega? Á ráfi mínu á vefnum rakst ég á bréf, dagsett fyrir rúmum þremur árum, sem sagt er að hafi verið sent til allra þingmanna. Í því bréfi er vitnað í annað bréf (og tengt í það á pdf-formi), dagsett fyrir rúmum sex árum, stílað á Lögreglustjórann í Reykjavík. Undir báðum bréfunum er nafnið Guðrún Magnea Helgadóttir.
Hvað er hér á ferðinni? Þráhyggja þessarar konu? Grátt gaman á kostnað hennar? Eða liggja einhver sannleikskorn þarna að baki?
Guðrún Magnea Helgadóttir er í Íslendingabók, tæplega sextug að aldri, og í Símaskránni, skráð í Látraseli í Reykjavík. Skrifaði hún í rauninni þessi bréf? Hver kom þessu á vefinn?
Lesningin er eins og reyfari. Við sögu koma morð á nafngreindri konu (móðursystur morðingjans), þjófnaður úr peningaskáp á auðæfum sem Ásbjörn Ólafsson heildsali átti að hafa látið eftir sig, fimmtíu tonna bjarg á lóðinni að Markarflöt 11 í Garðabæ og lík Geirfinns grafið þar undir, samsæri á æðstu stöðum um að hindra framgang réttvísinnar, skuggalegar mannaferðir á næturþeli, fundir með nokkrum af æðstu mönnum lögreglunnar og svo framvegis.
Eiginlega get ég ekki litið á þetta sem neitt annað en heilaspuna - rugl sem enginn hafi tekið neitt mark á og ekkert mark sé á takandi. En - hefur ekki stundum sitthvað komið á daginn sem enginn vildi hlusta á, vitnisburðir sem enginn tók neitt mark á?
Byrgið, svo dæmi sé tekið? Hefur margt nýtt komið fram í því máli að undanförnu? Það held ég varla. A.m.k. líklega fátt sem landlæknir og Magnús Stefánsson, sem nú er félagsmálaráðherra, höfðu ekki vitað árum saman. Núna er landlæknir búinn að biðjast afsökunar á því að hafa stungið undir stól þeim alvarlegu upplýsingum sem Pétur Hauksson geðlæknir lét embættinu í té árið 2002. Ég man ekki hvort það var læknirinn eða stúlkurnar í Byrginu sem hann bað afsökunar. Er Magnús kannski líka búinn að biðjast afsökunar?
Breiðavík? Varla hefur nokkuð nýtt komið fram í því máli að undanförnu, þó að allir séu að tala um það. Meira að segja hafa frásagnir af ástandinu í Breiðavík komið fram í bókum fyrir langalöngu. Sævar Marinó Ciesielski sagði skilmerkilega frá því á sínum tíma - já, pilturinn sem dæmdur var fyrir morðið á Geirfinni Einarssyni en hefur æ síðan haldið fram sakleysi sínu af fullri staðfestu. En það tók enginn mark á Sævari Ciesielski í því efni fremur en öðru. Sadistar í störfum hjá ríkinu héldu bara áfram að þjóna sinni lund með því að misþyrma honum á sál og líkama, rétt eins og gert hafði verið í Breiðavík. Að þessu sinni í Reykjavík. Tilgangurinn var auðvitað göfugur: Að fá helvítis rottuna (eins og hann var jafnan kallaður) til að játa á sig morð. Í Guðmundar- og Geirfinnsmálum heppnuðust þær aðferðir svo vel, að framboð á játningum var langt umfram eftirspurn og þurfti að skera niður svo að sæmilega trúverðugt gæti talist fyrir dómi.
Og varðandi þessi bréf konunnar sem enginn virðist hafa tekið neitt mark á: Í ljósi þess að Geirfinnsmálið hefur aldrei verið upplýst með viðhlítandi hætti ...
Viðbót um hádegisbil: Var að lesa umfjöllun Fréttablaðsins á visir.is um bókina Stattu þig drengur, sem út kom fyrir þremur áratugum, en þar greinir Sævar Ciesielski m.a. frá dvöl sinni í Breiðavík. Bókinni var úthýst af almenningi og segir Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hennar, að hann hafi hreinlega verið afskrifaður í faginu á þeim tíma. Ég fann fyrir alveg gríðarlegri andúð og varð fyrir miklum árásum vegna hennar, segir hann. Höfundur bókarinnar, Stefán Unnsteinsson, veltir því alvarlega fyrir sér hvort Breiðavíkurmálið eigi eftir að leiða til þess að Geirfinnsmálið verði tekið upp enn á ný: Þar voru líka ákveðin mistök gerð og það eru til ótal vitni sem eru reiðubúin að varpa réttu ljósi á málið.
Ákveðin mistök! Kurteis maður, Stefán Unnsteinsson.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Facebook
Athugasemdir
Las einmitt þetta "bréf" líka um daginn og vissi ekki alveg hvað var í gangi. En væri ekki auðveldara að nagngreina þennan X fyrst búið er að gefa upp heimilsfangið?
Guðmundur H. Bragason, 11.2.2007 kl. 01:27
Jahamm. Einmitt. Akkúrat. Þarf umræðu frá mörgum, já mörgum, hliðum. Ver engann, hengi engann, lýsi eftir þroskaðri umræðu! (Er eitt n eða tvo í engan..n..?) (Betra að hafa aðalatriðin á hreinu.)
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.2.2007 kl. 02:00
Fékk þetta sent, og las fyrir einhverjum mánuðum síðan. Fannst þetta helst minna á reyfara eftir Stellu Blómkvist.
