12.2.2007
Tíminn gengur aftur
Blöðin og tímaritin sem þegar eru komin á netið hjá Landsbókasafni eru svo sem nægilegur tímaþjófur, eins og ég hef áður vikið að. Samt er gaman að fá þar fleiri gömul dagblöð. Ekki síst Tímann, sem var eina dagblaðið sem ég las reglulega á árunum upp úr 1950. Þá var Framsóknarflokkurinn ennþá stjórnmálahreyfing. Þegar tómu brúsarnir komu með mjólkurbílnum dag hvern voru nokkur kíló af skyri í einum brúsanum og Tímanum smeygt undir hölduna á lokinu. Höfðu þá bæði líkami og sál - efnið og andinn - sína næringu þann daginn. Þessi bólusetning við Framsóknarflokknum hefur enst vel. Aftur á móti er ég farinn að fást til að éta skyr.
Nú er greint frá því, að næst eigi að mynda Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið til birtingar á netinu, sem og Dag á Akureyri. En þá vantar Vísi, sem stofnaður var árið 1910 og lifði þangað til hann var sameinaður Jónasi og Dagblaðinu kringum 1980. Eða lifir hann enn?
Var ekki sagt um Alþýðublaðið á þeim tíma þegar það var að dragast upp og verða að engu, að það kæmist fyrir í eldspýtnastokki? Ætli Hrafn Jökulsson geti staðfest það?
Skyldi Framsóknarflokkurinn komast fyrir í eldspýtnastokki núna?
Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:37 | Facebook
Athugasemdir
Hið besta mál að hægt sé að nálgast þessi gömlu blöð á netinu. Alltaf gaman að glugga í gamlar heimildir, hvort heldur er af bók, blöðum eða af netinu. Mikið væri nú annars einnig gott ef blaðahaugurinn sem lekur inn um lúguna hvern morgun tæki ekki meira pláss en örfáir eldspítustokkar.
Halldór Egill Guðnason, 12.2.2007 kl. 19:38
Takk fyrir kvittið....
Fishandchips, 12.2.2007 kl. 21:29
Mér er ljúft og skylt að staðfesta að Alþýðublaðið komst raunverulega fyrir í eldspýtustokki, þegar það var orðið að litlum og umkomulausum fjórblöðungi. Þegar ég gerðist ritstjóri Alþýðublaðsins 1994 var eitt af fáum skilyrðum sem ég setti að blaðið yrði aldrei minna en 8 síður. Svo lengst af mínum ritstjóraferli þurfti TVO eldspýtustokka fyrir boðskap dagsins.
Ég komst reyndar að þeirri niðurstöðu að 8 til 12 síður væri mjög heppileg stærð á dagblaði.
Smátt er fagurt, sögðu jafnaðarmenn í eina tíð.
Hrafn Jökulsson, 12.2.2007 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.