Monsieur Gufuorgel, Marcel Duchamp og Framsóknarflokkurinn

Fylgi stjórnmálaflokkanna er eins og rótlaust þangið; rekst það um víðan sjá. Ætli hlutfall hinna óákveðnu og þeirra sem flakka á milli frá einni könnun til annarrar hafi nokkru sinni verið eins hátt? Er þetta vitnisburður um aukið sjálfstæði kjósenda? Eða vitnisburður um vantraust á krosstrjám samfélagsins?

 

Að minnsta kosti virðist ýmislegt í fréttum og umræðu að undanförnu varla til þess fallið að auka traustið á þeim sem fara með forsjána.

 

Ekki samt meira um Byrgið og Breiðavík og annað slíkt að sinni. Aðeins ein málsgrein, nánast af handahófi, til umhugsunar varðandi hvern stjórnmálaflokk:

 

- Framsóknarflokkurinn og áróðursbæklingurinn sem heilbrigðisráðherra lét Framkvæmdasjóð aldraðra borga.

 

- Samfylkingin og stefnur hennar, allt eftir því hver talar og hvar og hvenær.

 

- Sjálfstæðisflokkurinn og Árni Johnsen.

 

- Vinstri grænir og afstaða þeirra til umhverfismála í Mosfellsbæ, loksins þegar á eitthvað annað reynir en stóryrði í stjórnarandstöðu.

 

- Frjálslyndi flokkurinn og allt sem honum viðkemur.

 

Það er forvitnilegt að líta yfir fyrirsagnir. Ekki var upplífgandi að renna yfir fyrirsagnirnar á mbl.is í gærmorgun:

 

Flugeldur sprengdur við heimili lögreglumanns á Skagaströnd 

Reyndi að flýja vettvang eftir að hafa ekið á bíl  

Réðust inn til stúlku í verbúð  

Pallbíll á 129 km hraða á Sandgerðisvegi  

Fylgi Samfylkingar eykst á ný  

 

Varla er þessi lesning til þess fallin að auka traustið á mannskepnunni og samfélaginu.

 

Svo eru aðrar fyrirsagnir. Eins og t.d. þessi KSÍ-frétt, sem ég sá einhvers staðar: Eggert hættir eftir 18 ár. Hvað ætli hann verði þá orðinn gamall? hugsaði ég með mér.

 

Eða þessi af visir.is: Karlmaður beit lögreglumann. Af hverju er tekið fram að þetta hafi verið karlmaður? Til að fría Birnu Þórðardóttur af grun? Eða þykir þetta bara svo merkilegt, sbr. dæmið gamla: Hundur bítur mann er engin frétt; Maður bítur hund er frétt.

 

Undir fyrirsögninni Skemmtilegur flækingsfugl var ekki verið að fjalla um Kristin H. Gunnarsson.

 

Sagt var frá dómi yfir gamlingja sem skemmdi hina frægu hlandskál Duchamps frá 1917. Menn virðast ekki átta sig á því, að bæði skemmdarverknaðurinn og dómurinn eru hluti af gjörningnum sem listamaðurinn byrjaði á fyrir níutíu árum. Verkinu er ekki lokið. Hvað gerist næst?

 

Þá dettur mér í hug, að hlandskál Duchamps og Framsóknarflokkurinn eru nokkurn veginn jafngömul.

 

Fleiri skúlptúrafréttir. Gufuorgel vann í samkeppni um listaverk við Hellisheiðarvirkjun. Ég er svo fattlaus að ég hugsaði með mér þegar ég sá þessa fyrirsögn: Ætli þessi Musju Gufuorgel sé franskur eins og Marcel Duchamp?

 

Að síðustu þessi: Sigurður Kári með leikrit á Alþingi.

 

Er það fréttnæmt að þingmaður sé með leikrit á Alþingi?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín

Óborganlegur pistill

Hafðu þökk fyrir

Kveðjur að vestan 

Katrín, 12.2.2007 kl. 11:24

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ekki skrítið þó fólk eigi erfitt með að gera upp huga sinn hvað á að kjósa, kanski sleppa menn því bara og fara að gera eitthvað annað við tíman en að fylgjast með stjórnmálum.  Er það ekki þróunin að færri og færri mæti að kjörborðinu.

Ester Sveinbjarnardóttir, 12.2.2007 kl. 11:31

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

það vita nú allir að Alþingishúsið er dýrasta leikhús landsins.

Svava frá Strandbergi , 12.2.2007 kl. 12:15

4 Smámynd: Hlynur Hallsson

Leikrit Sigurðar Kára er fréttnæmt af því að handritið var svo lélegt og leikurinn of ýktur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 12.2.2007 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband