2.3.2007
Ég er lítill tréhestur
Merkilegt hvernig maður getur tekið ævilöngu ástfóstri við bækur. Eða eitthvað annað. Nánast upp úr þurru. Mér þykir einna vænst um Ævintýri litla tréhestsins af öllum bókum sem ég hef eignast og hef lesið hana misreglulega síðustu hálfa öldina eða svo. Ef ég ætti að velja eina bók til að hafa með mér á eyðieyju, eða yfir í eilífðina, þá tæki ég hana. Næst kæmi Candide / Birtíngur í þýðingu Kiljans - og með formálsorðum hans! Ef ég mætti hafa enn fleiri rit með mér, þá kæmu m.a. þessi - í óvissri röð: Egils saga, bækurnar um Tom Swift, Passíusálmarnir, Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton, Hávamál, Innansveitarkróníka, Sögukaflar af sjálfum mér eftir séra Matthías ...
Tarna er undarleg upptalning! Mér skilst að bækurnar eftir Enid Blyton séu einstaklega vondar bókmenntir. Bækurnar um Tom Swift jafnvel enn verri. En væntumþykja hlítir ekki alltaf rökum, allra síst bókmenntafræðilegum rökum.
Í gamla daga hlakkaði ég til þess að leggja stund á íslensku við Háskóla Íslands. Byrjaði þar samhliða námi í sagnfræði. En vonbrigðin urðu skelfileg. Á öðrum vetri í íslenskunni labbaði ég út og kom þar aldrei síðan. Að vísu hafði ég ekkert yfir málfræðinni og málsögunni að kvarta; mér fannst t.d. bæði fróðlegt og ákaflega skemmtilegt að kynnast gotneskunni. En bókmenntakennslan! Ég labbaði á dyr með þau orð á vörum, að ég kærði mig ekkert um að láta segja mér hvernig ég ætti að skynja tiltekin skáldverk. Að vísu var ég á menntaskólaárum búinn að kynnast steingeldum stöglurum á borð við Magnús Finnbogason magister og Bjarna Guðnason - en ég hélt að annað tæki við í háskóla að þeirri afplánun lokinni.
Ég hafði minn skilning, mína skynjun, á bókum sem ég hafði lesið í æsku og þótti vænt um, ég hafði í huga mér skapað mér mína eigin mynd af persónum og umhverfi - en núna komu tilskipanir um staðlaðan og samræmdan skilning sem allir yrðu að hafa til að ná prófum. Þegar ég fékk fyrirskipun um það hvernig ég ætti að skynja persónurnar í Manni og konu upp á nýtt, þá labbaði ég út. Tók síðan tvö stig í þýsku til að fylla upp í BA-prófið með sagnfræðinni samkvæmt sex stiga kerfinu sem þá var við lýði.
En aftur að litla tréhestinum og ævintýrum hans. Höfundurinn er Ursula Moray Williams, tvíburasystir Barböru Árnason. Þegar bókin kom í huga mér núna áðan, þegar ég las fréttina sem vísað er til hér að neðan, sló ég nafnið Ursula Moray Williams inn í leitarvélina Emblu til að finna íslenskar heimildir um hana. Og fékk þetta:
Leitað að Ursula Moray Williams
Áttirðu við rusula moran Williams?
Nei, ég átti ekki við rusula moran Williams. Ég átti við Ursula Moray Williams eins og ég hélt að lægi fyrir. Merkilegar þessar bjánaspurningar sem maður fær iðulega í svarastað hjá leitarvélinni Emblu. Því næst notaði ég google.com og fékk mikið efni í hendurnar. Ursula Moray Williams lifði allt fram á þennan vetur, kom mér á óvart; dó um miðjan október, 95 ára að aldri. Bendi hér aðeins á dánarminningu í The Guardian.
Ég er litli tréhesturinn.
Hroki og hleypidómar uppáhaldsbók breskra lesenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Bækur | Breytt s.d. kl. 08:51 | Facebook
Athugasemdir
Ég held einmitt að ég sé búin að lesa allar Ævintýrabækurnar ca. 10 sinnum í gegn síðan ég var 8 ára. En þú steingleymdir að nefna heimsbókmenntirnar "Ísfólkið"
Jónína Sólborg Þórisdóttir, 2.3.2007 kl. 08:58
Ég verð greinilega að lesa Ævintýri litla tréhestsins
Kolgrima, 2.3.2007 kl. 10:51
Átti allar Tom Swift bækurnar og fannst þær æðislegar!! Á þær enn í kassa á góðum stað hehe
Guðmundur H. Bragason, 2.3.2007 kl. 12:04
Varð fyrir svipaðri upplifun fyrir margt löngu er ég var nemi í bókmenntafræði við H.Í. Gekk út eftir að hafa setið námskeið hjá Helgu Kress og hef aldrei komið þangað inn til að nema síðan. Frjáls hugsun átti ekki upp á pallborðið þar
Katrín, 2.3.2007 kl. 14:41
Tréhestur
Hvernig getur halur lært
Heilinn telst heldur ónýturhuganum rétt að beita
Á íslandi er ýmsum kært
itroðslu að veita.
hafi hann ekki réttan tón
Tréhestur á tölti hnýtur
traustabrestir, eina bón.
Ester Sveinbjarnardóttir, 2.3.2007 kl. 15:30
Ugluspegil las ég. Man ekki hvort ég átti bókina eða fékk hana lánaða.
Hlynur Þór Magnússon, 2.3.2007 kl. 16:08
Ég hafði íhugað að fara í íslenskunám við HÍ. Ekki í bráð þó. En nú hef ég skipt um skoðun og læt mér nægja sjálfsnámið. Það er án efa mun skemmtilegra. Og líklega mun ég sinna því betur. Ég hef alltaf átt erfitt með að lesa það sem mér er sagt að lesa, jafnvel þó það sem kennarinn sem talar.
erlahlyns.blogspot.com, 2.3.2007 kl. 17:39
Ó, hvað ég grét yfir Bláskjá litla...
Greta Björg Úlfsdóttir, 2.3.2007 kl. 18:13
Mér fannst Bob Moran betri en Tom Swift.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 3.3.2007 kl. 02:15
Annars finnst mér þessi frétt sem þú vísar í harla undarleg.
Þar er fyrst fjallað um bókina sem er í fyrsta sæti, síðan þá í fjórða, næst bókina er vermir annað sætir og loks það þriðja. Sumsé: 1, 4, 2, 3.
erlahlyns.blogspot.com, 3.3.2007 kl. 02:37
Sumar bækur eru eins og dauf leiftur í minningunni; andartakskennd blandin angurværð líkt og déja vu eða leifarnar af draumnum áður en klukkan hringdi. Þannig fer með Bláskjá í huga mér; sárlangar núna að sjá hann aftur, man samt eiginlega ekkert.
Las aldrei Bob Moran. Ætli hann sé skyldur rusula moran Williams? Aftur á móti las ég nánast í frumbernsku bækur um Beverly Gray heima hjá frænku minni. Man ekki lengur neitt nema nafnið.
Varðandi röðina 1,4,2,3 - mér sýnist þetta vera sprengiröð í fjögurra strokka línumótor ...
Hlynur Þór Magnússon, 3.3.2007 kl. 06:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.