Hvaða flokk eiga máttarstólpar þjóðfélagsins að kjósa?

Ég þekki vel einn af máttarstólpum þjóðfélagsins. Þetta er liðlega sextug kona, sem er búin að gefast upp. Hún sér enga leið til að lifa mannsæmandi lífi lengur. Við henni blasir gatan eða að fara á sveitina, verða sveitarómagi.

 

Við skulum líta á tekjur þessarar konu, skattgreiðslur hennar, eignir hennar.

 

Tekjurnar eru annars vegar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 78 þúsund á mánuði, og hins vegar greiðslur úr lífeyrissjóði, 70 þúsund á mánuði. Samtals 148 þúsund á mánuði. Konan var áratugum saman í láglaunastarfi en fyrir tæpum áratug neyddist hún til þess að hætta að vinna. Hún var orðin gersamlega óvinnufær vegna veikinda. Sjúkdómur hennar ágerist hægt en örugglega, ólæknandi og sársaukafullur, þó að reynt sé að tefja framgang hans með dýrum lyfjum.

 

Af áðurgreindum 148 þúsund króna heildartekjum á mánuði er tekinn skattur, 25 þúsund krónur á mánuði.

              

Útborgaðar fær konan 123 þúsund krónur á mánuði.

              

Eignir hennar eru tvær, fyrir utan fátæklegt innbú. Annars vegar íbúð úti á landi, sem hún er nýbúin að setja á sölu. Hún stendur ekki undir því að eiga hana og borga af henni. Fasteignasalinn telur að sex til sjö milljónir króna geti fengist fyrir íbúðina. Áhvílandi eru nokkrar milljónir. Hins vegar sex ára gamall bíll, sem er eini lúxusinn sem þessi kona leyfir sér. Enn sem komið er hefur hún þrjóskast við að selja hann. Einhvern veginn er eins og það sé ákveðið frelsi fyrir sálina ekki síður en líkamann að vera á eigin bíl. En lúxus af því tagi er auðvitað bölvuð vitleysa, óspilunarsemi, ráðdeildarleysi. Hún þarf ekki að fara neitt og á auðvitað ekki að vera neitt að þvælast. Og gerir lítið af því. Ekki notar hún bílinn til að fara í óperuna! Það er dýrt að eiga og reka bíl, jafnvel þó að hann sé sjaldan hreyfður.

 

En þá kemur að meginatriðinu í þessu skrifi: Skattleysismörkunum. Látum liggja milli hluta hversu rausnarlegar örorkubæturnar og lífeyrissjóðsgreiðslurnar mega teljast.

 

Yfirvarðhundur ríkissjóðs sagði fyrir skömmu, að það væri of dýrt fyrir ríkið að hækka skattleysismörkin. Það var á honum að skilja að slíkt myndi stofna ríkissjóði í bráðan voða.

                

Þar með liggur það fyrir hverjir eru máttarstólpar þjóðfélagsins.

                 

Það eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar, öryrkjar sem nánast allar bjargir eru bannaðar. Það eru máttarstólpar þjóðfélagsins. Ef dregið verður úr skattheimtu af tekjum þessa hóps, þá er ríkissjóður í voða.

 

Nú er að sjá hvort íbúðin selst fyrr eða síðar. Þá rýmkast hagurinn um sinn. Þá verður um stundarsakir hægt að gera betur við sig í mat. En - hvað með húsnæðið? Veit einhver sem þetta les hvað það kostar að taka íbúð á leigu? Konan sem um ræðir er búin að kynna sér það, og henni féllust hendur. Dæmið gengur ekki upp.

 

Fyrir nokkrum árum sá ég fréttir af einhverjum mönnum sem búa í bílum eða tjöldum. Gott ef Steingrímur Njálsson átti ekki heima í bíl, próflaus maðurinn. Skyldi hann kannski vilja gefa fólki ráð í þessum efnum, gerast eins konar þjónustufulltrúi?

 

Konan sem ég er að tala um er búin að gefast upp. Hefur engan áhuga á því að standa í þessu meira. Lífsviljinn er að fjara út. Mér líst hreinlega ekkert á blikuna.

                       

Svona er nú það.

                    

En hvað með spurninguna sem fram kemur í fyrirsögninni? Hefur einhver svar við henni?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Ekki myndi ég ráðleggja henni að kjósa stjórnarflokkana. Svo mikið er víst. Spurning um að kynna sér stefnu og árangur hinna þar sem þeir hafa setið við völd.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 12.4.2007 kl. 12:17

2 identicon

Sammála Ingibjörgu að númer eitt hjá henni væri að útiloka núverandi stjórnarflokka alveg og nota svo útilokunaraðferðina þar til að einn flokkur stendur kanski eftir sem skársti kostur.

Stefán 

Stefán (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 13:24

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sæll Hlynur!  Ágætis ábending hjá þér, og styður við mínar skoðanir um skattamál sem ég viðraði í bloggi hér í gær. Við verðum að ná ráðandi öflum þessa lands niður á jörðina meða, að ekki gengur að taka af fólki lífsbjörgina til að ríkissjóður geti bólgnað út, í þágu misgáfulegra verkefna!  Þarfir fólksins til að geta framfleytt sér og sínum hljóta að koma fyrst. Enginn ávinningur að gera fólk ósjálfbjarga með skattheimtu!

Kristján H Theódórsson, 12.4.2007 kl. 13:38

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hún gæti kannski fengið að drýgja tekjurnarvið að skúra gímaldið, sem Glitnir ætlar að byggja fyrir arðránið.  Hún ætti að kjósa þann flokk, sem setti fyrirtækjafasismanum hömlur og hyggði á að taka tekjurnar af þeim í stað varnarlauss fólks.  Annars sagði stjórnvitringurinn Valgerður Sverrirsdóttir að við hefðum það "að meðaltali" svo miklu betra en aðrir.  Að meðaltekjur á mann væru 4-600.000 á mánuði,  það er því einkennilegt að sjá svona "undanteknigu" frá ríkidæminu.  Engin flokkur þorir að taka á þessu og því er það jafn gott fyrir hana að sitja heima og láta kylfu ráða kasti.  "Fulltrúalýðræði" Valgerðarsér fyrir sínum. (svona hugtak til aðgreiningar frá svona leiðinda lýðræði, sem gefur fólki rétt til að hlutast til um örlög sín).

Ég yrði ekki hissa á að þetta springi bráðum. Fólk er gersamlega búið að fá nóg af þessari kúgun og spillingu.  Í evrópusambandið strax, segi ég. Þar er allavega lögjöf um jafnræði og mannréttindi, sem þessir glæpahundar geta ekki sniðgengið.    

Jón Steinar Ragnarsson, 12.4.2007 kl. 14:58

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Sæll og blessaður, þessi orð eru í tíma töluð. Ég hef auðvelt og skýrt svar: kjóstu Íslandshreyfinguna. Stefnuskráin er á heimasíðunni: islandshreyfingin.is þar er meðal annars sagt: "lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja skulu vera undanþegnar tekjuskatti."  Nánar um húsnæði ofl. á sama stað. 

Knús og kveðjur til sextugu konunnar , ég veit hvað hún er að tala um og þetta er þjóðfélaginu til skammar í dag.

Ragnhildur Jónsdóttir, 12.4.2007 kl. 15:02

6 Smámynd: Ibba Sig.

Ég þekki  eldri konu í svipuðum sporum. Hún fær rúmlega 90 þús á mánuði frá TR. Ástæða þessarar lágu greiðslu er smávegis upphæð úr lífeyrissjóði í útlöndum þar sem hún bjó um árabil. Lífeyrisgreiðslur þessarar konu koma þó aldrei í hennar hendur því hún skuldar banka í útlöndum frá því hún stóð í fyrirtækjarekstri þar með manni sínum sem nú er fallinn frá. 

Hún leigir íbúð á 42 þúsund á mánuði en nú á að selja það hús svo hún leitar að nýjum samastað. En leiguverð á íbúð sem hentar henni er ekki undir þessum 90 þúsundum sem hún hefur til umráða á mánuði. Biðlistar í félagslegar íbúðir eru langir og erfitt að fá inni. Kannski getur hún leigt herbergi í íbúð með 12 Pólverjum?

Hún hlustar á Elton John og 50 Cents í frístundum.  

Ibba Sig., 12.4.2007 kl. 16:34

7 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ibba: Kallarðu rúmlega 90 þúsund krónur lága greiðslu? Lága greiðslu? Greiðslur í þessari himinhæð eru að ríða íslensku samfélagi á slig! Talaðu bara við Árna dýralækni, yfirvarðhundinn sem nefndur var, erfingja auðæfa upp á milljarða frá ráðherranum gamla pabba sínum og þar með erfingja embætta hjá Sjálfstæðisflokknum, manninn sem valdi einmitt að bjóða sig fram í kjördæminu þar sem konan umrædda á heima. Ef henni geðjast ekki að því að kjósa þann Árnann, þá eru auðvitað fleiri geðþekkir Árnar í boði í Suðurkjördæmi, Árnar sem kannski er ennþá betur treystandi fyrir fjármunum ríkisins en þessum ...

Hlynur Þór Magnússon, 12.4.2007 kl. 16:54

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Þú veist að þetta er ekkert einsdæmi. Máttarstólpur sem stendur mér nærri, fær 85.000 eftir skatta!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.4.2007 kl. 20:27

9 Smámynd: Magnús Jónsson

Hver á að borga þessar 40 milljarða sem kostar að hækka skattleysismörkinn í 150 þús á mán, eru það breiðubökin sem hafa 200 þús á mán, er það unga fólkið sem sem vinnur á kassa hjá bónus og er með 100 þús, á mán, er það 6 manna fjölskyldan sem hefur 500 þús á mán, eiga ekki allir að greiða eitthvað, eða eiga sumir að vera stikkfrí alla ævi og fá svo meira í bætur en margur hefur í laun fyrir sitt strit. Seint verður rétt gefið af allra mati, en ekki meyga menn  halda að þeir sem telja að hægt sé að borga meira án þess að taka það einhverstaðar séu hæfir til að stjórna.  

Magnús Jónsson, 12.4.2007 kl. 21:10

10 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Að sjálfsögðu Sjálfstæðisflokkinn, ekki spurning.

Vilborg Traustadóttir, 12.4.2007 kl. 21:20

11 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta eru góð og sláandi skrif en það var nú ekki að heyra á ræðumanninum í kvöld að það væru maðkarnir í mysunni hans og lofaði gulli og grænum í viðbót, ef fólk asnaðist til að framlengja lífi þessarar ríkisstjórnar? Jafn undarlegt og það er þá yrði ég ekkert hissa þó honum yrði að ósk sinni og gamlingjar sem aðrir kysstu bara á vöndinn og framlengdu bullinu. En þetta er þörf umræða.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 12.4.2007 kl. 21:25

12 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Ég á nú foreldra um sjötugt sem eru lika að gefast upp. Ekki vegna fjárhagserfiðleika heldur vegna þess að þau fá nánast enga aðstoð eða skilning í veikindum sínum. Fólk er bara látið deyja heima hjá sér ef því er að skipta! Eins gott að ég kíki til þeirra reglulega og fer út og kaupi í matinn. Ef ég væri ekki til hvar væru þau þá ? Heima hjá Geir Haarde ? Tekur hann kannski að sér persónulega að sjá um fólk sem er orðið veikt og fær enga aðstoð ?

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 12.4.2007 kl. 21:41

13 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ingibjörg Elsa og þið öll hin: Ég heyrði í útvarpinu glefsur úr ræðu Geirs H. Haarde við setningu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og glefsur úr þeim æðisgengnu fagnaðarlátum sem fylgdu. Ég er búinn að biðja köttinn minn að reyna að sjá til þess, að ég skrifi hér ekki meira um málefni þeirra sem minna mega sín fyrr en í birtingu í fyrramálið. Ekki gott fyrir heilsuna að spekúlera í slíku svona undir svefninn ...

Hlynur Þór Magnússon, 12.4.2007 kl. 21:58

14 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Góða og blessaða nótt.

Vilborg Traustadóttir, 12.4.2007 kl. 22:34

15 Smámynd: Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu

Samspil skattleysismarka og skattbyrða virðist eitthvað vefjast fyrir forsætisráðherra og því er hér bloggfærsla með vísun á frekari heimildir þar sem reynt er að varpa ljósi á staðreyndir málsins.

Athyglisverðast er samt að sömu aðilar og kannast ekkert við að meðvituð raunlækkun skattleysismarka hafi stóraukið skattbyrðar fólks með meðaltekjur og lágar tekjur eru fyrstir allra til að benda okkur á hvílíkt óskaplegt tekjutap það yrði fyrir ríkissjóð að hækka skattleysismörkin.

Sú spurning vaknar óneitanlega hvort þessi umræða fari öll fram í skjóli þess að málið sé nógu flókið til að kjósendur eigi ekki að skilja það?

Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu, 13.4.2007 kl. 00:50

16 identicon

Ég þekki þessar aðstæður og ekki bara af öryrkjum og ellilífeyrisþegum heldur fullvinnandi fólki sem er boðið uppá svona laun.  Að vísu er fullfrískt fólk svo heppið að venjulega er lyfjakostnaður ekki farinn að sliga það jafn mikið og þá veiku.  Í það minnsta ekki fyrr en  það er búið að vinna margfalda vinnu dálítið lengi.    Ég hef meira að segja reynt þessa andstyggðar fátæktarstöðu á eigin beinum og ég veit vel að það þarf andskoti mikið til að gera ekki það sem þú segir um þessa konu, þ.e. að gefast einfaldlega upp.  Ég var bara svo heppin að finna leið út.  Það er því miður ekki á allra færi.   Hvern á að kjósa ?  Ég segi Samfylkinguna.  það er eina stjórnmálaaflið sem virðist hafa nokkurn minnsta áhuga á þessum málefnum.   Sjálfstæðismenn í R-vík sýna t.d. núna hvar áhugasvið þeirra liggur helst með því að gefa námsmönum frítt í strætó.   Forgangsmál ekki satt ?

Anna María Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 00:59

17 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Þess má geta að ég og samstarfsfólk mitt höfum lítt meira á milli handanna en þessi ágæta kona. Við köllumst heilbrigðisstarfsfólk. 

Með BA-gráðu og þeirri 10 þús króna launahækkun sem ég fékk í kjölfarið fæ ég heilar 160 þús kr í mánaðarlaun. 

Ég hefði betur menntað mig í að sjá um dauða hluti. 

erlahlyns.blogspot.com, 13.4.2007 kl. 01:03

18 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Greinilegt að góðærið hefur ekki náð til allra.

Ester Sveinbjarnardóttir, 13.4.2007 kl. 01:05

19 identicon

Heill og sæll, Hlynur Þór og aðrir skrifarar !

ÞETTA ER VIÐBJÓÐURINN, Í HNOTSKURN !; sem þessir, jah....... Hlynur Þór, hvaða nafngift hæfir þeim Geir H. Haarde og Jóni Sigurðssyni bezt, svo undan svíði ?

Það er ekki að furða, þótt lunginn af íslenzku þjóðinni hampi ''útrásar'' fólkinu, hverju undanfarnar ríkisstjórnir hafa hlaðið undir. Hvað með þær hundruðir milljóna, sem glottuleitir peyjar, eins og Björgúlfur yngri, og hans líkar; hafa verið að ausa út í loftið, sjálfum sér til dýrðar, sem og viðhlæjendum sínum ?

Það er skelfilegt, Hlynur Þór og aðrir skrifarar, hversu langt niður þjóðfélagsgerð okkar er komin, ég er reyndar svo reiður; fyrir hönd þessarrar blessuðu konu, sem og annarra, sem við álíka kringumstæður búa, að ég get vart skrifað öllu meir.

Minnist orða móðurömmu minnar forðum; hæst er fallið höfðingjanna, sem mest hreykja sjálfum sér.

Ætli ríkisstjórn Íslands sé tilbúin, að axla ábyrgð á örlögum þess fólks, hvert búið hefir, og býr;; við þessar ömurlegu aðstæður ?

Eiga ráðamenn þessa lands skilið, að komast frá hreinsunareldinum, þá þar að kemur ?

Þakka þér fyrir, Hlynur Þór að fylgja þessarri þörfu umræðu eftir. Þinn er sóminn og heiðurinn.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 02:29

20 Smámynd: Magnús Jónsson

Góðærið hefur greinilega náð til sumra, með hækkuðum bótum nær fólk nefnilega launþega eins og sést á skrifum “ erlahlyns “ með BA-gráðu 160 þús á mán, en konan sem  minnst er á í grein Hlyns er með 148 þús á mán, hvorug er öfundsverð af sínum tekjum en gleymum ekki að alltaf þarf einhver að borga og þessi einhver annar er oftast þú og ég.Átakshópur um “ heilbrigða skynsemi “ vitnar í skírslu sem Alþíðusamband Íslands lét gera og takið nú eftir árið 1999, og tala um að skattamál vefjist fyrir forsætisráðherra hvar er skinsemin í slíkum skrifum.Átakshópurinn telur það athyglivert að einhverjum skuli vaxa það í augum að auka skattþörf ríkissjóðs um 40+ milljarða hvar ætlar hópur þessi að taka þan aur halda þeir að ríkið geti sent reikninginn til útlanda eða til Jólasveinsins.Eitt ráð hef ég handa þessum átakshóp og það er þetta, kynnið ykkur skattamálin eins og þau eru í dag, það er að segja árið 2007. 

Magnús Jónsson, 13.4.2007 kl. 03:13

21 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Ekki hef ég svar handa þessari illa stöddu konu og marga fleyri sem eru í svipaðri stöðu ef ekki á að hækka skattleysismörkin.

