16.2.2007
Kennarar þúaðir á Hótel Sögu
Ég er að fara á kennarafagnað annað kvöld, kennarafagnaður er bara fínt orð yfir fyllerí með kennurunum, segir námsmaður einn hér á Moggabloggi. Þá rifjast upp kvöldið þegar ég át hænsnakjöt í fyrsta sinn á ævinni og þúaði jafnframt kennarana mína í Menntaskólanum í Reykjavík í fyrsta sinn. Og þeir mig. Þetta var á Hótel Sögu í Bændahöllinni, hótelinu sem núna er betur þekkt sem Radisson-SAS og verður víst bækistöð klæmingja á kvennafrídaginn*) eftir þrjár vikur.
Getið þér aldrei þagað nema á munnlegum prófum, helvítis fíflið yðar? sagði Guðni kj. enskukennari og síðar rektor eitt sinn við skólabróður minn. Samskipti kennara og nemenda í MR voru mjög formleg á þeim árum; hversu virðuleg þau voru fór eftir einstaklingum og atvikum.
Ég man ekki lengur hvort stúdentaveisla MR var á sjálfan þjóðhátíðardaginn; á því Herrans ári 1966 var hún a.m.k. um miðjan júní. Þá slaknaði á formlegheitunum, skólinn hélt okkur nýstúdentum fagnað á Hótel Sögu og kennararnir buðu okkur dús og meira í glasið. Eitthvað fannst manni undarlegt að þúa allt í einu Guðna Guðmundsson og ekki síður Magnús Finnbogason magister, sem eitt sinn vísaði mér úr íslenskutíma fyrir ósvífni - og þéraði mig um leið. Eðlilegra virtist að þúa Ólaf Hansson, Baldur Ingólfsson og Vigdísi Finnbogadóttur - Ólaf á íslensku, Baldur á þýsku og Vigdísi á frönsku. Af skiljanlegum ástæðum varð latínukennarinn eigi þúaður sérstaklega við þetta tækifæri.
Meira hvað tíminn líður! Það er eins og þetta hafi verið í gær, nema hvað ég er ekki með höfuðverk. Samt eru himinn og haf á milli. Í minni sveit voru hænsni ekki étin; þau voru grafin ellidauð að loknu löngu og farsælu ævivarpi. Og allar þéringarnar! Þá þéruðu fréttamenn ráðherra og þingmenn en allur gangur var á því hvort þeir voru þéraðir á móti eða hvort þeim var yfirleitt ansað. Nú er öldin önnur í samskiptum þessara stétta.
Eitt af kvæðum vestfirska sveitaskáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar á Kirkjubóli hefst svona: Þér hrútar ...
*) Síðbúin leiðrétting: Alþjóðlegi kvennadagurinn er 8. mars, Kvennafrídagurinn er 24. október. Dóttir mín hringdi í mig og benti mér á þessa heldur hvimleiðu villu, sem helst mætti kalla skriflegt mismæli; ég veit og vissi betur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:29 | Facebook
Athugasemdir
Já, heimur versnandi fer. Bugt, beygingar og þéranir til samsmælingja okkar var dyggðug list. Virðingarstöður hafa líka breyst, bílstjórar og stúdentar titluðu sig og raunar allir, sem báru einhverskonar pottlok til vegsauka. Gamla góða Faðirvorið var kannski rétta formið á þessu skikki. Þar þúum við Guð en þérum okkur sjálf. Hvernig væri að taka það upp?
Frábær frásögn.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.2.2007 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.