Sigríður Jósefsdóttir, 11.2.2007 kl. 12:24
Púkanum finnst þetta alveg eðlilegt, enda er hann þeirrar skoðunar að mannfólkið sé mjög skrýtin dýrategund og sjálfur er hann bara feginn að vera lítill og blár.
Hvort þarna er er um að ræða auglýsingu á lélegum reyfara, samhengislaust rugl manneskju sem þarf virkilega á geðlyfjum að halda, eða eitthvað annað - það er nokkuð sem Púkinn vill ekki taka afstöðu til á þessu stigi málsins.
Púkinn, 11.2.2007 kl. 12:30
Púki: Ekki ég heldur.
Hlynur Þór Magnússon, 11.2.2007 kl. 12:34
Las þetta bréf yfir og játa að það er svolítið reifarakent svo ekki sé nú meira sagt. En hvað þennan stein varðar og líkið undir honum, þá væri/hefði verið lítið mál fyrir lögregluna að kanna það hvort það væri lík undir steininum, það hefði ekki einu sinni þurft að lyfta honum. En svo er aftur spurning hversu lengi eða oft eigi að hlaupa á eftir vísbendingum hvort heldur sem þær eru trúverðugar eða ekki. En ég vil hinsvegar forðast það að taka afstöðu gagnvart þessara bréfaskrifa þar sem ég hef aðeins séð þetta á netinu og þekki ekki önnur skjöl tengd þessu.
Óttarr Makuch, 11.2.2007 kl. 16:48
Er ekki þögnin það einkennilegasta. Af hverju var ekki kært þegar nöfn birtust á netinu ? Magnea vildi fá á sig kæru. Hún beinlínis bað um að skrif hennar yrðu kærð. Hún skrifað undir fullu nafni. Almenn mótmæli urðu hins vegar til að þræði var lokað allavega þar sem ég var viðloðandi.
Til að þessi umræðan hætti, þarf að skoða málið. Hver er það sem ekki vill láta skoða þetta og kveða niður svona umræðu. Sú hugsun verður áleitin á mig allavega. Ég veit að ef svona skrif birtust um mig, vildi ég hreinsa mig af áburðinum þ.e.a.s. ef ég væri saklaus.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.2.2007 kl. 17:37
Ásthildur: Enginn kærði Sævar Ciesielski fyrir það sem hann sagði fyrir þrjátíu árum um drengjaheimilið í Breiðavík. Hann var einfaldlega hundsaður. Og hvað segir ekki útgefandi bókarinnar, Jóhann Páll Valdimarsson - núna betur þekktur sem JPV?
Hlynur Þór Magnússon, 11.2.2007 kl. 17:44
Hlynur, man ég það rétt að þú hafir verið fangavörður í Síðumúla þegar Sævar og þau voru í gæslu og að þú hafir átt með framburði mikinn þátt í því að harðræðið var tekið til rannsóknar, eða amk upplýstist við rannsókn? Það væri hið besta mál að rifja þá sögu alla upp nú þegar tilefni er til, því að eins og þú segir hefur ekkert mark verið tekið á Sævari en nú viðrar kannski öðruvísi en áður til slíkrar umræðu, í framhaldi af Breiðavíkurmálum.
Pétur Gunnarsson, 11.2.2007 kl. 18:53
Pétur, já ég var þar. Og kynntist þessum málum frá ýmsum hliðum. Fúsleiki minn til þess að ganga þar fram fyrir skjöldu enn á ný - sá sem gengur fram fyrir skjöldu er berskjaldaður - markast af tvennu. Annars vegar af þeirri trú sem ég kann að hafa á því að slíkt komi nokkru til leiðar, hins vegar af þeirri lífsreynslu sem fylgdi því að rísa upp gegn kerfinu og samstarfsmönnum mínum ...
Hlynur Þór Magnússon, 11.2.2007 kl. 19:27
Þessi Steinar sem á núna heima á Markarflöt 11 er það sá hinn sami og talað er um í bréfinu ? Mér finnst nú að það verði að kanna svona framburð og ég verð að segja að hvort sem Magnea þessi er rugluð eða ekki þá finnst mér skrítið af hlutaðeigandi að kæra ekki. Allavega er ég nokkuð viss um að ég tæki svona ásökunum ekki þegjandi.
Þóra Guðmundsdóttir, 11.2.2007 kl. 22:04
"Ákveðin mistök" í þessu sambandi er besta dæmið um "understatement" sem ég hef á ævinni séð
Heiða B. Heiðars, 11.2.2007 kl. 22:28
Já, Benedikt, ég man vel eftir þér og þó einkum þeim sem voru virkastir í skákinni fyrir og um 1970. Skoðun á því sem gerðist í raun? Ja, skoðun mín er eiginlega helst sú, að gott væri ef hægt yrði að upplýsa Geirfinnsmálið. Þetta hljómar kannski eins og útúrsnúningur, en segir þó líklega eitthvað ...
Hlynur Þór Magnússon, 12.2.2007 kl. 20:53
Ég frétti af umræðunni hérna á blogginu varðandi bréf sem ég skrifaði dags 4. nóvember 2003 og sendi til allra þingmanna, alls 74urra einstaklinga. Enginn þeirra svaraði bréfinu. Að vera sögð ;;Alvarlega geðveikur einstaklingur" er allt of léttvæg afsökun hjá framkvæmdavaldinu og eða þeirra sem vilja ekki að sakamálin sem rakin eru í bréfinu verði rannsökuð og upplýst...
Guðrún Magnea Helgadóttir, 18.2.2007 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.