19.2.2007
Fær Ólafur Ragnar að gerast frímúrari?
Enn eru menn farnir að þrasa um embætti forseta Íslands (les: persónuna sem gegnir embættinu) - á fimmtán ára afmæli hins skítlega eðlis. Sumir geta seint fyrirgefið þjóðinni að hafa kosið Ólaf Ragnar Grímsson en ekki Pétur Kr. Hafstein eða Ástþór Magnússon.
Fyrir skömmu var þess krafist að forsetaembættið mætti í yfirheyrslu fyrir utanríkismálanefnd út af setu Ólafs Ragnars í klúbbi á Indlandi. Núna ræddi Sjónvarpið við lagaprófessor sem sagði að forsetaembættið heyrði undir forsætisráðuneytið - væntanlega með svipuðum hætti og Hagstofa Íslands gerði til skamms tíma. Ólafur Ragnar segir hins vegar sjálfur að embættið heyri ekki undir neitt ráðuneyti heldur sæki það umboð sitt til almennings.
Þess má geta, að Ólafur Ragnar Grímsson er doktor í stjórnmálafræði og fyrrverandi prófessor í þeirri grein. Auk þess hefur hann haft bæði löggjafarvald og framkvæmdavald með höndum sem alþingismaður og ráðherra.
Hvernig hefði verið að spyrja prófessor í stjórnmálafræði út í þetta mál? Þar hefðu bæði dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson og dr. Svanur Kristjánsson komið vel til greina, allt eftir því hvaða svör menn hefðu viljað fá ...
Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi ekki mætt í yfirheyrsluna hjá Halldóri Blöndal og utanríkismálanefnd um daginn. Kannski hefur hann haft öðrum hnöppum að hneppa í útlöndum, líkt og Jón Ásgeir Jóhannesson stundum. En ef honum skyldi nú detta í hug að ganga í rótarýklúbb, eða bókmenntaleshring - á hann þá að sækja um leyfi hjá félagsmálanefnd eða menntamálanefnd Alþingis eða spyrja Geir H. Haarde beint?
Ætli Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson hafi sótt um leyfi til að sækja fundi í frímúrarareglunni og greint þingnefndum frá starfinu þar?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:56 | Facebook
Athugasemdir
Reyndar ekki.
Hlynur Þór Magnússon, 19.2.2007 kl. 22:59
Sammála þér Hlynur, Ólafur veit hvað hann er að segja sem fyrrverandi stjórnmálafræðiprófessor og sérfræðingur í stórnlagafræðum. Ég stundaði bæði nám hjá Sigurði Líndal í lagadeild og síðar Ólafi Þ. Harðarsyni og Svani Kristjánssyni. Allir kenndu þeir túlkun Ólafs meðferð synjunarvalds og valdsviði forsetans alment, sem eru ekki mikil fyrir utan það að vera öryggisventill fyrir almenning, ef gjá myndast milli þings og þjóðar.
Egill Rúnar Sigurðsson, 19.2.2007 kl. 23:18
--- minnir mig á smákrakka og spurninguna hvor ræður yfir hverjum --- orkuslagur
Vilborg Eggertsdóttir, 20.2.2007 kl. 00:22
Er ekki töluverður munur á að vera félagi í Rótarýklúbbi eða í efnahagsráðgjafarnefnd fyrir eitt stærsta ríki veraldar?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.2.2007 kl. 16:59
Það sem er ámælisvert í umfjöllun ÓRG er að hann telur forseta ekki lúta þingræðinu þ.e. fulltrúum alþingis í ríkisstjórn. Hann sagði;" það er mikill misskilningur að forseti þurfi að lúta stjórn ráðherra að forsetaembættið sé eins konar deild í ráðuneyti. Það er miklu fremur að ráðuneyti sé deild í forsetaembættinu. Þetta leiðrétti núverandi prófessor í stjórnskipunarrétti og er það í samræmi við erlendan skilning á þingræðisreglunni sjá td. en.wikipedia.org og ísl. fræðimanna.
Jón Sigurgeirsson , 20.2.2007 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.