Sigfús Sigurþórsson., 13.4.2007 kl. 07:38

22 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Það er ömurlegt til þess að vita hvað svona er algengt. Það á að afnema alla skatta á tekjur eldri borgara og öryrkja, mér finnst það liggja í augum uppi. Jú, hækka skattleysismörkin og hafa svo skattana í þrepum eftir það. Ég get ekki sagt henni hvað hún á að kjósa... ég veit bara að ég ætla sjálf að kjósa Íslandshreyfinguna. Ég er orðin svo leið á þessu kerfiskallakjaftæði og fólki með gervihugsjónir að ég ætla að kjósa eina manninn sem er að springa af alvöru hugsjónum (einhver sem MEINAR það sem hann segir): Ómar.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 13.4.2007 kl. 08:46

23 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Mörgum verður tíðrætt um 40 milljarðana - tölu sem var gripin úr lausu lofti af forsætisráðherra í beinni sjónvarpsútsendingu og átti að vera kostnaður ríkisins við að hækka skattleysismörk upp í 150 þúsund krónur. Ég gat ekki heyrt það, í þeim þætti, að á bak við þessa tölu stæðu einhverjir útreikningar fyrir utan heilaleikfimi Geirs. Það er sjálfsagt það, að hann telst svo trúverðugur, að þessi tala er allt í einu orðin að raunveruleika. Það væri samt gaman að sjá raunverulega útreikninga á bak við þetta.

En menn hafa líka talað fyrir því að útfæra svona í skrefum. Fyrstu skrefin hefðu getað orðið í stað lækkunar tekjuskatts eða matarskatts (sem kemur aðeins til með að skila sér í stutta stund og hverfur sjálfsagt í haf verðhækkana áður en árið er úti). En látum það vera. Einbeitum okkur að "núinu".

Hvað myndi það kosta að byrja á því að hækka skattleysismörk í 120 þúsund? Og hvernig væri hægt að mæta því? Getur verið að með hagræðingu á ríkisrekstri væri hægt að skapa nægilegt svigrúm til þessa? Getur verið að framkvæmdagleði ríkisins og furðuleg forgangsröðun væri eitthvað sem mætti athuga eða skoða? Ég hugsa að það mætti vel finna töluverða peninga "á lausu" ef mönnum dytti í hug að fara aðeins yfir hlutverk ríkisins og þensluna sem hefur orðið á því á óheppilegum stöðum síðustu ár.

Það virðist gleymast að skoða það stundum hvert hlutverk ríkisins er. Og hvar það á að beita sér. Þetta er sérstaklega merkilegt þegar þetta er sett í samhengi við einkunnarorðin "báknið burt" sem hafa verið tengd sérstaklega við einn ákveðinn fliokk hér á klakanum. Hann hefur svosem ekki sinnt þessu. Enda kannski engin þörf á þegar maður er áskrifandi að 40% landsins, sama hvað á dynur. Fólk virðist halda með sínu liði sama hvað...

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 13.4.2007 kl. 10:32

24 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta er alveg örugglega allt sannar sögur það efa ég ekki og það eru ekki bara öryrkjar og gamalt fólk sem fær lág laun, mörg störf eru lágt launuð.  Mér finnst samt einföldun að kenna núverandi ríkisstjórn um allt. Þetta hefur lagast og trúi þeim helst til að halda áfram með málið.  Ég er sjálfsagt mjög heppinn öryrki, hef sem betur fer ekki þessar sömu sögur að segja. Ég kemst til læknis þegar ég þarf, einnig aðrir í fjölskyldunni. Þegar mamma var orðin slök um daginn komst hún nær strax í dagvisun á Landakoti, svo lagaðist hún aðeins og þá gátum við komið henni inn í Sunnuhlíð tvo daga í viku. Ég er að fara í aðgerð trúlega norður, TRST borgar flugið og eða bílinn og göngin. Ekki þarf ég að borga krónu fyrir norðan, frítt á spítalann. Lyfin sem ég þarf að kaupa í hverjum mánuði handa okkur hjónum eru mikið endurgreidd. Heimsókn til læknis á heilsugæslu kostar 100-200 kr. Ég veit ekki, ég er kannski óþolandi sátt við allt. En allavega þá mæli ég með að kjósa Sjálfstæðismenn, þeir hafa reynst mér og mínum best.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.4.2007 kl. 12:04

25 identicon

Það er einmitt kjarni málsins Ásdís. Sjálfstæðisflokkurinn reynist sér og sínum best.

Pétur Tryggvi (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 14:49

26 Smámynd: Magnús Jónsson

Þú Pétur Tryggvi virðist ekki skilja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynst öllum best og gildir þá einu hvar í flokki men standa, aukin velsæld og aukinn kaupmáttur er það sem málið snýst um. 

Magnús Jónsson, 13.4.2007 kl. 22:55

27 identicon

Takk Magnús. Nú skil ég enn betur það sem Hlynur Þór er að benda á.

Pétur Tryggvi (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband